Brynjólfur Sveinsson - biskup

Image
Brynjólfur Sveinsson
Brynjólfur Sveinsson (1639-1674) var fæddur í Holti í Önundarfirði. Hann sigldi 19 ára gamall utan og var fimm ár við háskólann í Kaupmannahöfn. Kom hann þá heim en sigldi nokkrum árum síðar aftur og gerðist konrektor latínuskólans í Hróarskeldu og magister í heimspeki við Hafnarháskóla. Í heimsókn til Íslands var hart lagt að honum að taka við embætti Skálholtsbiskup en hann færðist undan uns konungur skipaði honum að taka við embættinu. Hann var eitt mesta stórmenni sautjándu aldar, röggsamur kirkjustjórnandi, framfarasinnaður í veraldlegum efnum og allra manna lærðastur. Hann bjó yfir víðsýni og umburðarlyndi sem stakk í stúf við rétttrúnað og galdrahræðslu 17. aldarinnar, þótti hann m.a. taka mildilega á galdramálum og orti Maríukvæði í kaþólskum stíl.

Í tíð Brynjólfs urðu skólapiltar í Skálholti nokkrum sinnum uppvísir að kukli og meðferð galdrablaða, en talið er að Brynjólfur hafi vísvitandi komið þeim undan veraldlegu dómsvaldi en vék þeim hins vegar úr skóla. Sumum hleypti hann síðar aftur í skólann, aðrir komu sér úr landi og enn aðra hafði hann í þjónustu sinni árum saman. Sjá nánar Skálholtsmál.

Brynjólfur var áhugasamur um bæði náttúruvísindi og hugvísindi, safnaði fornritum og var áhugamaður um útgáfu þeirra. Þá orti hann talsvert og skrifaðist á við helstu vísindamenn á Norðurlöndum.

Brynjólfur og kona hans eignuðust nokkur börn en einungis tvö þeirra komust á legg. Halldór sonur þeirra dó hálfþrítugur í Yarmouth á Englandi 1666. Ragnheiður Brynjólfsdóttir eignaðist barn í meinum eins og frægt er og lést ári eftir barnsburðinn einungis 22 ára gömul. Brynjólfur tók son hennar að sér og arfleiddi að öllum eigum sínum. Hann lést síðan 11 vetra gamall og svo fór að þessi merki maður átti enga afkomendur. Brynjólfur afhenti Skálholtsstól árið 1674 en hafðist við í Skálholti allt til dauðadags.

Mailing list