Af Einari presti galdrameistara

En fyrir því að mjög barst út fjölkynngi Einars prests á Skinnastöðum og spurzt hafði það vestur í Arnarfjörð þá tóku Arnfirðingar eður aðrir Vestfirðingar ráð það að senda strák einn fjölkunnugan, er nokkrir nefna Björn, norður á Skinnastaði að vita hve Einar prestur væri máttigur. En engar sagnir fást um hvaðan helzt strákur sá væri að vestan. Kom hann á Skinnastaði norður; var þá Jón, sonur Einars, orðinn aðstoðarprestur föður síns.

Þeir feðgar þóttust vita hvurs örendis Björn fór, tóku vel við honum og settu inn í baðstofu. En er hann hafði dvalið þar tvær eða þrjár nætur og þótt heldur hnýsinn um hvað eina störfuðu þeir feðgar eitthvað út í kirkjugarði, en strákur sat á skák inn í baðstofu og sá að meystelpa allung sem vera mundi þriggja eða fjögra vetra kom inn og að honum. Spyr hann hvað hún vildi. Heyrðist honum hún stama því út: „Að drepa þig!" Strákur skipaði henni með harðri hendi að fara í fjósið og drepa beztu kúna fyrir prestinum og nautið; fór hún því fram. Strákur gekk í hámót á eftir henni, magnaði hana og bauð henni að drepa prestana. Hljóp hún fyrst á Jón prest og ætlaði að bana honum. Segja sumir að hann glennti þá greipar út og tæki ársham; var hann því greipaglennir kallaður; aðrir telja að hann jafnan glennti greipar síðan er hann blessaði. Einar prestur kom að í því og þurftu þeir nú allt við að hafa að koma henni fyrir. Er sagt að Einar prestur þættist aldrei í slíka raun komið sem yfirstíga stelpu þessa og setja niður.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
I. bindi, bls. 513-514
(eftir handriti Gísla Konráðssonar)


Mailing list