Galdragrallarinn

Um 1850 bjó maður að Steinanesi í Arnarfirði, sem hét Jón Jónsson og var kallaður Jón eldri. Það var mál manna, að hann væri rammgöldróttur.

Einu sinni varð honum og Hákoni kaupmanni Bjarnasyni á Bíldudal eitthvað sundurorða, og seinast hótaði Jón honum einhverju, en Hákon sagðist ekkert vera hræddur við hann. Jón gengur út úr búðinni í reiði og að húsabaki. Þar tekur hann upp hjá sér hrútskylli og fer að muldra eitthvað yfir honum. Hákon komst á snoðir um þetta. Hann langar mjög til að komast að því, hvað sé í kyllinum, og biður pilt, sem var hjá honum og hét Einar, að reyna til að ná kyllinum af karli og fá sér hann. Einar var ófyrirleitinn. Hann ræðst á karl, tekur af honum kyllinn og einhver blöð, sem hann hafði í vasanum, og fær Hákoni hvort tveggja. Hákon fer í kyllinn og finnur þar fitubita og kopartein með plötu á öðrum endanum. Rúnir voru á blöðunum. Svo kallar hann Jón til sín og sýnir honum kyllinn. Jón verður hamslaus og biður Hákon að fá sér kyllinn og það, sem í honum hafi verið, fyrir hvern mun, því að hann vilji ekki missa það fyrir öll veraldarinnar gæði. Hákon segir, að þá verði hann að segja sér, til hvers hann hafi þetta. Jón er tregur til, en lætur þó loksins til leiðast, því að Hákon sagði, að hann fengi ekki gripi sína að öðrum kosti. Jón segir, að þegar hann hafi rúnablöðin og koparteininn, þá geti hann vakið upp drauga eins og að eta smér. Fitubitinn sé mannsístra, og sé hún gagnleg til margra hluta. Sér þætti að vísu sárt að missa þetta allt, en þó væri það heima hjá sér, sem honum þætti mest í varið. Hákon spurði, hvað það væri, Jón sagði, að það væri grallarinn, snúinn og rangfærður í rammasta guðlast. Hákon fékk honum nú kyllinn og það, sem í honum var, og veitti svo karlinum vel ofan í kaupið, svo að þeir skildu sem beztu vinir, en áður lofaði Jón Hákoni, að hann skyldi sýna honum grallarann við næsta tækifæri. Hákon sagði, að það væri vel gert. Þegar karl kom næst í kaupstaðinn, hafði hann með sér grallarann, sem hann kallaði svo, og sýndi Hákoni, en þegar til kom, var þetta fúið og rotið eintak af Sciagraphia Hálfdanar Einarssonar (þ.e. bókmenntasaga Íslands, gefin útí Kaupmannahöfn 1777). Ekki er þess getið, að Hákon hafi sagt karli, hvernig í öllu lá, en það er víst, að Jón eldri var talinn galdramaður, eftir og áður.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 264-265
(eftir sögn Þorleifs (Hákonarsonar) Bjarnasonar, cand. mag.)

Mailing list