Heybindingin

Einu sinni sendi séra Hálfdan suður í Tjarnir og bað kerlingu að ljá sér mann til heybindingar, en kerling fór sjálf út eftir. Þegar hún kom út að Felli, þótt presti hún ekki sem líklegastur liðsmaður og hafði orð á því við hana, hvort hún hefði ekki getað sent einhvern annan. „Taktu þá ekki ómannlegar við en eg bind," svaraði kerling. Baggasæti var um allt Fellstún. Prestur fór nú að fjóstóttinni og bjóst til þess að taka við, en kerling gekk út á tún; gekk hún þar að hverri sátunni eftir aðra, potaði undir hana mannsrifi og sagði: „Upp, upp, sáta og heim í tótt." Sumir segja, að hún hafi látið ósýnilegar hendur binda sáturnar og potað svo rifinu undir baggana, en hvort sem var, fór hver sáta eða baggi þegar á loft og heim í tótt; þóttist prestur aldrei hafa komizt í jafn krappan dans eins og að taka við og hlaða heyinu. Um nón var allt sætið af túninu komið heim í tótt. Kerling gekk þangað, og var prestur þá að hlaða úr seinustu sátunni. „Þótti þér ekki bindingin ganga fullvel?" spurði hún. „Ekki lasta ég það," svaraði prestur, „en vel hafði eg undan að taka við." Þá sagði kerling: „Ja, þér var það nú ekki þakkandi, því að þú hafðir alltaf einum fleira en eg til þess að hjálpa þér."

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 166