Hollenzka duggan

Einu sinni sem oftar komu hafísar miklir so ekkert útlenzkt skip gat komið til Reykjafjarðar. En margt vantaði þá Víkurmenn, þó mest tóbak. Var það einn messudag að Árnesi að lónaði lítt ísinn hið dýpra í flóann. Sást þá hollenzk dugga. Talaði þá margur illa til íssins og óskuðu skipinu til hafnar. Heyrir Sveinn bóndi á Finnbogastöðum það og segir hvað menn mundu til gefa að skipið væri til hafnar komið næsta dag og kváðust fátæklingar kaupa mundu dýrt ef gæti. Veður vara sama um nóttina, en að morgni lá skipið fyrir attkeri á Norðurfirði. Sögðu skipverjar so frá að um kvöldið rifaði ísinn lítt so að þeir gátu beitt til Norðurfjarðar, en lukti jafnóðum og þeim gekk. Þökkuðu menn það brögðum Sveins því líka skorti hann tóbak.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 567
(eftir handriti Tómasar á Gróustöðum)

Mailing list