Gísli Magnússon - sýslumaður

Gísli Magnússon (1621-1696) sýslumaður á Hlíðarenda í Rangárvallasýslu fæddist inn í eina auðugustu ætt 17. aldar. Faðir hans var Magnús Björnsson sýslumaður í Eyjafirði, sá hinn sami og stóð fyrir fyrstu galdrabrennunni á Íslandi. Aðeins ellefu ára gamall hóf Gísli nám við Skálholtsskóla, var þar í þrjú ár og önnur þrjú í Hólaskóla. Hann hóf síðan nám við Kaupmannahafnarháskóla árið 1639 og var mestmegnis við nám erlendis, þ.á.m. í Hollandi (þar sem hann sat fyrirlestra Descartes) og Englandi, til ársins 1646. Hann lagði stund á náttúrufræðigreinar, einkum grasafræði, læknisfræði og efnafræði, en einnig heimspeki, tungumál og stjórnmálafræði. Hlaut hann af lærdómi sínum viðurnefnið Vísi-Gísli.

Meðal þess sem fangaði hug Gísla var hagnýting innlendra náttúruauðlinda og aukin velsæld þjóðarinnar. Hann gerði sér háar hugmyndir um viðreisn Íslands og ferðaðist nokkuð um landið en skrifaði þó ekkert um náttúru- eða landafræði eins samtímamenn hans lærðir gerðu margir hverjir.

Gísli flutti til dóttur sinnar í Skálholt árið 1685 og bjó þar til æviloka.

Mailing list