Mál Guðrúnar Magnúsdóttur

Eitt af því algengasta sem menn voru ákærðir fyrir var að vera valdir að veikindum (ca. 35 ákærðir) eins eða fleiri manna og/eða skepna. Flest mál sem látin voru niður falla voru af þessu tagi, líkur þóttu þá of litlar og annað kom ekki fram sem gaf tilefni til „frekari rannsaks“. Þó var nokkur fjöldi hýddur eftir áburð af þessu tagi þótt ekkert hafi sannast. Ákærendur virðast iðulega tilbúnir að sverja að þeir vissu ekki betur en að tiltekinn nágranni væri valdur að veikindunum þótt ástæðurnar komi ekki alltaf fram. Kannski gamlar væringar eða illilegt augnatillit við messu. Óútskýrð veikindi voru upphafið að sumum verstu brennumálunum svo sem Selárdalsmálunum, Þumlungsmálunum og jafnvel Trékyllisvíkurmálunum.

Dæmigert smámál af þessu tagi úr Strandasýslu er ákæra Guðrúnar Magnúsdóttur á Kaldaðarnesþingi 1660. Guðrún lýsir því yfir að hálfu fjórða ári fyrr hafi komið yfir hana „óvenjulegur veikleiki, svo ég var slegin um koll með skjálfta og ofboðningu fyrir hjartanu og allt mitt hold í ófrið“ og veikindin hafi hrjáð hana síðan með hléum. Hún telur „rök og líkindi“ til þess að krankleikinn sé af mannsvöldum og þykir líklegast að orsakanna sé að leita hjá Jóni Bernharðssyni. Guðrún nefndi líka Halldór Jónsson og Atla Sigurðsson, en hvað síðan gerðist vitum við ekki því fyrir utan ákæruna finnst ekkert í heimildum um þetta fólk.

Mailing list