Skræðumál Jóns Pálssonar

Haustið 1676 var haldið merkilegt dómþing á Kaldrananesi. Þar var Jón Pálsson lagður á grúfu og hýddur „sem næst gekk lífi“ ef sýslumaður hefur fylgt út í æsar úrskurði lögréttu frá því um sumarið. Húðlát með hrísvendi var ekki mikil nýjung á þessum tíma en hitt hefur vafalaust verið meira sjónarspil að meðfram voru brennd upp í nasirnar á Jóni níu galdrablöð í þeirri trú að mengunin myndi lækna hann af öllum galdraþönkum um ókomna framtíð.

Allar upplýsingar um þetta mál er að finna í Alþingisbókinni frá 1676 og þar segir að Magnús Jónsson sýslumaður Strandamanna hafi lagt dóm um mál Jóns Pálssonar fram til staðfestingar og til að fá ákvarðaða refsingu. Í dómnum segir að sýslumaður hafi sjálfur fundið níu pappírsblöð í hirslu Jóns en ekki er nefnt hvernig á þeim fundi stóð. Jón hafði viðurkennt fyrir yfirvaldinu að hafa skrifað blöðin sem á voru:

margslags óvenjulegir characteribus með tveimur tóustefnum og ... vanbrúkun guðs heilaga nafns.

Það hefur sennilega bjargað Jóni að á Kaldrananesi höfðu sveitungar sakborningsins borið honum „meinlausa kynningu“ og talið var fullvíst að hann hefði ekki brúkað fjölkynngina til meins. Jón nýtur þess sem sagt við ákvörðun refsingar að hann var vel liðinn í Kaldrananeshreppi. Samkvæmt öðrum málum má ætla að niðurstaðan hefði verið önnur ef maðurinn hefði verið illa liðinn og sérstaklega ef hann hefði verið aðkomumaður.Síðari hluti refsingarinnar er óneitanlega kímilegur í okkar augum þótt reykeitrun sé ekkert grín. Eitt fordæmi er þó þekkt fyrir henni í galdramálum 17. aldar.

Árið 1639, þegar fyrst fór verulega að brydda á galdramálum var Oddur Jónsson úr Árnessýslu (kallaður Sanda-Oddur) dæmdur til hýðingar fyrir stafamyndir og rúnastafi og „þau blöð brennd fyrir vitum hans.“ Skýrt er tekið fram að Oddur hafi ekki kveinkað sér við hýðinguna en þegar reykinn af blöðunum lagði fyrir vit hans á hann að hafa sagt:

Það veit Kreistur minn, ég þoli það ekki.

Oddur var ekki vel látinn maður og hafði áður staðið í ýmsum illdeilum sem komu fyrir alþingi.


Mailing list