Inngangur

Heimildir um galdramál á Íslandi eru mismiklar og misgreinagóðar. Um þau fáu mál sem vitað er um fyrir siðaskipti eru þær brotakenndar. Sem dæmi má taka líflát Katrínar nunnu á Kirkjubæjarklaustri 1343. Á aftökuna er minnst í Nýjaannál og þar sagt að biskup hafi degraderað „systur í Kirkjubæ um páfa blasphemiam, og síðan var hún brennd.“ Flateyjarannáll segir hins vegar svo frá málinu: „Brennd ein systir í Kirkjubæ, er Kristín hét, er gefizt hafði púkanum með bréfi. Hon hafði ok misfarit með guðs líkama ok kastat aftr um náðahústré, lagizt með mörgum leikmönnum.“ Allar fullyrðingar fram yfir þessar upplýsingar eru getgátur.

Annað er upp á teningnum þegar kemur fram á brennuöld en þó eru heimildir mjög mismiklar um einstök mál. Alþingisbækur yfir allt tímabilið eru til, en það sem varðveist hefur af dómabókum úr héraði er ákaflega brotakennt. Einstaka héraðsdómar eru til þar sem mál eru svo nákvæmlega rakin að á stundum er hægt að lesa úr þeim heilu yfirheyrslurnar. Greinabestar eru upplýsingar um þau mál sem tekin voru fyrir og dæmd á Öxarárþingi en þegar þar er um að ræða staðfestingar á héraðsdómum eru upplýsingarnar oft takmarkaðar. Um eitt mál segir til dæmis aðeins að Magnús Magnússon sýslumaður hafi lesið upp dóm úr Önundarfirði og svar lögmanna og lögréttu er að málið skuli höndlast samkvæmt lögum og kóngsbréfi frá 1617. Þessi tilvísun í kóngsbréfið og svo fyrirsögnin í Alþingisbókinni, „Um töframál“, segja okkur að um galdramál sé að ræða en annars er ekki meira vitað um þetta mál. Í fáeinum tilvikum sýnist einum að brotakenndar upplýsingar bendi til þess að um galdramál sé að ræða á meðan aðrir túlka heimildir á allt annan veg. Sum mál sem borin voru undir alþingi eru send aftur heim í hérað til „frekara rannsaks“ og þar við situr og ekki vitað hvað um málin varð. Því er ekki vitað hver urðu endalok milli fimmtán og tuttugu prósenta íslenskra galdramála. Upplýsingar um þau verða því seint ótvíræðar og tölur um galdramál á Íslandi verður alltaf hægt að véfengja.

Um það bil 170 manns voru ákærðir fyrir einhvers konar kukl og eru konur þar um tíu af hundraði. Rúmlega hundrað mál voru tekin fyrir á alþingi, sum einu sinni en önnur oftar. Vel þriðjungur galdramála snerist um notkun forboðinna kúnsta til að valda veikindum og næstum eins stór hluti snerist um meðferð stafa og galdrabóka. Önnur mál fjalla um eyðileggingu á búfé, sendingar, lækningar, veðurgaldra og annað kukl til að auðvelda sér lífsbaráttuna. Loks má nefna að guðlast er oft nefnt sem hluti af ákærum.

Tuttugu og einn Íslendingur var brenndur fyrir galdra, þar á meðal ein kona. Við þessa tölu mætti bæta fjórum aftökum þar sem galdur tengdist máli eða gæti hafa gert það. Fjórðungur þeirra sem ákærðir voru á Íslandi voru hýddir og um það bil jafn stór hluti var sýknaður. Fáeinir hlutu útlegðardóma og um það bil tugur manna strauk áður en réttvísin náði að hegna þeim.

Ekki er hægt að segja að samræmi hafi verið í dómum því fyrir svipaðar sakir og líkur voru sumir dæmdir sýknir saka á meðan aðrir voru hýddir, sumir lítillega en aðrir hlutu þrjár hýðingar, allar „sem næst gangi lífi“. Sumir voru hýddir þótt ekkert sannaðist á þá og virðist þar ráða mestu hvort menn höfðu á sér gott orð. Í öðrum tilvikum þótti dómurum öruggara að hýða menn þótt ekkert sannaðist.

Mailing list