Hof og heiðin blót

Heiðnir menn til forna reistu hof til heiðurs guðunum þar sem haldin voru blót og blótveislur. Þar leituðu þeir ráða hjá guðunum og færðu þeim fórnir. Merkilegasta lýsingin á heiðnu hofi er í Eyrbyggja sögu þar sem segir frá hofi því sem Þórólfur Mostrarskegg reisti:

Þar lét hann reisa hof og var það mikið hús. Voru dyr á hliðveggnum og nær öðrum endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan.

Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda.

Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því, er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð, er svæfð voru þau kvikindi, er goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu.