Goðdalur - saga og fornleifar. Magnús Rafnsson

MagnusRafnssonBjarnarfjarðar er sjaldan getið í heimildum frá fyrri öldum, byggðin hefur verið utan alfaraleiða bæði vestur í Ísafjarðardjúp og eins norður eftir Ströndum, en þangað var venjulega farið eftir Trékyllisheiði ofan byggðar í Kaldrananeshreppi. Kaldraness er stöku sinnum getið í Sturlungu en annara bæja í hreppnum ekki. Það er hins vegar athyglisvert hve mörg örnefni í Bjarnarfirði tengjast heiðnum sið. Ólafur Briem nefnir fjóra fossa á landinu sem bera nafnið Goðafoss.[1] Þeir eru í það minnsta fimm og þar af tveir í Bjarnarfirði (annar í Goðdal) en Ólafur nefnir aðeins annan þeirra. Þá nefnir Ólafur 18 örnefni sem dregin eru af hörgum[2] en tveir af þessum stöðum eru í Bjarnarfirði, Hörsey og Hörsvík.
Í sögulegum heimildum er Goðdals fyrst getið meðal eigna Guðmundar Arasonar árið 1446[3] og fylgdi þá höfuðbólinu Kaldrananesi. Í skiptabréfi eftir Ólöfu Loptsdóttur ríku frá 1480[4] er Goðdalur talinn með þeim jörðum sem Þorleifur Björnsson hirðstjóri hlaut í sinn hlut.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er jörðin metin til 8 hundraða (12 ef kotið Tungukot sem einnig var í dalnum er talið með) og eigendurnir sagðir „Sr. Gísli og Benedikt Hannessynir að Snæfjöllum við Ísafjarðardjúp[5]. Hofrústanna sem munnmæli greina frá er ekki getið í Jarðabókinni og heldur ekki í næstu tveim heimildum um jarðir í Kaldrananeshreppi. Í skýrslu um fornaldarleifar til Hinnar konunglegu fornleifanefndar frá 1817 er getið um „Goda leídi í God=dal heillaúng Steinrúst lík gardi” og einnig um Þorbjarnarhaug sem er allangt frá bænum – en hofrústarinnar ekki getið.[6]
Tvær lýsingar eru á Kaldrananessókn í Sóknalýsingu Vestfjarða II. bindi. Þar er haugsins einnig getið og því bætt við að sögn sé um að „goði sá, sem dalurinn er við kenndur sé þar heygður.”[7] Allar sagnir um hof í Goðdal eru frá nítjándu og tuttugustu öld. Þær er fyrst að finna í Vestfirskum þjóðsögum, (útg. Arngrímur Fr. Bjarnason, Reykjavík 1955-6). Annars vegar skráði Arngrímur Fr. Bjarnason söguna af Þorbirni, síðasta goðanum í Goðdal, og endalokum hofsins[8] og hins vegar tengda sögn um Goðafoss.[9] Ekki kemur fram hverjir heimildarmenn Arngríms voru.
Árið 1947 kom út héraðslýsingin Strandamannabók eftir Pétur Jónsson frá Stökkum. Þar segir: „Bæjarnefnið bendir til þess að þar hafi staðið hof til forna, enda hefir til skamms tíma sézt þar fyrir fornlegum rústum, sem talið er líklegt, að vera muni fornar hoftóttir."[10] Einna besta heimildin um munnmæli tengd Goðdal er að finna í örnefnaskráningu í safni Þjóðminjasafnsins. Rósmundur Jóhannsson (f.1883) bóndi á Gilstöðum í Steingrímsfirði skráði örnefnin, en hann dvaldi á unglingsárum sínum í Goðdal. Í örnefnaskránni, sem hann skráði 1949, segir bæði af Goða og þeirri helgi sem hvílir á haugnum svo og á svokölluðum Bólbala sem talinn var álagablettur tengdur heiðnum sið innan vébanda hofsins. Á balanum byggði síðasti bóndinn í Goðdal bæ sem varð fyrir snjóflóði 12. desember 1948 og fórust þar sex heimilismenn. Rósmundur segir svo frá:
Á balanum undir hlíðinni eru fornar húsarústir. Munnmæli herma að þar hafi staðið hof til forna, og Goði gamli sem heigður á að vera í Goða yzt í túninu hafi verið hofgoði þar, en goðunum hafi verið steypt í Goðafoss, sem er þar góðan spöl fyrir innan. Ef svo hefði verið, þá er ekki ósennilegt að kristna trúin, er hún komst á hafi orkað svo á hugi manna, að talið hafi verið, að á bletti þessum hafi verið sérstök óhelgi, vegna blóta þeirra er þar hefðu verið framin, að ekkert mætti hreyfa eða flytja burt þaðan, án þess að óblessun fylgdi
Aðrar heimildir um hofið í Goðdal eru allar skráðar eða hljóðritaðar eftir að Goðdalur fór í eyði eftir snjóflóðið. Ingibjörg Sigvaldadóttir (f. 1912) húsfreyja á Svanshóli minnist þess að faðir hennar, Sigvaldi Guðmundsson á Sandnesi (hann var einn af heimildamönnum Arngríms Fr. Bjarnasonar á Ströndum), hafi sagt við bóndann sem byggði á Bólbalanum í Goðdal að hann hefði ekki átt að vera að hreyfa við hofrústinni meðan á byggingu bæjarins stóð. Bóndi harðneitaði að hafa raskað við tóttinni, sagðist einungis hafa ekið í hana jarðvegi. Í Árbók Ferðafélags Íslands, 1952 segir Jón Hjaltason: „En Goðdalur hefur fyrr verið vettvangur sorglegra viðburða og slysa. Er með nokkrum hætti sem yfir dalnum hvíli goðagremi, og vilji vættir landsins einir byggja staðinn.”[11]
Til eru yngri skráningar sömu sagna, svo sem grein Guðrúnar Níelsdóttur, „Sagnir úr Goðdal”.[12] „Á hólnum, þar sem hofið stóð, sá fyrir rústum til skamms tíma” (bls. 66). Sagnir um Goðdal er einnig að finna í segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar:

SÁM 92/2685 EF – Þuríður Guðmundsdóttir Bæ (f.1901) – 16.03.1972 og 24.01.1977.
SÁM 91/2360 EF – Sigurður Guðjónsson Eyjum (f.1886) – 09.07.1970.
SÁM 91/2367 EF – Ingimundur Ingimundarson Svanshóli (f.1911) – 12.07.1970.
SÁM 90/2295 EF – Benedikt Benjamínsson Brúará (f.1893) – 13.05.1970.
SÁM 91/ 2357 EF – Sófus Magnússon (f.1893) – 08.07.1970. Auk þess er þar að finna viðtal við Rósmund, höfund örnefnaskrár Goðdals með æviatriðum hans: SÁM 91/2368 EF 13.07.1970. 

---

[1] Heiðinn siður á Íslandi, Reykjavík 1945, bls 77.
[2] Sama rit, bls 134.
[3] Ísl. fornbréfasafn IV, bls. 686.
[4] Ísl. fornbréfasafn VI, bls. 256.
[5] Jarðabókin VII, Kaupmannahöfn 1940, bls. 362.
[6] Sveinbjörn Rafnsson (útg.): Frásögur um fornaldarleifar, Reykjavík 1983, bls. 441.
[7] Sóknalýsingu Vestfjarða – II. Ísafjarðar- og Strandasýslur, Reykjavík 1952, bls. 256.
[8] Vestfirzkar þjóðsögur I, útg. Arngrímur Fr. Bjarnason, Reykjavík 1955-6, bls. 8.
[9] Sama rit, II. bindi bls. 14.
[10] Pétur Jónsson: Strandamannabók, Guðni Jónsson bjó undir prentun, Reykjavík 1947, bls. 45.
[11] Jóhann Hjaltason: "Strandasýsla" Árbók Ferðafélags Íslands 1952, bls 102.
[12] Strandapósturinn X. árg. (1976) bls. 66-9.