1625

Svellavetur. Kötlugos.
Fyrsta galdrabrennan á Íslandi. Jón Rögnvaldsson var brenndur á Melaeyrum í Svarfaðardal eftir dóm fyrir fjölkynngi. Jóni var gefið að sök að hafa vakið upp draug og sent á pilt á Urðum, þar sem draugurinn drap hesta og gerði fleiri skráveifur. Magnús Björnsson, síðar lögmaður reið í Svarfaðardal og þótti málið sannað þegar í hirslum Jóns fundust gögn sem á voru rúnir og ískyggilegar teikningar. Þorvaldur skáld, bróðir Jóns, orti þetta á gamalsaldri:

Á þegar leið minn aldur
angrið fékk að stilt,
að bróður báru galdur,
berlega fóru vilt,
var hann ei að því valdur,
vissi ég um þann pilt,
alt um of einfaldur,
- á það við oss skylt.

Ályktun um dóm úr Snæfellssýslu vegna veikinda Svarts Jónssonar sem hann sagði að Ormur Þorleifsson ylli. Dæmt var að Svartur skyldi leiða fram tvö vitni í héraði sem áttu að sanna að Ormur hefði heitast við Svart. Að þeim löglega leiddum skyldi dæmt húðlát.

Mailing list