1671


Brenndur á Alþingi Sigurður Jónsson úr Vatnsfirði. Sigurður viðurkenndi að hafa farið með fjölkynngi og sagði svo frá að hann hefði fyrst reynt gráurt við galdur sinn en það hefði ekki hrifið. Greip hann þá til vallhumals sem hann notaði með kvikasilfri úr fjöðurstaf og sæði sínu ásamt staf sem hann risti á eikarspjald og versi sem hann sjálfur orti. Úr hraunversi til að losa færi úr botni kunni hann einnig nokkuð. Ennfremur sagðist hann hafa mætt sendingu, varði hann sig með særingum og formælingum en lagðist loks niður, tók græðisvepp, lét drjúpa í hann tvo blóðdropa af vörum sér og grýtti í andskotann.

Annar strýktur fyrir galdra, hét Jón Úlfsson. Eggert Bjarnason sýslumaður á Skarði bar fram galdramálsrekstur sýslumanna á Barðaströnd um Jón Úlfsson en hann vildi ekkert meðkenna, var honum dæmd hýðing sem næst lífi hans.

Í Árneskirkjusókn urðu hjón bráðdauð, Jón Arnórsson og hans kona, létust með vikubili.

Jón Vigfússon yngri sver af sér galdur sem átti að hafa orðið til þess að danskt skip strandaði á Landeyjarsandi. Þorleifur Kortsson kom að málinu. Jón varð síðar biskup á Hólum við lítinn fögnuð heimamanna.

Mailing list