1678


Brennd á Vestfjörðum Þuríður Ólafsdóttir og Jón sonur hennar fyrir að vera völd að sjúkleika maddömu Helgu í Selárdal með galdri. Hafði konan verið alla sína daga í Skagafirði og aldrei orðuð við galdur. Kom vestur vorið 1677, sem aðrir fátækir, með syni sínum, illa kynntum Jóni, þó fyrir utan galdrarykti. Hafði sonur hennar sagt að hún hefði farið yfir vatnsföll öll norðan, fyrir utan hesta eða ferjur og brúkað galdur til. Var lygum hans trúað og þau tekin bæði og brennd.

Í Húnavatnssýslu Stefán Grímsson borgfirskur og mikið drengmenni brenndur fyrir galdra.

Tveir galdramenn strýktir á alþingi úr Húnavatnsþingi, báðir af Skagaströnd.

Á alþingi voru strýktir 2 menn úr Húnavatnssýslu, Magnús Benediktsson og Clement Úlfsson fyrir galdraáburð og eiðfall.

Þórði Guðmundssyni, skólagengnum, dæmd hæsta húðlátsrefsing fyrir galdrablaðaskrif eftir bón annars. Átti sú refsing að leggjast á hann heima í héraði í Árnessýslu.

Stóðu þá og mál Ara Pálssonar (brenndur 1681) er borinn var fyrir göldrum vestra og þess að hann hefði verið valdur að veikleika Þorkötlu Snæbjarnardóttur á Lokinhömrum, konu Magnúsar Guðmundssonar.

Mál á hendur séra Árna Loftssyni fyrir galdra hefst. Borið var á hann að hann hefði með fordæðu og fjölkynngi hleypt þvingunarsömum veikleika á Rögnvald mág sinn og konu hans. Málinu var haldið áfram á prestastefnu árið eftir og „þóttu veikar ástæður Rögnvalds“. Eftir sættir fékk Rögnvaldur Strandasýslu og hélt henni í nokkur ár.

Fjallað um galdraskrif Þórðar Guðmundssonar úr Vatnsleysuþingi á alþingi. Hann skrifaði átta smáblöð og var dæmdur til húðláts eða útlegðar. Það fyrra varð ofaná.

Lýsti Guðrún Halldórsdóttir á Stað í Steingrímsfirði eftir langa þögn Sigurð Guðmundsson föður að barni sínu, Teiti. Hann sór fyrir barnið á Hróbergi.

Mailing list