1680


Þetta vor snemma fór Árni prestur Jónsson frá Hofi á Skagaströnd snögglega burt er honum hafði til eiðs dæmt verið fyrir galdraáburð allmargra manna í kirkjusóknum hans tveimur, Hofs og Spákonufells. Hann kom fram á Austfjörðum og sigldi þaðan til Englands.

Einar prestur Torfason kom og út, hafði farið með mál sitt, og fengið að halda embætti en ei kallinu. Fékk hann seinna Stað í Reykjanes og var þar enn ei vinsæll.

Þá voru borin í lögréttu nokkur galdrablöð er tólf menn vildu meina að væru með hendi Jóns Eggertssonar. Á því þingi stefndi Jón Eggertsson Magnúsi Jónssyni lögmanni 12 mánaða stefnu fram í Kaupenhafn fyrir 16 sakir fyrir kónginn og ráðið og fyrirbauð honum nokkra eiða að taka um sig eða nokkurn dóm dæma. Lögmaður tók engu að síður eiða um að þeir héldu að Jón Eggertsson hefði með eigin hendi skrifað þetta rúnablað. Var síðan sett til alþingis hvað háan eið Jón skyldi hafa fyrir áðurnefnt blað.

Fordæðu- og galdrayfirgangur á Vestfjörðum, einkum í Ísafirði, þar voru kvaldar þrjár kvenpersónur og í Trékyllisvík gat presturinn ei þjónustu framið í kirkjunni.

Bar Vilborg Ísleifsdóttir galdraáburð upp á Gísla Árnason um sinn veikleika, dæmdist honum sökum líkindaleysis tylftareiður með fangavottum í Hrafnseyrarþingsókn, hvern hann ei fullkomlega framkvæmt gat. Var hann þar fyrir síðar strýktur.

Höskuldi Sveinssyni úr Aðalvík dæmt húðlátsstraff sem næst gangi lífi fyrir galdrablaða meðferð.

Mailing list