1681


Brenndur á alþingi Ari Pálsson úr Barðastrandarsýslu hvers mál lengi yfirstaðið hafði og til margra alþinga komið. Upp á hann var borinn og svarinn galdraáburður af Þorkötlu Sveinbjörnsdóttur sem og fleira.

Viðurkenndi Ari eftir að líflátsdómurinn var upp kveðinn fjölkynngiskonst, að kunna kotruvers og að vita hvort konur væru óspjallaðar meyjar. Á Lokinhömrum fannst galdraspjald eftir að Ari fór þaðan. Meðkenndi hann sig dauða verðan og var brenndur. Ari var hreppstjóri og svo búinn í skart að margir höfðingjar keyptu klæði hans.

Komu fram galdrablöð úr Austfjörðum á alþingi.

Guðbrandur Bjarnason úr Kjalarnesþingi átti galdrablöð sem húsbóndi hans brenndi að sýslumanni óspurðum. Guðbrandur fékk húðlát, sagði blöðin komin frá norðlenskum vermanni. Loptur Sigurðsson útileguþjófur náðist af Hrútfirðingum við fyrirsátur með hóp fjár um haustið. Náðist í Vatnaflóa er hann ætlaði í Surtshelli hjá Kalmannstungu. Hafði hann haldið við gifta konu og lagst út með henni og konu sinni. Var önnur konan með barni. Voru þá með þeim þremur 5 börn þeirra; hafði Loptur víða rænt og stolið. Var hann hinn mesti óaldarmaður. Var færður valdsmönnum og höggvinn sama haust en önnur konan fékk húðlát.

Drukknaði í Skeiðará austur Gvöndur Þórólfsson, illa ræmdur, er af Ströndum strauk.

Mailing list