1684


Mál Jóns Eggertssonar þar sem galdrablöð voru lítill hluti af pólitískum átökum kom fyrir á alþingi, sjá 1680.

Í Hrútafirði í Strandasýslu féll Björn Höskuldsson með þeirri konu er skilgetin bróðir hafði áður með fallið. Voru bæði flutt til alþingis; var konunni þar drekkt en Björn slapp úr járnum á alþingi með því móti að þessi kona (Helga Gunnarsdóttir) komst að lyklunum og gat upp lokið hans handjárnum en hann sjálfur síðan fótjárnunum. Björn stal hesti og reið síðan á Vestfirði og sigldi með engelsku varnarskipi.

Ókyrrleiki í Hnappadalssýslu líka af Vestfjörðum svo 11 manns þar meintust af gerningum þvingaðir vera.

Um haustið rak mikla síld á Hrútafirði er sumir nefndu marþvöru, svo hún var í lestarferðum sótt úr næstu sveitum. Ei var það kölluð heilnæm fæða þá hún tók að eldast.

Á prestastefnu í Skagafirði var fullyrt að biskupsefni konungsvaldsins, Jón Vigfússon yngri, hefði verið borinn galdur (sjá 1671). Var það ein ástæða þess að prestar vildu ekki samþykkja embættisveitingu Heidemanns fógeta.

Reið landfógeti Heidemann vestur undir Jökul og minntist á líflát Sveins er brenndur hafði verið. Auglýsti Heidemann kongl. instrux að stórbrotamenn skyldu ekki hér í landi réttast fyrr en kóngsins andsvar væri þar um komið. Ætlaði hann vestur til Selárdals en hindraðist sökum snjóa og ófærða.

Mailing list