Ferðamálaráð styrkir Strandagaldur

25. janúar 2005
Þau ánægjulegu tíðindi bárust forsvarsmönnum Strandagaldurs í dag að Ferðamálaráð hefði ákveðið að styrkja uppbyggingu á Kotbýli kuklarans að Klúku í Bjarnarfirði, annan áfanga Galdrasýningar á Ströndum með framlagi upp á tvær milljónir króna. Alls bárust Ferðamálaráði 146 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári en auglýst var eftir umsóknum um styrki um miðjan desember síðastliðinn.

Þessi styrkur er mjög mikilvægur fyrir uppbygginguna í Bjarnarfirði sem hefur staðið yfir í nokkur ár og gerir það væntanlega að verkum að áætlanir um opnun áfangans gangi eftir í sumar. Kotbýlið sjálft er fokhelt um þessar mundir en eftir er að vinna mikla hugmyndavinnu við hönnun sýningarinnar og við hönnun og gerð sýningar- og afþreyingarsvæðis í kringum kotbýlið.

Mailing list