Skoffín, skuggabaldur og urðarköttur

Þjóðsögur Jóns ÁrnasonarSkoffín, skuggabaldur og urðarköttur eru hættulegar og illar skepnur sem til eru frásagnir af í íslenskum þjóðsögum og sögnum. Skoffín er skepna sem kemur úr hanaeggi. Þegar hanar verða gamlir þá eiga þeir eitt egg og eru þau egg miklu minni en önnur hænuegg. Ef hanaeggi er ungað út þá kemur úr því sú meinvættur að allt sem hún lítur á liggur steindautt, svo banvænt er augnaráð hennar. 

Einu sinni bar svo til við kirkju á einum stað að jafnóðum og fólkið gekk út úr kirkjunni að lokinni messu að það datt dautt niður fyrir framan kirkjuna. Hinir aðgætnari úr söfnuðinum tóku eftir þessu og þó einkum djákninn. Hann stöðvar fólkið sem er að þyrpast út úr kirkjunni. Síðan tekur hann á það bragð að binda spegil við langa stöng. Djákninn stendur sjálfur inni í kirkjudyrunum og réttir stöngina upp með kirkjuþilinu framanverðu það hátt að hann gerir ráð fyrir að hún nái upp fyrir kirkjuburstina. Biður hann svo alla út að ganga og varð þar engum illa af meint.

Djákni hafði vitað sem var að það stæði skoffín uppi á kirkjuburstinni sem hefði horft á alla þá sem úr kirkjunni gengju og drepið þá samstundis. Þegar djákninn rétti upp spegilinn þá sá skoffínið spegilmynd sína sem veldur því að þessi kvikindi drepast samstundis.
 
Sama náttúra fylgir skrímsli því sem kallað er skuggabaldur. Skuggabaldur eru í föðurætt af ketti en í móðurætt af tófu, en aðrir segja af ketti og hundi. Skuggabaldrar eru mjög skæðir og ráðast á fé en ekki virka neinar byssur á þá. Einn skuggabaldur hafði eitt sinn gert mikinn skaða í sauðfé Húnvetninga. Fannst hann loksins í holu sinni við Blöndugil og þar varð hann drepinn af mannsöfnuði. Rétt áður en hann var stunginn þá sagði hann þessi orð: „Segðu henni Bollastaðakisu að hann skuggabaldur hafi verið stunginn í dag í gjánni.“ Þetta þótti undarlegt. Bani skuggabaldurs kom síðan að Bollastöðum og var þar yfir nótt. Lá hann uppi í rúmi um kvöldið og sagði frá þessari sögu. Gamall fressköttur sat á baðstofubita. En þegar maðurinn hermdi orð skuggabaldurs þá hljóp kötturinn á hann og læsti sig fastan með klóm og kjafti. Ekki náðist kötturinn fyrr en höfuðið hafði verið stýft af honum, en þá var maðurinn dauður.
 
Þriðja kvikindið sem þessi náttúra fylgir er urðarköttur, kvikindi sem lagst hefur á ná og verið samfleyta þrjá vetur neðanjarðar í kirkjugarði. Engin skepna hvorki menn né málleysingjar mega standast augnaráð nokkurra þessara meinvætta og liggja þegar dauðir ef þeir verða fyrir tilliti þeirra. Það eru einungis tvær aðferðir sem hægt er að nota til þess að drepa þessar skepnur.

  • að koma þeim til þess að horfast í augu við sjálfa sig
  • skjóta á þær með silfurhnöppum úr byssu sem þríkrossað hefur verið fyrir byssuhlaupið á.

Ástæðan fyrir því að silfur er notað er vegna þess að það er álitið vera vörn gegnum illum vættum meðal annars vegna þess að þjóðtrúin álítur silfur vera hinn hreinasta málm.
 
Björk Bjarnadóttir er umhverfis-þjóðfræðingur og er starfsmaður Galdrasýningar á Ströndum.
 
Heimildir:
Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I. Jón Árnason 1961, 610-611.

Mailing list