1610

Synir séra Odds Þorsteinssonar í Tröllatungu, sá sem dæmdur var fyrir galdra 1554, voru Þorsteinn, Nikulás og Jón. Sagt er að þeir hafi ásamt fleirum brotið upp Mókollshaug í Kollafirði á Ströndum. Þegar þeir höfðu fundið kistuna í haugnum með stórum hring í lokinu og undið hana upp með böndum svo hún var komin á loft sagði einn þeirra: „Nú tekst, ef guð vill,“ þá svaraði annar: „Nú tekst, hvort sem guð vill eður ei.“ Slapp þá hringurinn af kistulokinu og þegar þeir litu heim til bæjarins sýndist þeim hann standa í björtu báli. Hlupu þeir allir heim með skyndi og vildu hjálpa til á bænum en þá var allt með kyrrum kjörum. Eftir þetta atvik vildi þeim bræðrum til slys og komust þeir í kvennamál. Einnig var sagt að sitthvað hafi hent alla þá sem atburðinn voru viðriðnir.

Mailing list