Strandagaldur tilnefndur til Eyrarrósarinnar 2007

Eyrarrósin 2007Strandagaldur er eitt þriggja verkefna sem tilnefnt er til menningarverðlaunanna Eyrarrósin 2007. Hin verkefnin tvö eru Safnasafnið í Eyjafirði og Skálholtshátíð í Skálholti. Afhending verðlaunanna fara fram á Bessastöðum miðvikudaginn 21. febrúar n.k. og þá kemur í ljós hvert þessarra þriggja verkefna hlýtur aðal viðurkenninguna. Í umsögn dómnefndar um tilnefningu Strandagaldurs segir: 

"Strandagaldur stendur að fjölbreyttum verkefnum og sýningum á sviði þjóðfræði og sýningarhalds og hefur frá því að það var opnað vakið verðskuldaða athygli innanlands og utan. Sérstaða svæðisins er nýtt til að draga fram íslenska þjóðtrú og sögu og óhætt er að fullyrða að verkefnið á sér enga hliðstæðu á heimsvísu. Metnaður og fagþekking eru höfð að leiðarljósi. Starfsemin hefur jákvæð áhrif á byggðaþróun og uppbyggingu atvinnulífs héraðsins sem aftur styrkir stoðir þess og dregur athygli ferðamanna að því. Rík þátttaka heimafólks í starfinu er til fyrirmyndar."

Markmiðið með Eyrarrósinni er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Verkefnisstjórn, skipuð forstjóra og stjórnarformanni Byggðarstofnunnar og stjórnanda og framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík, tilnefna og velja verðlaunahafa.

 Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari Eyrarrósarinnar.