Leiðir að landslagi - Routes to Landscapes

ImageÞjóðfræðistofa stendur fyrir alþjóðlegu málþingi á Hólmavík dagana 10. - 11. október n.k.. Málþingið er unnið í samstarfi við Land- og ferðamálafræðiskor Háskóla Ísland og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Málþingið sem kallast Leiðir að landslagi - Routes to Landscapes hefst föstudaginn 10. október kl. 14:00 og það eru allir velkomnir að fylgjast með. Þar munu tíu aðilar frá nokkrum evrópskum háskólum fjalla um viðfangsefnið frá ólíkum hliðum. Málþinginu mun ljúka um miðjan dag á laugardag. Í tengslum við sýninguna verður opnuð ljósmyndasýningin Kvikt landslag - Landscape in Motion í Þróunarsetrinu á Hólmavík sem er gerð af danska ljósmyndaranum Brian Berg. Ljósmyndasýningin verður opnuð á á fyrsta degi málþingsins. Sýningin er gerð í samstarfi við málþingið og Þjóðfræðistofu en hún einkennist af hreyfanlegu sjónarhorni á mörk náttúru og mannlegrar tækni. Þar hefur ljósmyndarinn gert sér fagurfræðilegt mat úr takmörkunum og einstökum sjónarhornum á landslag sem líður hjá á hreyfingu.

Málþingið fjallar um landslag gegnum hreyfingu og þær ólíku leiðir sem valdar eru í tíma og rúmi. Þá verður fjallað um það breytilega form og þá síkviku merkingu sem landslag tekur á sig um leið og það er skoðað sem hreyfiafl í lífi fólks. Með hliðsjón af stöðu í tíma og rúmi leiða vegir og staðhættir ekki aðeins fólk frá einum stað til annars heldur tengja saman staði og skilja aðra frá. Ennfremur gera leiðir landslag að veruleika og jafnvel umbreyta því. Samtvinnun leiða og staðhátta er því í forgrunni málþingsins. Tengsl þeirra helgast af ólíkum tegundum hreyfanleika og hvernig fólk tengist landslagi í gegnum hreyfingu. Í þessu samhengi mun málþingið einnig ræða grunnþætti í mótun leiða og þær ólíku leiðir sem fólk fer um og í landslagi.

Þetta er annað málþingið sem Þjóðfræðistofa stendur fyrir á Ströndum en fyrir þremur vikum var haldið málþing í tengslum við Haustþing Þjóðfræðistofu. Von er á 20-30 manns til Hólmavíkur af tilefni málþingsins að þessu sinni og verður margt til gamans gert. Allar frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is. Kristinn Schram er forstöðumaður Þjóðfræðistofu og netfangið hans er This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it .