Kolbeinn jöklaskáld

Kolbeinn skáld Grímsson bjó í Lóni og að Fróðá. Það er sagt af honum, að hann væri lítill búhöldur og nennti lítt að starfa að búnaði, en skáld var hann mikið, eftir því sem þá gerðist, og gat kveðið dýrara en flestir menn aðrir. Ýmislegt er enn til í ljóðum eftir Kolbein, bæði sálmar og andleg kvæði, og svo rímur.

Þá er Kolbeinn bjó að Fróðá, gerði hann eitt sinn þann samning við kölska, að hann skyldi vinna fyrir sig allt það, er erfiðast væri af bústörfum þrjú eða fjögur ár, en hann skyldi svo aftur ganga honum á vald, svo framarlega sem hann gæti botnað allar vísur sínar, og skyldu þeir kveðast á í þessu skyni á tilteknum tíma, en ef kölska brygðist rímlistin, þá skyldi Kolbeinn vera laus allra mála. Þar heitir Kontraktarsteinn skammt frá Fróðá, er þeir gerðu þenna samning með sér. Sá steinn er allstór og stendur á hlóðum, eins og hlaðið sé undir hann grjóti, en aðrir segja, að grjóti sé hlaðið ofan á hann.

Kölski fór nú í vist til Kolbeins og tók að vinna baki brotnu, svo að Kolbeinn þurfti aldrei að taka hendi sinni í kalt vatn. Engum sagði húskarl þessi nafn sitt, og var hann jafnan nefndur „hinn ókunni maður". Orð fór af því, að hann væri ekki kirkjurækinn, en svo mikill vinnumaður var hann bæði til lands og sjávar, að hann bar af öllum öðrum bæði til handlagni og allra þrekvirkja. Konu Kolbeins og öðrum heimamönnum þótti hinn ókunni maður hvimleiður mjög, enda var hann vandlátur um þjónustu og svívirti þær jafnan í orðum, ef þær komu nærri honum í verki eða annars staðar. Fjórða sumarið, sem kölski var hjá Kolbeini, varð hann sjálfur að raka á eftir honum, því að engum tjáði það öðrum. Styggastur var hinn ókunni maður við konu Kolbeins, því að hún var guðhrædd, og var honum því mjög lítið um hana gefið.

Þá er vistartími kölska var liðinn og þeir Kolbeinn skyldu reyna kveðskapinn með sér, heimti kölski Kolbein fram á sjávarhamra um nótt í tunglskini. Þeir settust fram á bjargbrúnina og hengdu fæturna fram af; tók Kolbeinn nú að yrkja fyrri hluta, en kölski botnaði jafnan viðstöðulaust, og gekk svo lengi nætur. Sonur Kolbeins, er var fyrir innan tvítugt, hafði eitt sinn heyrt á tal föður síns og hins ókunna manns, og gekk hann út á bjargið til þess að njósna, hvernig færi með þeim. Þá er skammt var til dags, þreif Kolbeinn hníf upp úr vasa sínum, sneri egginni upp og kvað:

Horfðu’ í þessa egg, egg
undir þetta tungl, tungl.
Þá mælti hinn ókunni maður: „Það er bölvað að bæta við að tarna, Kolbeinn." Hélt Kolbeinn þá áfram vísunni og kvað:

Eg spyrni þér með legg, legg,
lið sem hrærir ungl, ungl.
Jafnframt spyrndi Kolbeinn við hinum ókunna manni og steypti honum fram af bjarginu; var hann nú laus allra mála við kölska. Þá er Kolbeinn gekk heim af bjarginu, hitti hann son sinn og vítti hann um forvitni hans. Þó er sagt, að seinna segði Kolbeinn vinum sínum upp alla sögu. Eftir þetta orti Kolbeinn vikusálma, og voru þeir prentaðir að Hólum 1682. Kolbeinn kvað og rímu af Sveini Múkssyni og bjó sjálfur til efnið. Hann sendi þær Brynjúlfi biskupi Sveinssyni (1639-74) og þá að launum 10 ríkisdali, en það var mikið fé um þær mundir.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 171-172
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)