Líkt og hjá öllum var árið 2020 ekkert í líkingu við það sem við bjuggumst við. Árið byrjaði með miklum snjóþyngslum og vondum veðrum. Í mars fórum við að vona að veturinn myndi bráðlega sleppa af okkur tökunum og við fengjum frelsið okkar aftur en þá fjölgaði Covid-smitum og allt lokaðist.

 

Þetta var auðvitað erfitt og sérstaklega óvissan en svo ákváðum við að nota tímann til að sinna því sem hafði þurft að bíða og dytta að ýmsu. Sumarið kom og enginn vissi hvernig hlutirnir myndu vera en við ákváðum að vera bjartsýn og halda ótrauð áfram. Sumarið 2020 var nýtt til að bæta og laga umhverfi og útlit Galdrasýningarinnar og var öll byggingin máluð að utan og garður snyrtur og hreinsaður. Gamalt gróðurhús fékk nýtt hlutverk á nýjum stað og skipt var um torf á húsi sýningarinnar með ómetanlegri hjálp sjálfboðaliða.

 

Sumarið var gott, við fengum marga gesti og það var greinilegt að Íslendingar ákváðu að ferðast um Vestfirði sem eiga það til að verða út undan þegar fólk ferðast um landið. Bæjarhátíðin Hamingjudagar voru haldnir í júní og Galdrasýningin stóð fyrir Quiddich leik á Galdratúninu þar sem börn og fullorðnir hlupu um á kústum og reyndu að skora í mörk andstæðinga sinna. Leiklýsandi hélt uppi góðri stemmningu og lauk leiknum án stórra slysa á fólki.

Eitt sumarkvöld birtist feikifögur skúta við Hólmavík og komu farþegar hennar á Galdrasýninguna og sýndu henni mikinn áhuga. Daginn eftir lásum við í blöðunum að þetta hafi verið J.K. Rowling sjálf á ferðalagi með fjölskyldu og vinum. Út frá því fór ég í viðtal hjá breskri útvarpsstöð til að segja frá þessu og segja frá starfseminni okkar. Við fengum líka heimsókn frá ungu þáttagerðarfólki sem var að gera þættina Bibba flýgur sem birtust á Stöð 2 í lok sumars.

 

Galdrasýningin fékk styrk úr Barnamenningarsjóði til að vera með Galdraskóla fyrir grunnskólanemendur í þremur sveitarfélögum í október. Þessi plön frestuðust þó en vonandi náum við að halda Galdraskóla í vor. Galdrasýningin fékk líka styrk úr frumkvæðissjóði Brothættra byggða til að bæta útlit húsnæðisins og gátum þar af leiðandi hafist handa við viðgerðir á þaki sem mun ljúka áður en vetri lýkur. Galdrasýningin fékk auk þess styrk úr Uppbyggingasjóði Vestfjarða sem er mikilvægt svo við getum haft opið allt árið.

 

Árið 2020 er afmælisár Galdrasýningarinnar á Ströndum þar sem sýningin opnaði fyrst sumarið 2000. Hátíðardagskrá var skipulögð í lok október en ekkert varð af henni en haldinn var viðburður á Galdratúninu til að kynna almennilega listaverkið af Klemusi Bjarnasyni fyrir íbúum svæðisins. Í október reis útilistavek á túninu við Galdrasýninguna. Verkið vann Arngrímur Sigurðsson en hann skar út úr rekaviðardrumb strandamanninn Klemus Bjarnason sem var seinasti maðurinn til að vera dæmdur til að brenna fyrir galdur. Örlögin voru þó þau að dóminum var breytt í útlegð og dó hann í fangelsi í Danmörku. Tilefnið að þessu listaverki er bæði 20 ára afmæli sýningarinnar auk þess að það markar upphafspunkt að skúlptúraslóð sem mun liggja með Kópnesbrautinni inn Steingrímsfjörð.

 

Í tilefni af 20 ára afmælinu litum við um öxl til að fagna því sem hefur áunnist á þessum árum og tekið saman því sem við viljum fagna. Hönnuð var tímabundin sýning með myndum sem gaman er að skoða og rifja upp það sem hefur gerst og áunnist á þessum 20 árum. Það má því með sanni segja að margt hafi áorkast á árinu og við látum ekki deigan síga á árinu 2021. Við hlökkum til að sjá hvað nýtt ár mun færa okkur og lítum framtíðina björtum augum.