En fyrir því að mjög barst út fjölkynngi Einars prests á Skinnastöðum og spurzt hafði það vestur í Arnarfjörð þá tóku Arnfirðingar eður aðrir Vestfirðingar ráð það að senda strák einn fjölkunnugan, er nokkrir nefna Björn, norður á Skinnastaði að vita hve Einar prestur væri máttigur. En engar sagnir fást um hvaðan helzt strákur sá væri að vestan. Kom hann á Skinnastaði norður; var þá Jón, sonur Einars, orðinn aðstoðarprestur föður síns.
Þeir feðgar þóttust vita hvurs örendis Björn fór, tóku vel við honum og settu inn í baðstofu. En er hann hafði dvalið þar tvær eða þrjár nætur og þótt heldur hnýsinn um hvað eina störfuðu þeir feðgar eitthvað út í kirkjugarði, en strákur sat á skák inn í baðstofu og sá að meystelpa allung sem vera mundi þriggja eða fjögra vetra kom inn og að honum. Spyr hann hvað hún vildi. Heyrðist honum hún stama því út: „Að drepa þig!“ Strákur skipaði henni með harðri hendi að fara í fjósið og drepa beztu kúna fyrir prestinum og nautið; fór hún því fram. Strákur gekk í hámót á eftir henni, magnaði hana og bauð henni að drepa prestana. Hljóp hún fyrst á Jón prest og ætlaði að bana honum. Segja sumir að hann glennti þá greipar út og tæki ársham; var hann því greipaglennir kallaður; aðrir telja að hann jafnan glennti greipar síðan er hann blessaði. Einar prestur kom að í því og þurftu þeir nú allt við að hafa að koma henni fyrir. Er sagt að Einar prestur þættist aldrei í slíka raun komið sem yfirstíga stelpu þessa og setja niður.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 513-514
(eftir handriti Gísla Konráðssonar)
Á bæ einum á Hornströndum bjuggu hjón sem mjög vóru grunuð um galdur. Hjá þeim uppólst dóttir þeirra. Þegar hún var orðin hér um bil hálffullorðin fór sýslumaður að taka rannsókn um þetta mál. Ekki er þess getið hvað foreldrarnir meðgengu. En þegar til dótturinnar kom kvaðst hún ekkert kunna nema að mjólka kýr. Bað sýslumaður hana að sýna sér það og tiltók sjálfur á hvaða bæ kýrin skyldi vera. Tók hún þá puntstrá og rak í holu sem boruð var í stoð, fór svo með tíu marka fötu undir puntstráið og mjólkaði fötuna fulla með nýmjólk. Sýslumaður bað hana að mjólka meira, en hún sagðist ekki mega það, því kýrin skemmdist. Herti þá sýslumaður á henni og mjólkaði hún enn nokkuð unz það fór að koma blóðkorgur. Nú sagði hún kýrin væri farin að skemmast. Herti þá sýslumaður enn að henni að mjólka þar til það fór að koma blóð. Hætti hún þá allt í einu og sagði að nú væri kýrin dauð. Reyndist það og svo að á enni sömu stund hafði sú tiltekna kýr dottið steindauð niður.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 457-458)
Á bæ einum á Hornströndum bjuggu hjón sem mjög vóru grunuð um galdur. Hjá þeim uppólst dóttir þeirra. Þegar hún var orðin hér um bil hálffullorðin fór sýslumaður að taka rannsókn um þetta mál. Ekki er þess getið hvað foreldrarnir meðgengu. En þegar til dótturinnar kom kvaðst hún ekkert kunna nema að mjólka kýr. Bað sýslumaður hana að sýna sér það og tiltók sjálfur á hvaða bæ kýrin skyldi vera. Tók hún þá puntstrá og rak í holu sem boruð var í stoð, fór svo með tíu marka fötu undir puntstráið og mjólkaði fötuna fulla með nýmjólk. Sýslumaður bað hana að mjólka meira, en hún sagðist ekki mega það, því kýrin skemmdist. Herti þá sýslumaður á henni og mjólkaði hún enn nokkuð unz það fór að koma blóðkorgur. Nú sagði hún kýrin væri farin að skemmast. Herti þá sýslumaður enn að henni að mjólka þar til það fór að koma blóð. Hætti hún þá allt í einu og sagði að nú væri kýrin dauð. Reyndist það og svo að á enni sömu stund hafði sú tiltekna kýr dottið steindauð niður.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 457-458)
Sæmundur hinn fróði sigldi og fór í Svartaskóla og lærði þar aðskiljanlegar konstir. Öngvan skólameistara var að sjá í Svartaskóla, en allt hvað discipuli [lærisveinar] vildu vita að kveldi þar um voru bækur til staðar að morgni eða og það var skrifað á vegginn. Yfir Svartaskóladyrunum innan til var þetta ritað: „Inn mátt þú ganga, töpuð er sálin.“ Þau voru lög í skólanum að hver þangað kæmi skyldi læra þar í þrjú ár. Allir sem á einu ári út fóru skyldu allir undireins út fara og skyldi fjandinn ætíð hafa þann sem seinast gekk út, og þar fyrir var jafnan hlutazt um hver seinastur skyldi ganga. Sæmundi féll til oftar en einu sinni að ganga aftast og var því lengur en lög gjörðu ráð fyrir. En svo bar til að Jón biskup reisti til Róm og kom þar nærri. Hann frétti að Sæmundur væri í Svartaskóla með soddan móti sem sagt er; því fór hann þar inn og talaði við Sæmund og bauð honum að hjálpa honum út ef hann vildi síðan fara til Íslands og halda vel kristni sína. Undir þessa kosti gekk Sæmundur. Jón biskup lét Sæmund ganga á undan sér inn, en hafði kápu sína lausa á öxlunum, en þegar Jón gekk út kom hönd upp úr gólfinu og greip í kápuna og tók til sín, en Jón gekk út.
Síðar kom fjandinn til Sæmundar og gjörði kontrakt við hann so látandi, að ef Sæmundur gæti falizt fyrir sér í þrjár nætur skyldi hann vera frí, en annars skyldi hann vera sín eign. Þá fyrstu nótt faldist Sæmundur undir lækjarbakka einum í vatni og moldu til samans, þá meinti satan að Sæmundur hefði drekkt sér í vatni; aðra faldist hann á sjó í skiphrói því er flaut fyrir landi, þá meinti satan að vatnið mundi hafa spýtt Sæmundi fram í sjó; þriðju nótt lét Sæmundur grafa sig í vígðri mold, þá meinti satan að Sæmund mundi hafa rekið á land dauðan og vera grafinn í einhverjum kirkjugarði, en í þeim þorði hann ekki að leita. Þetta var allt af forlagi Jóns biskups.
Aðrir segja að Sæmundur slyppi þannig: Skólabræður hans keyptu að honum að ganga síðast; hann lét nú sauma sauðarbóg neðan í kápu sína; og er hann gekk eftir tröppunum sem lágu út úr skóladyrunum var gripið í kápuna um bóginn, lét hann þá allt laust og tók til fótanna og sagði: „Hann hélt, en ég slapp“ – og fór svo til félaga sinna.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 469-470
(eftir handritum úr Árnasafni, safnað á dögum Árna Magnússonar)
Maður er nefndur Jón og var Árnason; hann bjó að Ófeigsfirði. Mikill var hann að vexti og kallmennsku og kallaður margfróður. Gestrisinn var hann, en einkum þótti honum vegur að hýsa langferðamenn; var málreitinn og spurull við þá og vildi láta meta sig fremur öðrum bændum.
Einn vetur að áliðnum degi kom maður nokkur vestan Ófeigsfjarðarheiði; hittir sá Jón og spyrjast þeir almæltra tíðinda. Maður þessi var ötull og vildi ekki gista so snemma dags að Jóns þó hann margbyði það og segði of stutt eftir af degi til að halda til Drangavíkur því þangað ætlaði maðurinn.
Fer hann af stað og gengur sem leið liggur. Dimmir þá af nótt og þykknar veður. Norðarlega á svokallaðri Ófeigsfjarðarströnd var kofi einn með rúmfleti og hafði Jón þar aðsetur þegar hann veiddi sel við Hrútey sem þar liggur nálægt. Leggst þá Ísfirðingur upp í annað fletið og vill sofa, en getur ekki. Hann sér þá hvar kemur höfuð af nauti og gengur inn eftir gólfinu, þó án fóta, og dregur eftir sér húðina. Augu vóru sem eldur, en út hangir tunga. Lætur mjög illa í hausi þeim og segir hann dimmt og draugalega: „Gle gle gle gle.“ Lætur hausinn þetta ganga til dags. Var þá hríð mesta með frosti.
Ekki lízt manninum að vera þar aðra nótt og snýr hann til baka til Ófeigsfjarðar; tekur Jón við honum vel. En svo varð maður þessi hræddur að hann lagðist veikur í fulla viku. En það er eftir Jóni haft að lítill þætti honum dugur í gesti eftir því sem hann hefði talað karlmannlega þegar vestan kom, og hefði þetta verið leikur sinn til að reyna hann, því hitt hefði verið meinlaust glingur sitt. Þegar manninum batnaði fór hann heim til sinna – og endar sagan.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 613
(eftir handriti Tómasar frá Gróustöðum)
Þegar séra Eiríkur að Vogsósum var í Skálholtsskóla, höfðu skólapiltar heyrt, að galdramaður einn væri grafinn undir biskupsfrúarsætinu í kirkjunni, og hefði hann látið grafa með sér galdrabók sína. Þeir réðu með sér að vekja hann upp, og er sagt, að þeir færu allir til nótt eina. Þeir tóku nú að særa, þar til er draugur kom upp með bók undir hendinni, og var allófrýnilegur. Þeir, sem hugaðastir voru, gerðu tilraun til að ná bókinni, en þess var enginn kostur, að draugurinn vildi láta hana lausa; gekk svo um hríð. Loksins reyndi Eiríkur til þess að ná bókinni, og lá hún þá laus í handarkrika draugsins. Eiríkur las í henni litla stund og skilaði henni svo aftur, er hann sá, að draugurinn vildi taka við henni. Eftir það fór draugurinn ofan í gröf sína með bókin undir hendinni, og urðu skólasveinar fegnir að losast við hann, því að enginn þeirra treysti sér til þess að temja hann. Seinna sagði sér Eiríkur séra Hafliða Bergsveinssyni að Hrepphólum (†1773), að hann hefði numið svo mikið af bókinni, að hann gæti séð við öllum glettingum fjölkynngismanna.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 180
(eftir sögn Sigríðar konu Andrésar í Gautsdal í Geiradal. Hún hafði eftir sögn Guðrúnar móður sinnar. Hún hafði eftir sögn Ingibjargar móður sinnar, en hún hafði eftir Hafliða presti sjálfum)
Sæmundur hafði heyrt af sínum góðum félagsmanni er Jón hét að sín ráð hafa vildi til að ná einni bók er þeir báðir vissu fyrrum niðurgrafna vera í Skálholtskirkjugarði með eigandanum. Hafði Jón sína lagskonu þetta vita látið. Sæmundur lagði honum ráðin og bað Jón eigi af bregða. Kemur so Jón til Skálholts, gengur í kirkju, læsir dyrum og meinar engan mann nálægan, kveður þrjár vísur. Við það sama opnast grafir í garðinum; kveður Jón enn vísu; gengur þá allir úr gröfunum og inn í kirkju. Fyrir þeim öllum gekk maður gamall og gráhærður og settist á forstólinn, hafandi bók í hendi sér. Jón kvað enn vísu í þriðja sinn; þá opnaðist bókin. En í því sama bar so við að frilla Jóns gaf af sér hljóð mikið; hafði hún sem áður er sagt vitað af þessu hans áformi og fyrirtekt og af forvitni sinni gefið sig upp í kirkjuna, Jóni óvitandi, til að vita hvernig þetta mundi til ganga og leynt sér í kórnum. Varð hún nú fyrir drauganna áhlaupum so hún lærbrotnaði og hljóðaði þar af mjög sem sagt er. Við þetta hljóð varð mikið hark í kirkjunni; hljóp þá Jón í klukkustrenginn og hringdi; þar með hurfu burt allir þeir sem enn voru komnir með miklum gný og fóru aftur í grafir sínar, en Jón missti bókarinnar.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 473-474
(eftir handritum úr Árnasafni, safnað á dögum Árna Magnússonar)
Um 1850 bjó maður að Steinanesi í Arnarfirði, sem hét Jón Jónsson og var kallaður Jón eldri. Það var mál manna, að hann væri rammgöldróttur.
Einu sinni varð honum og Hákoni kaupmanni Bjarnasyni á Bíldudal eitthvað sundurorða, og seinast hótaði Jón honum einhverju, en Hákon sagðist ekkert vera hræddur við hann. Jón gengur út úr búðinni í reiði og að húsabaki. Þar tekur hann upp hjá sér hrútskylli og fer að muldra eitthvað yfir honum. Hákon komst á snoðir um þetta. Hann langar mjög til að komast að því, hvað sé í kyllinum, og biður pilt, sem var hjá honum og hét Einar, að reyna til að ná kyllinum af karli og fá sér hann. Einar var ófyrirleitinn. Hann ræðst á karl, tekur af honum kyllinn og einhver blöð, sem hann hafði í vasanum, og fær Hákoni hvort tveggja. Hákon fer í kyllinn og finnur þar fitubita og kopartein með plötu á öðrum endanum. Rúnir voru á blöðunum. Svo kallar hann Jón til sín og sýnir honum kyllinn. Jón verður hamslaus og biður Hákon að fá sér kyllinn og það, sem í honum hafi verið, fyrir hvern mun, því að hann vilji ekki missa það fyrir öll veraldarinnar gæði. Hákon segir, að þá verði hann að segja sér, til hvers hann hafi þetta. Jón er tregur til, en lætur þó loksins til leiðast, því að Hákon sagði, að hann fengi ekki gripi sína að öðrum kosti. Jón segir, að þegar hann hafi rúnablöðin og koparteininn, þá geti hann vakið upp drauga eins og að eta smér. Fitubitinn sé mannsístra, og sé hún gagnleg til margra hluta. Sér þætti að vísu sárt að missa þetta allt, en þó væri það heima hjá sér, sem honum þætti mest í varið. Hákon spurði, hvað það væri, Jón sagði, að það væri grallarinn, snúinn og rangfærður í rammasta guðlast. Hákon fékk honum nú kyllinn og það, sem í honum var, og veitti svo karlinum vel ofan í kaupið, svo að þeir skildu sem beztu vinir, en áður lofaði Jón Hákoni, að hann skyldi sýna honum grallarann við næsta tækifæri. Hákon sagði, að það væri vel gert. Þegar karl kom næst í kaupstaðinn, hafði hann með sér grallarann, sem hann kallaði svo, og sýndi Hákoni, en þegar til kom, var þetta fúið og rotið eintak af Sciagraphia Hálfdanar Einarssonar (þ.e. bókmenntasaga Íslands, gefin útí Kaupmannahöfn 1777). Ekki er þess getið, að Hákon hafi sagt karli, hvernig í öllu lá, en það er víst, að Jón eldri var talinn galdramaður, eftir og áður.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 264-265
(eftir sögn Þorleifs (Hákonarsonar) Bjarnasonar, cand. mag.)
Þegar Didrik Hölter (†1787) var kaupmaður á Skagaströnd fyrir konungsverzlun þá sendi hann einn tíma menn sína vestur á Strandir til Reykjafjarðar. Þeir höfðu byrðing mikinn og gekk þeim vel ferðin vestur yfir flóann. En áður en þeir kæmist aftur af Ströndum kom á landnyrðingur ákafur rétt á móti þeim. Lágu þeir nú lengi til byrjar svo að eigi gaf og hélzt æ hinn sami stormur á landnorðan. Skipverjum leiðist þetta; taka þeir nú það ráð að þeir fara til fundar við þann mann er Sigurður er nefndur; hann bjó þar skammt frá og var haldinn margkunnandi. Þeir biðja hann gefa sér byr austur yfir flóann. Hann kvaðst það ei mega. Þeir biðja hann því betur þangað til hann mælti: „Berið á skip í kvöld og verið tilbúnir að öllu, en látið skipið fljóta fyrir atkeri í nótt; leggið svo af stað fyrir dag á morgun.“ Skipverjar fóru svo með öllu sem hann sagði fyrir. Risu þeir upp þegar í dagan og fóru til skips. Sigurður fylgdi þeim til strandar. Hann gekk að þúfu einni og var því líkast sem hann gerði þar bæn sína yfir þúfunni. Heyrðu þeir að hann sagði: „Ég vil hann útsunnan.“ Þá heyra þeir svarað í þúfunni: „Landnorðan.“ Sigurður stappar nú fæti sínum á þúfuna og mælti: „Segðu útsunnan, djöfullinn þinn.“ Og í sama bili rauk hann upp á útsunnan. Fengu Skagstrendingar nú hagstæðan byr og tóku land í Höfðakaupstað. En þegar jafnskjótt sem þeir voru lentir gekk veðrið til landnorðurs aftur.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 589-590
(eftir handriti séra Páls í Hvammi)
Á einhvörju sumri sendi Straumfjarðar-Halla húskarla sína til sláttar upp á Mýrar að Heyvatni; svo heitir þar vatn eitt mikið; heitir þar Ljónsnes er þeir skyldu slá og lét hún þá liggja við tjald. Þar stendur steinn einn mikill og er hann kallaður Grásteinn; á stein þenna bauð Halla húskörlum að leggja alla ljáina á hvörju kvöldi er þeir hefðu leyst úr orfum, og mundur þeir þá finna þá steininum dengda á morgni hverjum, en fyrir því tók hún þeim vara að líta nokkurn tíma í egg ljáunum. Gjörðu nú húskarlar eins og þeim var boðið, og fór nú svo fram um hríð að þeir fundu ljáina dengda á steininum á hvörjum morgni og þótti bíta eins og í vatn brygði. Tók nú einn húskarla að gruna að eitthvað mundi Höllu hafa til gengið er hún bannaði að líta í egg ljáunum, og vildi vita hvörnig við brygði ef út af væri brugðið, og lítur hann því í egg ljá sínum. Sér hann þá að ljárinn er ekki annað en mannsrif eitt og í sama vetfangi fer eins með alla ljáina, að þeir verða að mannsrifjum, og hljóta þeir því að hætta slættinum og leggja heim, og mislíkaði Höllu þá mjög.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 495
(eftir handriti séra Þorkels Eyjólfssonar)
Einu sinni sendi séra Hálfdan suður í Tjarnir og bað kerlingu að ljá sér mann til heybindingar, en kerling fór sjálf út eftir. Þegar hún kom út að Felli, þótt presti hún ekki sem líklegastur liðsmaður og hafði orð á því við hana, hvort hún hefði ekki getað sent einhvern annan. „Taktu þá ekki ómannlegar við en eg bind,“ svaraði kerling. Baggasæti var um allt Fellstún. Prestur fór nú að fjóstóttinni og bjóst til þess að taka við, en kerling gekk út á tún; gekk hún þar að hverri sátunni eftir aðra, potaði undir hana mannsrifi og sagði: „Upp, upp, sáta og heim í tótt.“ Sumir segja, að hún hafi látið ósýnilegar hendur binda sáturnar og potað svo rifinu undir baggana, en hvort sem var, fór hver sáta eða baggi þegar á loft og heim í tótt; þóttist prestur aldrei hafa komizt í jafn krappan dans eins og að taka við og hlaða heyinu. Um nón var allt sætið af túninu komið heim í tótt. Kerling gekk þangað, og var prestur þá að hlaða úr seinustu sátunni. „Þótti þér ekki bindingin ganga fullvel?“ spurði hún. „Ekki lasta ég það,“ svaraði prestur, „en vel hafði eg undan að taka við.“ Þá sagði kerling: „Ja, þér var það nú ekki þakkandi, því að þú hafðir alltaf einum fleira en eg til þess að hjálpa þér.“
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 166
Einu sinni sem oftar komu hafísar miklir so ekkert útlenzkt skip gat komið til Reykjafjarðar. En margt vantaði þá Víkurmenn, þó mest tóbak. Var það einn messudag að Árnesi að lónaði lítt ísinn hið dýpra í flóann. Sást þá hollenzk dugga. Talaði þá margur illa til íssins og óskuðu skipinu til hafnar. Heyrir Sveinn bóndi á Finnbogastöðum það og segir hvað menn mundu til gefa að skipið væri til hafnar komið næsta dag og kváðust fátæklingar kaupa mundu dýrt ef gæti. Veður vara sama um nóttina, en að morgni lá skipið fyrir attkeri á Norðurfirði. Sögðu skipverjar so frá að um kvöldið rifaði ísinn lítt so að þeir gátu beitt til Norðurfjarðar, en lukti jafnóðum og þeim gekk. Þökkuðu menn það brögðum Sveins því líka skorti hann tóbak.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 567
(eftir handriti Tómasar á Gróustöðum)
Jóhann bóndi Jónsson að Ytra-Holti í Svarfaðardal (†nálægt 1880) var talinn fjölkunnugur. Einhverju sinni vantaði mann sauð. Sá, sem átti hann, koma að tali við Jóhann inni í baðstofu og spurði, hvort hann gæti ekki sagt sér eða sýnt, hvar sauðurinn væri niðurkominn. „Komdu þá með fram,“ svaraði Jóhann. Þeir fóru nú fram, en Jóhann tók skál, gerði eitthvert merki á henni með fingrinum, hellti í hana vatni og sagði við manninn: „Líttu í skálina.“ Hann gerði það og þóttist sjá gæru og sauðarkrof hanga í eldhúsi, en ekki vissi hann, hvar það var. „Ertu nú nokkru nær?“ spurði Jóhann, – en það var maðurinn ekki. Maður þessi var enn á lífi 1901.
Morgun einn sagðist Jóhann þurfa að bregða sér af bæ og gat þess við einhvern vinnumanna, að hann mundi ekki koma aftur. Því næst tók hann tvær skruddur og eitthvað fleira, fór með það fram í eldhús og brenndi það. Jóhann hélt síðan leiðar sinnar, en varð fyrir snjóflóði um daginn og beið bana af.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 267
(eftir handriti Jóns Borgfirðings á Akureyri)
Maður hét Jóhannes; átti hann bú við Dýrafjörð á bæ þeim er að Mosdal heitir. Hann var kallaður margvís. Þá bjó bóndi sá að Rauðsstöðum við Arnarfjörð er Jón hét, bjargálnamaður, en þó barnmargur. Dóttir átti hann elzta og var hún átján vetra þegar hér er komið sögunni. Vinnumaður sá var þar á Rauðsstöðum er hug lagði á dóttir Jóns. Ekki er getið um nafn hans. Lagði hann allt fram er föng á hafði til að geta fengið stúlkuna, en fékk hennar ei að heldur því hvurki vildi hún eða foreldrarnir. Fer hann þá vistferlum þaðan og til Hringsdals. Þar bjó bóndi einn gamall og kallaður forn í skapi. Ekki er hann nefndur.
Haust það sem vinnumaðurinn var fyrst í Hringsdal veiktist stúlkan undarlega. Var henni leitað lækninga og versnaði við allt sem reynt var. Þóttist fólk líka sjá ýmsar undarlegar myndir í kringum hana. Verður bóndi mjög áhyggjufullur. Tekur hann það ráð að skrifa Jóhannesi og sendir mann með til Dýrafjarðar. Kemur hann síðla dags til Kirkjubóls og afhendir bréfið. Er bóndi fár við hann og kveðst ekki gegna bréfinu, Arnfirðingar þykist fremri sér að öllu. Fer bóndi til rúms og sefur alla kvöldvöku; situr kona hans á stokk og prjónar. Ekki gegnir hún störfum og lætur færa það til sín sem hún þarf á að halda. Sefur sendimaður lítið um nóttina af áhyggju. Um morguninn er bóndi árla á fótum og biður þá maðurinn hann farar, en það er ófáanlegt. Fer hann af stað og segir ekki af honum fyrr en kemur til Rauðsstaða og hittir húsbónda sinn. Spyr bóndi frétta og er allkátur, en sendimaður lofar lítt Jóhannes, segir erindislok og kvað fáa gott mundu hljóta af mannfýlunni. Jón bóndi svarar: „Kynlegt er þetta, því í gærkvöld var Jóhannes hér og læknaði dóttur mína. Er henni nú fullbatnað, en þökk hafir þú fyrir ómakið.“ Þóttist nú maðurinn vita að Jóhannes hefði leikið sig töfrum og missýningu. Varð síðan stúlkan heilsugóð og giftist þessum sama manni, og lýkur þessari sögu.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 541-542
(eftir handriti Tómasar frá Gróustöðum)
Á dögum Halldórs Jakobssonar sýslumanns [Halldór Jakobsson (1735-1810) var sýslumaður í Strandasýslu 1757-1788] er bjó að Felli í Kollafirði í Strandasýslu bjó maður á Efrafelli Jón að nafni og lék orðrómur á að hann væri kuklsamur. Einu sinni áttu þeir tal saman Halldór sýslumaður og hann því viðvíkjandi að vekja upp. Jón lét það í veðri vaka að hann gæti vakið upp ef hann vildi. Halldór sagðist ekki trúa því að hann gæti það nema hann sæi til hans á meðan og biður hann nú að vekja upp eða jafnvel kaupir það af honum af forvitni til að sjá aðferð hans. Þá lætur Jón til leiðast að gjöra það fyrir hann og segir Halldóri hann verði þá að vera út í kirkjugarðinum á meðan. Halldór sagðist ekki hafa huga til og sagðist ætla að standa við stofugluggann og horfa út um hann þar andspænis á móti garðinum sem Jón ætlaði að vekja upp. Nú gengur Jón út í kirkjugarðinn að leiði einu og slær sprota sínum á það og spyr hvör þar sé undir. Grafarbúinn anzaði og sagðist Magnús heitið hafa. Jón spyr hvað hann hefði orðið gamall. „Átján vetra,“ sagði grafarbúinn. „Varstu nokkur maður fyrir þér?“ sagði Jón. „Efnilegur var ég kallaður á mínum aldri,“ sagði grafarbúinn. „Ligg þú þá kyrr!“ sagði Jón. Þá gengur Jón að öðru leiði og spyr hvör þar sé undir. Honum var anzað: „Ég hét Þuríður.“ Jón spyr hvað hún hefði orðið gömul. „Ég komst undir tvítugs aldur,“ sagði hún. „Varst þú nokkuð fyrir þér?“ sagði Jón. „Heldur var ég kölluð það,“ segir hún. „Ligg þú þá kyrr!“ sagði Jón. Síðan gengur Jón að þriðja leiðinu og slær sprota sínum á það og spyr hvör þar liggi undir. Honum var anzað: „Ég hét Guðrún.“ Jón spyr hana hvört hún hafi dáið á ungum aldri. Hún sagðist hafa verið komin á sjötigsaldur. Jón spyr hana hvört hún hafi verið mikil fyrir sér í lífinu. Kerling sagðist heldur hafa verið aumingi og hölt meiri part ævi sinnar. „Þá skalt þú upp!“ sagði Jón. Og að því búnu opnaðist gröfin og kerling kemur upp úr gröfinni og ræðst á Jón, en hann tekur á móti. Glíma þau nokkura stund unz kerling fellur fyrir Jóni; sleikir hann þá upp á henni vitin. Kerling spyr hann að hvað hún eigi að vinna. „Ekki neitt,“ segir Jón, „nema fara niður í gröfina aftur.“ Þá sýndist Halldóri kerling ófrýn verða og eygð illa og aldrei sagðist hann slíka sýn séð hafa þá hún varð nauðug niður að fara og erindislaus. Svo bjó Jón um leiðið eftir því sem hann kunni.
Þetta hafði verið seint um haustið. En þegar kom fram á veturinn var það einn dag að Jón á Efrafelli stóð hjá kindum sínum sem oftar. Það var heldur kalt veður um daginn og frost mikið um kvöldið. Kom Jón heim með kindurnar í rökkrinu. Þegar hann var búinn að láta inn kindurnar gengur hann inn í bæinn og sezt upp á rúm sitt. En eldurinn hafði dáið um daginn hjá konu hans og skauzt hún ofan að Felli að sækja eldinn um kvöldið um sama leyti og Jón kom heim með kindurnar eða var kominn inn í bæinn. Enginn var eftir í bænum hjá Jóni nema stúlka á fimmta árinu sem hét Ingibjörg, dóttir þeirra, því fólkið var ekki fleira. En á meðan kona Jóns var að sækja eldinn sýndist barninu gömul kona koma upp á loftið og sýndist hún vera í svartri hempu og gangi fram í fangið á Jóni og leggja hann aftur á bak í rúmið og taka fyrir hálsinn á honum svo korraði í honum. En þegar konan kom heim sá hún að bóndi hennar var dauður, en barnið sagði frá hvað því hefði sýnzt. Meðan verið var að smíða um Jón og hann lá á börunum sá Halldór Jakobsson frá Felli að kotið Efrafell var krökkt af hröfnum svo valla sá í það. Eins sá hann fjölda hrafna fylgjast með líkfylgd Jóns til legstaðarins; en þessa hrafna gat enginn séð nema Halldór Jakobsson. Og var það meining Halldórs að kerlingin sem Jón vakti upp hefði orðið honum að bana.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 547-548
(eftir handriti Björns Sveinssonar á Kaldrananesi)
Kolbeinn skáld Grímsson bjó í Lóni og að Fróðá. Það er sagt af honum, að hann væri lítill búhöldur og nennti lítt að starfa að búnaði, en skáld var hann mikið, eftir því sem þá gerðist, og gat kveðið dýrara en flestir menn aðrir. Ýmislegt er enn til í ljóðum eftir Kolbein, bæði sálmar og andleg kvæði, og svo rímur.
Þá er Kolbeinn bjó að Fróðá, gerði hann eitt sinn þann samning við kölska, að hann skyldi vinna fyrir sig allt það, er erfiðast væri af bústörfum þrjú eða fjögur ár, en hann skyldi svo aftur ganga honum á vald, svo framarlega sem hann gæti botnað allar vísur sínar, og skyldu þeir kveðast á í þessu skyni á tilteknum tíma, en ef kölska brygðist rímlistin, þá skyldi Kolbeinn vera laus allra mála. Þar heitir Kontraktarsteinn skammt frá Fróðá, er þeir gerðu þenna samning með sér. Sá steinn er allstór og stendur á hlóðum, eins og hlaðið sé undir hann grjóti, en aðrir segja, að grjóti sé hlaðið ofan á hann.
Kölski fór nú í vist til Kolbeins og tók að vinna baki brotnu, svo að Kolbeinn þurfti aldrei að taka hendi sinni í kalt vatn. Engum sagði húskarl þessi nafn sitt, og var hann jafnan nefndur „hinn ókunni maður“. Orð fór af því, að hann væri ekki kirkjurækinn, en svo mikill vinnumaður var hann bæði til lands og sjávar, að hann bar af öllum öðrum bæði til handlagni og allra þrekvirkja. Konu Kolbeins og öðrum heimamönnum þótti hinn ókunni maður hvimleiður mjög, enda var hann vandlátur um þjónustu og svívirti þær jafnan í orðum, ef þær komu nærri honum í verki eða annars staðar. Fjórða sumarið, sem kölski var hjá Kolbeini, varð hann sjálfur að raka á eftir honum, því að engum tjáði það öðrum. Styggastur var hinn ókunni maður við konu Kolbeins, því að hún var guðhrædd, og var honum því mjög lítið um hana gefið.
Þá er vistartími kölska var liðinn og þeir Kolbeinn skyldu reyna kveðskapinn með sér, heimti kölski Kolbein fram á sjávarhamra um nótt í tunglskini. Þeir settust fram á bjargbrúnina og hengdu fæturna fram af; tók Kolbeinn nú að yrkja fyrri hluta, en kölski botnaði jafnan viðstöðulaust, og gekk svo lengi nætur. Sonur Kolbeins, er var fyrir innan tvítugt, hafði eitt sinn heyrt á tal föður síns og hins ókunna manns, og gekk hann út á bjargið til þess að njósna, hvernig færi með þeim. Þá er skammt var til dags, þreif Kolbeinn hníf upp úr vasa sínum, sneri egginni upp og kvað:
Horfðu’ í þessa egg, egg
undir þetta tungl, tungl.
Þá mælti hinn ókunni maður: „Það er bölvað að bæta við að tarna, Kolbeinn.“ Hélt Kolbeinn þá áfram vísunni og kvað:
Eg spyrni þér með legg, legg,
lið sem hrærir ungl, ungl.
Jafnframt spyrndi Kolbeinn við hinum ókunna manni og steypti honum fram af bjarginu; var hann nú laus allra mála við kölska. Þá er Kolbeinn gekk heim af bjarginu, hitti hann son sinn og vítti hann um forvitni hans. Þó er sagt, að seinna segði Kolbeinn vinum sínum upp alla sögu. Eftir þetta orti Kolbeinn vikusálma, og voru þeir prentaðir að Hólum 1682. Kolbeinn kvað og rímu af Sveini Múkssyni og bjó sjálfur til efnið. Hann sendi þær Brynjúlfi biskupi Sveinssyni (1639-74) og þá að launum 10 ríkisdali, en það var mikið fé um þær mundir.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 171-172
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)
Það voru einu sinni hjón á bæ. Þess er ekki getið að þau hefðu fólk nema einn vinnumann. Þegar fram liðu stundir fór konan að taka það upp að sofa öllum dögum. Þetta þókti þeim bónda og vinnumanni undarlegt því þeir vissu nú ekki annað en að hún svæfi á nóttinni líka. Nú hugsaði vinnumaður með sér að hann skyldi reyna að vaka komandi nótt og vita þá hvört hún svæfi. Um kvöldið hátta nú allir eins og vant er, en vinnumaður sofnar ekki. Hann snýr sér nú fram og gætir vel að konunni, en þegar hún heldur nú að þeir séu sofnaðir þá rís hún upp aftur og klæðir sig, tekur síðan glas með einhvörju í og dreypir á bónda og fer svo fram. Vinnumaður rís nú upp og læðist á eftir konunni. Þegar hún kemur fram í bæjardyrnar þá tekur hún þar svarta vettlinga og lætur upp á sig, gengur svo út á hlaðið, baðar upp höndunum og segir: „Upp og fram, en hvörgi niður,“ og þá strax hefst hún á loft í krafti þessara orða. „Upp og fram, en hvörgi niður,“ segir vinnumaður og með það fer hann upp líka.
Svo líða þau yfir land og sjó þangað til þau koma á eitt landspláss. Eftir það gengu þau stundarkorn þar til þau komu að dálitlu húsi; þar gekk konan inn og vinnumaður á eftir. Síðan settist hún niður við borð sem þar var. Vinnumaður settist þar líka niður utar við. Á borðinu logaði dálítil ljóstíra. Nú leið ekki langur tími þangað til að grá loppa kemur upp á borðið með steinspjöld og stíli. Þau taka við sínu spjaldinu hvört eins og hinir fleiri sem þar sátu allt í kring við borðið. Nú fóru allir að klóra eitthvað hvör á sitt spjald, en vinnumaður skrifaði Jesú nafn á spjaldið sitt. Undir daginn leggja nú allir spjöldin á borðið og loppan sama kemur og tekur þau öll nema spjald vinnumannsins, það lá eftir á borðinu.
Nú stendur konan upp og gengur út. Vinnumaður fer á eftir henni. Þegar hún kemur út þá setur hún nú upp vettlinga sína eins og fyrr segir: „Upp og fram, en hvörgi niður.“ Í krafti þessara orða –: „Upp og fram, en hvörgi niður,“ segir vinnumaður – þá hefjast þau á loft og líða yfir sjó og land þangað til þau koma heim á hlaðið; þar tekur hún af sér vettlinga sína, skilur þá eftir þar einhvörstaðar í bæjardyrunum og gengur svo inn.
Um daginn segir vinnumaður bónda frá þessu öllu saman og segir hann skuli bera sig að sofna nú ekki í kvöld, en muna sig um það að láta sín ekki við geta. Um kvöldið leggur bóndi sig til svefns eins og hann var vanur og lætur sem hann sofni. Þegar hún heldur að þeir séu nú sofnaðir þá fer hún að örla sér; þá læzt bóndi vakna og spyr hvað þetta hafi að þýða, hvað hún ætli. Konan verður nú eins og hálfsneypt og svarar öngvu. Ja, bóndi segir að þá sé ekki sem hún haldi, að hann viti ekki um ferðalag hennar, jú, hann viti það vel og megi hún leggja slíkt háttalag niður, annars skuli hún fá að mæta töluverðu misjöfnu. Eftir þetta lét konan af þessu og hagaði sér almennilega.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
III. bindi, bls. 458-459
(eftir handriti Brandþrúðar Benónísdóttur úr Múlasýslu.)
Sagt er það frá Galdra-Brandi í Þykkvaskógi að áður byggi hann í Laxárdal og hefði þá undir ábýlisjörð sína land undan Stóraskógi, en síðan er hann bjó í Skógi hafði hann hið sama land undir Skóg aftur.
Eitt sinn var það að smali Brands sá inn um rifu þar Brandur var í húsi einu; sá hann þá Brand ljúka upp kistu og taka úr henni upp léreftsstranga mikinn, rakti hann sundur og tók úr mannshöfuð með miklu hári, setti á kné sér, kembdi því og greiddi vandlega, las síðan yfir því þulur sínar, er sveinninn fékk ei numið; varð það þá að manni heilum. Skipaði Brandur honum að fást við gest þann að garði fór. Vissi sveinninn ei um það meira því hvergi þorði hann að fara, en það þóttist hann vita að sending Brands hefði sigrað því inn kom hún aftur, og veitt Brandur henni sama umbúnað sem áður.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 593
(eftir handriti Gísla Konráðssonar)
Jón gamli var orðinn prestur í Nesþingum undir Jökli 1580; bjó hann á Þæfusteini, en árið 1596 bjó hann á Fróðá. Hann bjó og lengi í Nesi. Jón var haldinn fjölfróður og eru margar sagnir um það að honum kæmi fátt á óvart. Það er eitt með öðru að sagt er að hann næði sagnaranda upp á Snæfellsjökli og lægi til þess upp í loft um sex dægur með gapandi munni, en hefði líknarbelg úr frumsafrumsa kvígu í munni sér, en eftir það lét hann andann, þegar hann hafði hamið hann í belgnum, í hrosshófsöskjur sem hann geymdi í frumsafrumsa skinni. Var það og enn sagt að jafnan mundi hann geta sagt fyrir hvort sá maður færi vel eða illa sem hann söng yfir.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 516
(eftir handriti frá séra Eiríki Kúld)
Einu sinni kom maður að tilbera þar sem hann var að sjúga kýr í haga. Maðurinn var vel ríðandi og elti hann tilberann og náði honum, því helzt næst tilberinn þegar hann hefur sogið sig fullan. Tilberinn bað manninn að láta sig lausan. Maðurinn segir að hann verði þá nokkuð til að vinna. Tilberinn játti því. Maðurinn segir að hann verði að tína saman öll sauðaspörð á Tvídægru í þrjár hrúgur og vera búinn að því að morgni. Fer þá tilberinn að tína saman spörðin, en um morguninn fannst hann sprunginn við eina hrúguna.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 419-420
(eftir handriti Magnúsar Grímssonar)
Einu sinni sást skip skammt undan landi á Vestfjörðum; var það harla stórt og hagaði seglum undarlega. Komust menn að raun um að þetta var ræningjaskip; varð fólk á næsta bæ hrætt mjög og ráðgjörði að flýja. Gamall maður var þar á bænum og sagði hann að gömlum fauskinum væri ekki vant, hann skyldi verða úti og vaka til að taka við gestum, en allt fólk annað fara inn og hátta, en líf þess lægi við sem út kæmi. Fólkið gegndi þessu því það vissi að karl var fjölkunnugur enda var komið kvöld og farið að skyggja; þetta var að áliðnu sumri. Strax þegar fólkið var háttað skall á ofsaveður svo það brakaði í hverju tré og var eins og allt ætlaði ofan að ganga. Um morguninn valt sjórinn kolmórauður, en ofveðrinu var létt af. Þegar að var hugað sást að karl mundi hafa sezt upp á hjall er var skammt frá flæðarmáli; hafði hann fokið ofan og lamazt til bana, en skipið hafði molazt í spón og allir skipverjar farist; en Vestfirðingar bjuggu lengi að rekanum.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 598-599
(eftir handriti Skúla Gíslasonar prests)
Annar maður fór að fylgja fé sínu sjálfur vegna þess undirflog gjörðust tíð hjá honum. Sá hann hvar snakkur kom í fé sitt og lofaði hann honum að sjúga sem hann vildi og elti hann síðan mjólkurfullan og seinfæran heim á búrglugga konu nokkurrar. Var konan að strokka. Þegar á gluggann kom kallaði tilberinn: „Af munnagjörðina, mamma.“ Ældi hann síðan hinni stolnu mjólk gegnum gluggann ofan í strokkinn, steypti sér sjálfum á eftir inn um gluggann og skauzt upp undir konuna, og tók maðurinn hann þar.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 421
(eftir handriti Skúla Gíslasonar prests,
frásögn Páls Ólafssonar)
Einu sinni bjó ríkismaður í Akureyjum, allra mesti maurapúki, sem aldrei tímdi að víkja fátækum neinu. Galdramaður nokkur sendi honum til hefnda fyrir þetta músavarg svo mikinn að þær eyddu öllu sem bóndinn átti og hann dó seinast í mesta armóð; eftir þetta voru mýsnar langan tíma á eyjunni. Gjörði þá eigandi þeirra boð eftir öðrum galdramanni. Hann kom og lét steikja handa sér heilt sauðarlæri og settist niður með það á eynni og ætlaði að fara að snæða það. En undireins voru mýsnar komnar hópum saman utan um hann til að fá sér bita með honum. Galdramaðurinn stóð þá upp aftur, tók steikarlærið í hönd sér, gekk með það heim og innan um allan bæ og síðan út á ey aftur þangað til hver einasta mús sem til var á eynni var komin utan um hann. Þá snaraði hann lærinu í djúpa gröf sem hann hafði áður látið grafa til þess. En mýsnar stukku allar á eftir steikinni ofan í gröfina; lét hann þá þegar byrgja gröfina aftur og lagði um leið blátt bann fyrir að hagga við henni nokkurn tíma framar. Eftir það var lengi engin mús í Akureyjum. Mörgum árum seinna lét eigandi eyjanna sem þá var leggja þar grundvöll að nývirki nokkru og þá voru menn svo vanhyggnir að opna gröfina aftur. Þustu þá mýslur upp á augabragði og eru síðan allt til þessa dags til kvalræðis fyrir eyjar þessar sem annars eru svo vel úr garði gerðar.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 425-426
Maður er nefndur Snorri; hann bjó á Stóru-Háeyri og fór einu sinni ferð austur í Parta. Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann var kominn aftur út á móts við Stokkseyri. Það var um miðja nótt í tunglsljósi. Þá sér hann þar í kirkjugarðinum einn mann eða jafnvel tvo. Hann skiptir sér ekki af þessu, en gengur niður að sjó og svo út með ströndinni. Og þegar hann er kominn góðan spöl út fyrir Stokkseyri, nærri út að Hraunsá, snýr hann aftur frá sjónum upp á flatirnar. Þá sér hann tvo eldhnetti veltast með miklum hraða út eftir bökkunum þar til hann missti sjónar af þeim. En skömmu eftir þetta barst sú saga að Stokkseyrar-Dísa hefði vakið upp tvíbura og sent þá vestur á Vestfirði.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 566
(skrásett „af skólapilt Eggert Sigfússyni eftir Sigríði Jónsdóttur á Litlu-Háeyri“)
Dóttir Sæmundar fróða er Margrét hét hafði í vikunni milli jóla og nýjárs verið að tala við vinnukonurnar og hefði þá óskað sér að hún væri komin á nýjárinu þangað sem mestur gleðskapur og skemmtun væri í heimi.
Á gamlárskvöld var Margrét að búa upp um föður sinn og er faðir hennar þar inni, og spyr hann hana þá að hvað hún hafi verið að tala við stúlkurnar upp á loftinu það kvöld sem hann til tók sem var það sama kvöld sem hún talaði við stúlkurnar. Hún segist ekki muna það. Hann minnir hana þá á að hún hafi verið að óska að vera komin þangað sem mest gleði væri. Hún játar því að hún hafi óskað sér þessa. Hann segir þá að hann skuli fara með hana þangað og skuli hún fara að búa sig því þau þurfi að fara dálítinn spöl frá bænum. Margrét fer að búa sig og þegar hún er ferðbúin þá segir Sæmundur við konu sína að Margrét og hann ætli að bregða sér í burtu, en fyrir messu skuli hann vera kominn á morgun.
Þau fara þá bæði ofan að sjó og kallar Sæmundur þá á kölska og segir honum þá hvað þeir hafi keypzt á um, og stendur þá strax grár hestur þar í fjörunni. Sæmundur sezt upp á hann og segir Margréti að setjast á bak við sig, en hvíslar að henni að hún megi ómögulega biðja fyrir sér. Sæmundur segir kölska að flytja sig þangað sem hann til tók og gjörir hann það, en þrisvar sinnum lætur kölski eftri hlutann síga ofan í sjóinn og ætlar að sökkva þeim, en þá slær Sæmundur hann með Davíðssaltaranum og þá heldur hann áfram að landi. Og þegar þar er komið stíga þau af gráa hestinum og ganga heim til borgar, og er þar mesta gleði og glaumur og skemmta þau sér alla nóttina. En þegar Sæmundur álítur tíma kominn til að fara þá kallar hann á Margréti og segir henni að koma, og fara þau. En þegar þau koma ofan að sjó stendur sá grái þar í fjörunni og fara þau á bak. Og þegar kölski er kominn miðja vega fer hann að taka dýfur og sökkva og slær þá Sæmundur hann með saltaranum. En í þriðja sinni setur hann allan eftri hlutann niður í sjó með mesta kasti, og þá fer Margrét að biðja fyrir sér, en þá segir Sæmundur: „Haltu þér saman, Manga; hvað þarftu að vera hrædd, hann sem skrikaði á skötu,“ og slær þann gráa um leið heljarhögg með saltaranum. Síðan flytur hann þau að landi og er Sæmundur kominn að Odda fyrir messutíma og messaði hann um daginn.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 485
(„Austan úr Múlasýslu“)
Þegar þeir Sæmundur, Kálfur og Hálfdan komu úr Svartaskóla var Oddinn laus og báðu þeir þá allir kónginn að veita sér hann. Kóngurinn vissi dável við hverja hann átti og segir að sá þeirra skuli hafa Oddann sem fljótastur verði að komast þangað. Fer þá Sæmundur undireins og kallar á kölska og segir: „Syntu nú með mig Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væta kjóllafið mitt í sjónum þá máttu eiga mig.“ Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í Saltaranum. Voru þeir eftir lítinn tíma komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands. Með þessu varð kölski af kaupinu, en Sæmundur fékk Oddann.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 478
(„tekið eftir vanalegri sögn í Borgarfirði“)
Einu sinni var bóndi fyrir austan að sækja kýr sínar um morguntíma er lágu úti og var hann ríðandi. Þegar hann kom til þeirra sér hann að snakkur, grár að lit, lá yfir malirnar á beztu kúnni og saug beggja megin. Brá þá snakkurinn brátt við er bóndi kom að honum og elti bóndi hann á hestinum. En snakkurinn smaug aðra þúfuna, en vatt sér yfir hina, unz hann kom þangað er hann átti heima. Fólk var úti í túni og skauzt snakkurinn þar upp undir konu heimabóndans. En bóndinn sem elti stökk af baki, gekk að konunni og batt öll fötin að henni fyrir neðan snakkinn og var hún svo brennd.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 420
(„Jón Bjarnason í Breiðuvík“)
Eitt sinn kom bóndi nokkur til séra Eiríks að Vogsósum langt að og bað hann að gefa sér upp í sig, því að hann var tóbaksvargur mikill, en var orðinn uppiskroppa með munntóbak. Prestur gerði það, en bóndi stakk tóbaksmolanum í vasa sinn. Bóndi hélt nú leiðar sinnar, og sáust þeir prestur ekki fyrr en að ári liðnu. Séra Eiríkur spurði bónda, hvernig honum hefði líkað tóbakið, sem hann gaf honum í fyrra. Bónda hafði þá ekki komið tóbak til hugar, síðan hann fékk upp í sig hjá presti; þreifaði nú niður í vasa sinn, fann tóbaksmolann og stakk honum þegar upp í sig. Eftir þetta tuggði hann tóbak, eins og hann hafði gert, áður en hann hitti séra Eirík.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 191
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)
Einu sinni var Íslendingur nokkur til veturvistar í Finnmörk. Gömul kona á bænum vildi eiga Íslendinginn, en hann vildi hana ekki og fór um vorið eftir heim til sín. Kerlingu líkaði það stórilla og ætlaði að hefna sín. Hún tók þá tófur tvær, aðra hvata og aðra blauða og las galdra yfir. Kemur hún svo tófunum í skip sem ætlaði til Íslands og sagði að tófurnar skyldu þar aukast og margfaldast og aldrei skyldi þeim verða útrýmt úr landinu. Þær skyldu og leggjast á þá dýrategund sem þær sæju fyrst á landinu. En kerling hugsaði að tófurnar mundu þar fyrst sjá menn og ætlaði að þær skyldu eyða þeim. En skipið sem tófurnar voru á kom við Austurland og hlupu tófurnar upp á nes það sem síðan heitir Melrakkanes í Álftafirði í Suður-Múlasýslu. Þar sáu þær sauðahóp og var það hið fyrsta dýrakyn sem fyrir þeim varð í landinu. Hafa þær síðan fjölgað mjög og dreifzt um landið og ofsækja sauðféð og drepa það niður.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
- bindi, bls. 426
(eftir handriti Magnúsar Grímssonar,
„sögn skólapilta úr Múlasýslu 1845″)
Þjófarót sprettur upp af vessa þeim, er fellur af líkum hengdra þjófa, en ekki er auðhlaupið að því að ná henni. Menn eiga að flétta hundsskinsreipi á sunnudag, meðan prestur er að lesa guðspjallið á stólnum, og binda það um frumsafrumsa naut. Því næst á að grafa um rótina með stálhnífi, hertum í mannsblóði, og á svo að láta nautið draga hana upp. Ekki verður þetta gert annan tíma en Jónsmessunótt. Þá er rótin slitnaði upp, varð svo hár hvellur, að þeim var vís bani, er fékkst við verk þetta, nema hann vefði áður skoffínsskinni um höfuð sér, en það dýr er afkvæmi refs og kattar. Eigi hleypur úr byssunni, þó að skotið sé á kvikindi þetta, nema mannskjúka sé fyrir. Ef rótin var geymd í hveiti og vökvuð eins og tilberi, þá dró hún peninga.
Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
- bindi, bls. 148
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)