Svanur á Svanshóli er fyrsti nafntogaði galdramaðurinn á Ströndum. Hans er getið í Landnámu og er þar sagður sonur Björns, landnámsmanns í Bjarnarfirði, og Ljúfu konu hans. Hann hefur verið allþekktur maður á ritunartíma íslenskra fornrita. Hans er m.a. getið í Grettis sögu og Laxdælu en mest er sagt af honum í Njáls sögu.

 

Svanur var móðurbróðir Hallgerðar langbrókar og geymdi þræl hennar, Þjóstólf sem drap fyrsta eiginmann hennar. Þegar Dalamenn hugðust hefna og drepa Þjóstólf komust þeir ekki yfir Bjarnarfjarðarháls vegna gjörningaþoku Svans. 

 

Í Njálu er Svanur sagður „fjölkunnugur mjög“ og „illur viðureignar“. Þar er einnig greint frá ævilokum hans á þann hátt að eitt sinn þegar hann var í róðri á Húnaflóa gerði austanveður mikið svo bátur hans týndist. Fiskimenn sem voru að veiðum við Kaldbak þóttust sjá Svan ganga í fjallið þar sem honum var vel fagnað.

 

Skoða Svanshól – sjá upplýsingar um sögufræga staði