Fabula um Sæmund fróða

Sæmundur hinn fróði sigldi og fór í Svartaskóla og lærði þar aðskiljanlegar konstir. Öngvan skólameistara var að sjá í Svartaskóla, en allt hvað discipuli [lærisveinar] vildu vita að kveldi þar um voru bækur til staðar að morgni eða og það var skrifað á vegginn. Yfir Svartaskóladyrunum innan til var þetta ritað: „Inn mátt þú ganga, töpuð er sálin." Þau voru lög í skólanum að hver þangað kæmi skyldi læra þar í þrjú ár. Allir sem á einu ári út fóru skyldu allir undireins út fara og skyldi fjandinn ætíð hafa þann sem seinast gekk út, og þar fyrir var jafnan hlutazt um hver seinastur skyldi ganga. Sæmundi féll til oftar en einu sinni að ganga aftast og var því lengur en lög gjörðu ráð fyrir. En svo bar til að Jón biskup reisti til Róm og kom þar nærri. Hann frétti að Sæmundur væri í Svartaskóla með soddan móti sem sagt er; því fór hann þar inn og talaði við Sæmund og bauð honum að hjálpa honum út ef hann vildi síðan fara til Íslands og halda vel kristni sína. Undir þessa kosti gekk Sæmundur. Jón biskup lét Sæmund ganga á undan sér inn, en hafði kápu sína lausa á öxlunum, en þegar Jón gekk út kom hönd upp úr gólfinu og greip í kápuna og tók til sín, en Jón gekk út.

Síðar kom fjandinn til Sæmundar og gjörði kontrakt við hann so látandi, að ef Sæmundur gæti falizt fyrir sér í þrjár nætur skyldi hann vera frí, en annars skyldi hann vera sín eign. Þá fyrstu nótt faldist Sæmundur undir lækjarbakka einum í vatni og moldu til samans, þá meinti satan að Sæmundur hefði drekkt sér í vatni; aðra faldist hann á sjó í skiphrói því er flaut fyrir landi, þá meinti satan að vatnið mundi hafa spýtt Sæmundi fram í sjó; þriðju nótt lét Sæmundur grafa sig í vígðri mold, þá meinti satan að Sæmund mundi hafa rekið á land dauðan og vera grafinn í einhverjum kirkjugarði, en í þeim þorði hann ekki að leita. Þetta var allt af forlagi Jóns biskups.

Aðrir segja að Sæmundur slyppi þannig: Skólabræður hans keyptu að honum að ganga síðast; hann lét nú sauma sauðarbóg neðan í kápu sína; og er hann gekk eftir tröppunum sem lágu út úr skóladyrunum var gripið í kápuna um bóginn, lét hann þá allt laust og tók til fótanna og sagði: „Hann hélt, en ég slapp" – og fór svo til félaga sinna.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
I. bindi, bls. 469-470
(eftir handritum úr Árnasafni, safnað á dögum Árna Magnússonar)

Mailing list