Af göldrum og öðrum viðburðum. 

Hér má verða margs vísari um íslensk galdramál. Einnig er hér að finna ýmsan fróðleik um atburði og uppákomur á Ströndum norður. Helstu heimildir eru annálar og alþingisbækur.

Svanur á Svanshóli er fyrsti nafntogaði galdramaðurinn á Ströndum. Hans er getið í Landnámu og er þar sagður sonur Björns, landnámsmanns í Bjarnarfirði, og Ljúfu konu hans. Hann hefur verið allþekktur maður á ritunartíma íslenskra fornrita. Hans er m.a. getið í Grettis sögu og Laxdælu en mest er sagt af honum í Njáls sögu.

 

Svanur var móðurbróðir Hallgerðar langbrókar og geymdi þræl hennar, Þjóstólf sem drap fyrsta eiginmann hennar. Þegar Dalamenn hugðust hefna og drepa Þjóstólf komust þeir ekki yfir Bjarnarfjarðarháls vegna gjörningaþoku Svans. Í Njálu er Svanur sagður „fjölkunnugur mjög“ og „illur viðureignar“. Þar er einnig greint frá ævilokum hans á þann hátt að eitt sinn þegar hann var í róðri á Húnaflóa gerði austanveður mikið svo bátur hans týndist. Fiskimenn sem voru að veiðum við Kaldbak þóttust sjá Svan ganga í fjallið þar sem honum var vel fagnað.

Nunna brennd, máski fyrir áhrif norsks biskups. Sakarefnið „páfa blasphemiam“ og að hafa veðdregið sig fjandanum með bréfi. Lögmannsannáll og Skálholtsannáll greina frá þessu atviki en Flateyjarannáll einna ítarlegast. Af honum má ráða að lauslæti nunnunnar hafi miklu ráðið um afdrif hennar þó að samningurinn við djöfulinn hafi að líkindum ráðið mestu. 

 

Sennilega er þetta rótin að þjóðsögunni um Systrastapa á Kirkjubæjarklaustri.

Galdrabrenna á Grænlandi. Kolgrímur nokkur var brenndur eftir dóm fyrir að hafa legið gifta konu sem hann komst yfir með „svartakonstrum“ eða göldrum. Konan er sögð hafa truflast á geði og dáið litlu síðar.

1543

Í Morðbréfamáli Guðbrandar biskups kom fram bréf frá 1543 þar sem Jón Magnússon sýslumaður á Svalbarða var sakaður um galdra. Bréfið var dæmt ómerkt á alþingi 1593. Allir valdsmenn á Vestfjörðum á 17. öld voru afkomendur Jóns en afi hans var sr. Þorkell Guðbjartsson sem þjóðsögur segja að hafi skrifað hina miklu galdrabók Gráskinnu á Hólum.

1546

Sr. Þorleifur Björnsson fær aflausn fyrir töfra. Hann bjó á Reykhólum og var sonarsonur Þorleifs hirðstjóra. Ákæra sóknarbarnanna nefndi „óhæfilegt kvennafar og töfra“. Til eru eftir hann lækninga- eða galdrablöð sem varðveitt eru í Árnastofnun. Þorleifur taldi sig ekki geta svarið og fékk umvöndun Gissurar biskups Einarssonar eftir að málið kom upp í visitasíu biskups. Hann iðraðist síðan í Vatnsfirði játningar sinnar þar sem rætt er um „iðkun djöfullegrar fjölkynngi“. Sr. Þorleifur á Reykhólum var neyddur af Staðarhóls-Páli til að selja jörðina, eftir það bjó hann að Stað á Reykjanesi.

1554

Velættaður prestur í Eyjafirði, séra Oddur Þorsteinsson, átti Geirdísi dóttur séra Torfa Jónssonar í Saurbæ norður. Hann féll með systur hennar, Arnfríði, sem þá var barn að aldri. Var sagt að hann hefði komist yfir hana með konstrum og nauðgað henni. Fyrir það var séra Oddur dæmdur af Oddi lögmanni Gottskálkssyni árið 1554 á Spjaldhaga í Eyjafirði útlægur af Norðlendingafjórðungi alla sína æfi og að hann skyldi missa hægri höndina, nema valdsmaður vildi meiri miskunn á gera, og loks skyldi skera af honum bæði eyrun ef hann gyldi ekki ráðspjöllin fyrir þessa stúlku. Sr. Oddur mun hafa greitt Arnfríði stórfé í skaðabætur. Hún giftist síðar Halli Magnússyni. En höfuðsmaðurinn, Páll Stígsson, náðaði séra Odd svo hann hélt lífi og fékk prestsembætti aftur. Hélt hann þá Tröllatungu í Steingrímsfirði og dó þar. Sjá um syni Odds sem brutu Mókollshaug 1610.

1599

Skip þýskra kaupmanna brotnaði í Hrútafirði og stóð þar um veturinn. Í Ballarárannál segir svo frá:

Þá lá kaupskip í Hrútafirði, rak inn aptur um haustið, þá út á flóann og hafði lagt og brotnaði. Síðan hefur þar ekki skip komið. Er sagt, tvisvar áður hafi þar kaupskip legið og brotnað í útsiglingu.

1600

Þá brotnaði annað skip í Hrútafirði sem hugðist sækja hið fyrra. 

Samkvæmt Skarðsárannál var 

„mælt það væri gerningur þýskrar galdrakonu“.

1601

Harðindaár, veturinn kallaður Lurkur.

Kom hið þriðja skip í Hrútafjörð, sótti annað fyrra, þriðja sundurdregið.

1602

Píningsvetur.

Í sjövikna fardögum var genginn ís úr Steingrímsfirði og á Vatnsnes.

1604

Eymdarár.

Dómur að Tungu í Örlygshöfn. Jón Andrésson sagði föður sinn Andrés Guðmundsson hafa valdið krankleika í andliti séra Erlends Þórðarsonar. Sennilega sór Andrés eið og hreinsaði sig af áburðinum en Jón var hýddur. Sýslumaður var Björn Magnússon, sonur Magnúsar prúða.

1605

Í febrúarmánuði ritar séra Snæbjörn Þorvaldsson prestur í Kirkjubólsþingum að þennan vetur hafi margir menn dáið bráðum dauða eða af einhvers konar pestsótt í Trékyllisvík og nokkrir bæir hafi með öllu lagst í eyði. Lýsingar á sjúkdómnum fylgja og upptalning á fjölda dauðra. Á Stað í Steingrímsfirði voru átta lík jarðsett á einum degi. Á Kálfanesi urðu tíu eða ellefu bráðdauðir.

1606

Draugur banar ekkju. 

Herdís Magnúsdóttur var ekkja Ívars Ejólfssonar, en hann hafði drukknað tveimur árum fyrr. Snemma fór að bera á því að Ívar lægi ekki kyrr, en keyrði fyrst um þverbak þegar maður einn, Sturla Gottskálksson, bað ekkjunnar. Tók draugsi þá að vitja hennar, hafði við hana mök í svefni og togaðist á um sængurklæðin við hana. Þorleifur Þórðarson sem oftast er nefndur Galdra-Leifi var fenginn til aðstoðar og las hann draugnum stefnu og varð hlé á aðsókninni um stund. En síðan magnaðist draugagangurinn um allan helming og lauk með dauða Herdísar. Frá þessu segir Gísli Oddsson biskup.

1610

Synir séra Odds Þorsteinssonar í Tröllatungu, sá sem dæmdur var fyrir galdra 1554, voru Þorsteinn, Nikulás og Jón. Sagt er að þeir hafi ásamt fleirum brotið upp Mókollshaug í Kollafirði á Ströndum. Þegar þeir höfðu fundið kistuna í haugnum með stórum hring í lokinu og undið hana upp með böndum svo hún var komin á loft sagði einn þeirra: „Nú tekst, ef guð vill,“ þá svaraði annar: „Nú tekst, hvort sem guð vill eður ei.“ Slapp þá hringurinn af kistulokinu og þegar þeir litu heim til bæjarins sýndist þeim hann standa í björtu báli. Hlupu þeir allir heim með skyndi og vildu hjálpa til á bænum en þá var allt með kyrrum kjörum. Eftir þetta atvik vildi þeim bræðrum til slys og komust þeir í kvennamál. Einnig var sagt að sitthvað hafi hent alla þá sem atburðinn voru viðriðnir.

1611

Unnið var víg í Steingrímsfirði. Oddur nokkur drap Sveinbjörn Atlason með broddstaf. Oddur var tekinn af lífi.

Draugur gekk aftur á Snæfjöllum með grjótkasti dag og nótt allan veturinn.

Sigríði Halldórsdóttur var drekkt í Dalasýslu. Hún og Jón Oddsson, sá hinn sami og freistaði þess að opna Mókollshauginn 1610, lögðust út í helli nálægt Felli í Kollafirði. Hann komst undan með engelskum.

1612

Þórdís Halldórsdóttir viðurkennir þegar á að pína hana til sagna að mágur hennar, Tómas Böðvarsson Sólheimabóndi, sé barnsfaðir hennar. Hann strauk af héraðsþinginu og hvarf í þoku, en eftirleitarmönnum þótti líkast göldrum hvernig hann komst undan. Skömmu síðar dró Þórdís játningu sína til baka. Tómas komst undan til Englands en kona hans giftist aftur á Vestfirði. Í Alþingisbókum 1618 er skýrsla danskra yfirvalda um málið, þar er Þórdísi talið til tekna að Tómas kunni að hafa notað galdur til að komast yfir hana.

Jón lærði kveður niður Snæfjalladrauginn.

1613

Það ár byrjuðu spænskir höndlun og hvalaveiði í Steingrímsfirði á Ströndum.

1615

Þá brotnuðu 3 spönsk skip í Strandasýslu. Vestfirðingar undir forystu Ara sýslumanns í Ögri fóru að skipbrotsmönnunum og myrtu þá. Mál þetta er kallað Spánverjavígin og talið eitt mesta grimmdarverk Íslandssögunnar.

1618

Dómur féll á Keldunesi í N.-Þingeyjarsýslu um galdraáburð á hendur Einari Þorvaldssyni. Enginn var ákærandinn og honum dæmdur sjöttareiður.

1625

Svellavetur. 

Kötlugos.

Fyrsta galdrabrennan á Íslandi. Jón Rögnvaldsson var brenndur á Melaeyrum í Svarfaðardal eftir dóm fyrir fjölkynngi. Jóni var gefið að sök að hafa vakið upp draug og sent á pilt á Urðum, þar sem draugurinn drap hesta og gerði fleiri skráveifur. Magnús Björnsson, síðar lögmaður reið í Svarfaðardal og þótti málið sannað þegar í hirslum Jóns fundust gögn sem á voru rúnir og ískyggilegar teikningar. Þorvaldur skáld, bróðir Jóns, orti þetta á gamalsaldri:

Á þegar leið minn aldur
angrið fékk að stilt,
að bróður báru galdur,
berlega fóru vilt,
var hann ei að því valdur,
vissi ég um þann pilt,
alt um of einfaldur,
– á það við oss skylt.

Ályktun um dóm úr Snæfellssýslu vegna veikinda Svarts Jónssonar sem hann sagði að Ormur Þorleifsson ylli. Dæmt var að Svartur skyldi leiða fram tvö vitni í héraði sem áttu að sanna að Ormur hefði heitast við Svart. Að þeim löglega leiddum skyldi dæmt húðlát.

1626

Það ár komu fyrst franskir á Strandir og drápu 20 hvali. Samkvæmt munnlegri geymd héldu þeir mest til á Eyjum á Bölum.

1627

Tyrkjaránið.

Guðbrandur biskup deyr.

1629

Þá var borinn galdri séra Illugi, prestur á Kálfafelli á Síðu. Honum var fyrst dæmdur tylftareiður í héraði en fékk enga eiðmenn. Þá setti höfuðsmaður honum sjöttareið sem hann fékk heldur ekki komið fram. Illugi reið þá norður að Presthólum til föður síns og fékk á þingi þar eiðnum fram komið. Var samt dæmdur frá staðnum og vikið úr embætti.

1630

Jöklavetur.

Konungstilskipun um galdra frá 1617 leidd í lög um leið og dæmt var á alþingi um galdrameðferð Gísla Snæbjarnarsonar. Í tilskipuninni segir m.a. að sá sem eftir þennan dag verði fundinn sekur um galdur skuli taka út sína refsingu í eldi. Upphafsmaður máls Gísla var Ólafur Pétursson umboðsmaður hirðstjóra. Sakargiftir voru blöð, bréf, stafróf, figúrur og Caracterus sem Gísli hafði skrifað. Hann viðurkenndi að hafa skrifað eitt bréf til lækninga dóttur Bergþórs á Kúludalsá. Gísli var dæmdur til húðláts, enda ekki um regluleg galdrabréf að ræða og ekki notað í vondum tilgangi.

Séra Þorsteinn Jónsson á Ríp í Skagafirði kærður til biskups af sóknarbörnum fyrir galdur. Meðal annars var borið á hann að hafa sagt að guðs son væri rentumeistari djöfulsins. Vildu menn sverja fyrir að hann væri heldur sekur um galdrameðferð en saklaus. Biskupinn kallaði hann á prestafund svo hann gæti staðið fyrir máli sínu, sem þegar á reyndi gerði lítið gagn. Þá virðist sem séra Þorsteinn hafi boðist til að segja af sér embættinu, en endanleg ályktun í málinu skyldi koma næsta vor og það virðist hafa verið samþykkt.

Vondur draugandi sást um Eyjafjörð allan mörgum til skelfingar. Talinn vera uppvakningur. Gjörði stórar skráveifur og sást fyrst í brullaupi einu á Grýtubakka. Draugurinn hafði selshaus að ofan, en hrossafætur að neðan, en með mannlegar hendur og brjóst.

1631

Jón lærði Guðmundsson dæmdur útlægur af landinu vegna meðferðar á galdrastöfum. Í fórum Jóns fannst lækningakver sem hann viðurkenndi að hafa skrifað og blöð með stöfum og særingum. Var málið reist að frumkvæði Ólafs Péturssonar á Bessastöðum og Jóni haldið í dýflissu, en síðan fór hann til Kaupmannahafnar og fékk málið tekið upp að nýju.

Dæmt í galdramáli sem Benedikt Þorleifsson bar upp á Magnús Sigurðsson í Dalasýslu. Magnúsi var gert að vinna synjunareið heima í héraði. Meira um þetta mál er ekki að finna í alþingisbókum en sumar heimildir herma að Magnús hafi unnið eiðinn.

1632

Laxárholtsdómur um mál séra Illuga Jónssonar. Prestar sem höfðu ætlað að sverja með Illuga ákváðu að málið ætti alfarið heima í andlegri jurisdictione, og töldu sig ekki mega sverja nema með leyfi biskups.

1633

Á Ströndum snjófennti einn bæ svo djúpt að hann fannst ekki allan veturinn fyrr en um vorið milli krossmessu og fardaga með öllum mönnum þar inni dauðum.

Í annálum er sagt frá norskri hex sem sást á flugi til Snæfellsjökuls og sömuleiðis frá hana sem merkti egg með merki Satúrnusar.

Þetta ár hófst mál séra Einars Guðmundssonar á Stað á Reykjanesi. Kona hans fékk augnverk og hann grunaði að grannar hans, Auðunn Þorsteinsson eða Björn sonur hans, væru valdir að. Einar hafði áður átt í stappi við þá feðga. Málið var flókið og stóð til ársins 1638, en féll sennilega niður á endanum. Eftir séra Einar liggur ritgerð um álfa og bergbúa.

Dæmt á alþingi í máli séra Illuga og tókst honum loks að koma fram eiði.

1634

Höfðaskip hreppti óveður og rak vestur á Strandir að Árnesi í Trékyllisvík. Þar brotnaði skipið, góss náðist mestallt en sumt skemmdist.

1635

Kona grunuð um að ala á sér tilbera. Sá orðrómur gekk víða á Kjalarnesi að húsfreyja ein, Álfdís Jónsdóttir, æli á sér tilbera sem hún hafi erft frá móður sinni. Meinuðu sóknarprestar þeirra mæðgunum um altarisgöngu af þessum sökum. Prestastefnu þótti ákæran ógrunduð og enginn gaf sig fram sem sannað gat á þær ryktið. Fengu þær því uppreisn æru en sýslumaður hlaut skammir fyrir.

Bærinn Hlaðhamar í Hrútafirði og innbú allt brann til kaldra kola. Fólk var allt í seli.

1637

Útlegðardómur sá sem kveðinn var upp yfir Jóni Guðmundssyni lærða 1631 staðfestur á Öxarárþingi. Málinu var þó skotið til konungs ef hann vildi vægja Jóni. Jón bjó það sem hann átti ólifað austur á Héraði í skjóli Brynjólfs biskups.

Magnaður draugagangur í Hörgárdal eftir biðilsför að Burstafelli. Sýslumaður lét biðilinn bíða og þegar hann kom aftur í Hörgárdal hófst draugagangurinn. „Er það altalað norðan lands að Bjarni sýslumaður að Burstarfelli í Múlasýslu eigi sök á þessum firnum.“

1639

Oddur Jónsson úr Rangárþingi dæmdur til hýðingar fyrir stafamyndir og rúnastafi, galdrablöðin voru brennd fyrir vitunum á honum.

Oddur bar sig vel þegar hann var hýddur og heyrðist ekki til hans æðruorð fyrr en reykinn af galdrablöðunum lagði fyrir vitin. Þá sagði hann: „Það veit Kreistur minn, ég þoli það ekki.“

Oddur gekk undir nafninu Sanda-Oddur og hafði átt í málaferlum áður.

1641

Ari sýslumaður í Ögri hafði reynt að fá Helga Þorgeirsson dæmdan fyrir hórdómsbrot með stúlku af Ströndum. Eftir mikið þref komst Helgi til Englands. Þar kvæntist hann og átti þá konur í tveim löndum. Hann verslaði síðan tíu sumur á Íslandi en var loks gripinn árið 1639 og tekinn af lífi á þingi 1641.

1642

Mál Gunnars Bjarnasonar í Borgarfirði tekið fyrir á Heggstaðaþingi í Andakíl af Þórði Hinrikssyni sýslumanni og Árna Oddssyni lögmanni.

Ákærandi var Páll Teitsson fyrir hönd bróður síns Jóns sem þjáðist af veikindum. Gunnari var dæmdur tylftareiður þótt dómsmönnum virtist „óstöðugleika krankdæmi“ Jóns ekki vera af hans sökum.

Gunnar vann eiðinn 21. júlí.

1643

Reið Brynjólfur Skálholtsbiskup þá í Trékyllisvík og Aðalvík og vísiteraði þar, en biskup hafði þá ekki komið þangað í meira en 100 ár.

1644

Seint í ágúst brotnaði Hofsóskaupfar vestur við Strandir, komust menn af en góss náðist lítið.

Piltur hengdi sig í Steingrímsfirði.

1646

Brynjólfur biskup kærir Svein skotta, son fjöldamorðingjans Axlar-Bjarnar, m.a. fyrir að iðka djöfulsins íþróttir.

Lögrétta dæmdi að Sveinn skyldi fá „húðlát svo mikið sem hann má bera og missi annað eyrað.“ Ef hann brjóti af sér aftur sé hann „réttlaus og dræpur“.

Sveinn hafði áður verið hýddur fyrir nauðgunartilraun í Húnavatnssýslu 1644 og húðflettur í Þingeyjarsýslu 1645.

1648

Glerungsvetur.

Fjórtán hvítabirnir gengu á land á Ströndum og fleiri annarstaðar vegna mikilla hafísa.

Sveinn skotti hengdur í Barðastrandarsýslu en þar hafði hann reynt að nauðga konu.

1649

Vetur var afar mildur.

Á Pálsmessu (25. janúar) var farið til grasa á Ströndum.

1650

Ný dómkirkja reist í Skálholti, m.a. úr reka af Ströndum.

Meðal sakamanna sem líflátnir voru á þingi var Jón nokkur Jónsson, sem ýmist var kallaður Ríðumaður eða Sýjuson, og stjúpdóttir hans sem hafði kennt honum tvö börn. Konunni var drekkt að venju en Jón höggvinn. Var hann harðsvíraður mjög og fékkst aldrei af honum meðkenning né iðrun hversu sem til var leitað. Þegar böðullinn hjó hann tók öxin ekki á háls honum og þurfti um síðir þrjátíu högg til að merja höfuðið af. Á líkinu fannst síðan svartur rúnastafur á eikarspjaldi og hausskel af manni með hári á. Af þessu var hann talinn fjölkunnugur og kroppurinn því brenndur. Samkvæmt munnmælum mun Jón hafa kennt Sveini skotta galdur.

Fjórtán skólapiltar í Skálholti voru flengdir fyrir galdur og þeim vísað úr skóla. Enginn þeirra var ákærður og var það talið að þakka Brynjólfi Sveinssyni biskupi.

1651

Bjarni Pétursson á Staðarhóli, sýslumaður Dalasýslu, kvalinn daga og nætur af verkjum sem læsa sig um allan líkamann og þykir engum blöðum um að fletta að hann sé ásóttur af illum anda. Bjarni var borinn í kirkju í von um fró en það stoðaði lítt. Var hann þá fluttur inn að Hvoli í Hvolsdal þar sem nokkuð bráði af honum.

Svipaður krankleiki þjáði Þorkel Guðmundsson á Borg, sýslumann Húnavatns- og Borgarfjarðarsýslu.

1652

Ari Magnússon sýslumaður í Ögri lést.

Brúðkaup Þorleifs Kortssonar sýslumanns Strandasýslu og Ingibjargar Jónsdóttur á Þingeyrum var haldið með glæsibrag. Þar var margt stórmennið og ríkulega veitt.

Trékyllisvíkurfárið, djöfulleg ásókn á kvenfólk í Trékyllisvík:

„Það haust kom ókyrrleiki og plága af vondum anda eður draugi í Trékyllisvík, með því móti, að opt á einum degi og mest í kirkjunni, þá prédikað var, vissu menn ei betur, en hann hlypi ofan í kverkar á fólki, svo það fékk mikla ropa og síðan ofurfylli, en þá það létti af, fann það á sér ekkert mein; fengu það þær kvennpersónur, sem óspilltar píkur voru.“

1653

Vond djöfuls ásókn á þessu ári sem því fyrra í Trékyllisvík á Ströndum.

1654

Þorleifur Kortsson leggur fram 1. júlí á alþingi dóm um Þórð Guðbrandsson sem sakaður er um að vera valdur að djöfulganginum í Trékyllisvík síðustu tvö ár og vill fá að vita hvað beri að gera ef hann fellur á eiði. Úrskurðurinn var á þá leið að Þórður væri réttækur undir frekari rannsókn ef honum dæmdist eiðurinn ósær.

Þrír menn, Þórður GuðbrandssonGrímur Jónsson og Egill Bjarnason, brenndir um haustið í Strandasýslu fyrir galdragerninga. Linnti þá nokkuð látunum í Trékyllisvík en þau hófust aftur skömmu síðar.

Djöfulleg ásókn á séra Jón Magnússon á Eyri við Skutulsfjörð svo hann hefur litla ró. Gerir sig sá andi í margs líki.

1655

Galdrastafir ristir á skip í Árnessýslu. Sýslumaður var Torfi Erlendsson, faðir Þormóðs handritasafnara. Brotamann skal straffa eftir atvikum og kónglegrar majestets bréfi.

Lesinn dómur Magnúsar Magnússonar á Eyri um töframál frá Mosvöllum í Önundarfirði, frá 25. apríl. Málið skal höndlast eftir lögum og kóngsbréfinu frá 1617 og málavöxtum. Annað er ekki um málið vitað.

1656

Þann 12. september var ógnarstormur með hreggviðri á vestan og gerði víða skaða. Brotnaði Höfðaskip í spón þar á legunni, varð sumu góssi bjargað og mönnum, utan 4 sem drukknuðu. Var mælt að Strandamenn mundu hafa sent Eiríki kaupmanni þetta óhapp. Sáu áreiðanlegir menn og sannorðir glóandi knött yfir skipinu áður en það sleit upp.

Kirkjubólsmálið, feðgarnir Jón og Jón brenndir á báli fyrir að valda séra Jóni Magnússyni þumlungi djöfullegum ásóknum og veikindum. Sýslumaður var Þorleifur Kortsson. Ekki linnti hörmungum Jóns þumlungs við dauða þeirra feðga og sneri hann sér þá að Þuríði dóttur Jóns eldra. Tveir aðrir voru strýktir fyrir galdragerninga á séra Jón.

Jón Ólafsson dæmdur á Eyri við Skutulsfjörð fyrir stafi. Sýslumenn voru Þorleifur Kortsson og Magnús Magnússon á Eyri.

Séra Halldór Jónsson í Mýrasýslu ákærir Gísla Sigurðsson fyrir að drepa færleik sinn. Málið var sent heim í hérað aftur til nánari rannsóknar, „sérdeilis um konunnar Guðrúnar Einarsdóttur kynning.“ Prestur skyldi hýðast ef Gísli ynni eið. Brynjólfur biskup hafði afskipti af málinu og það var fellt niður.

Galdra-Manga eftirlýst, hún var borin sökum af þremur mönnum í Árneshreppi.

1657

Bær í Grunnavíkursókn á Ströndum brann um nótt með 9 manns inni, einnig brann spánnýr sexæringur sem stóð hjá bænum. Hét bærinn í Reykjarfirði.

Bólan gekk í Strandasýslu og önduðust nokkrir menn, líklega fleiri en 30 í Trékyllisvík.

Á Ströndum gaf maður nokkur sig djöflinum með því móti að hann veðjaði við sambúanda sinn að næsta morgun skyldu vera komnir 20 selir í net hans. Hann lagði svo nótina um kvöldið en um nóttina kom sá vondi til hans og gerði árásir miklar. Maðurinn hrökklaðist úr rúminu nær klæðlaus. Forvitnaðist þá hinn maðurinn um hann og fann hann dauðann og illa verkaðan hjá festarsteini nótarinnar en 20 selir voru fastir í nótinni.

Magnús Jónsson í Miðhlíð, sýslumaður Barðastrandarsýslu, var borinn galdraáburði þetta ár, en hann þótti sýna linkind í galdramálum. Magnús sór af sér galdraorðið en í framhaldi af því bar hann fram ákæru á hendur Runólfi Þorvaldssyni fyrir eikar- eða surtarbrandsspjald. Runólfur var sektaður.

Upp var lesinn á Vaðlaþingi á Barðaströnd undanfærslueiður undan galdrarykti.

Eggert sýslumaður í Hvammi á Barðaströnd, bróðir séra Páls í Selárdal lét lesa tvo dóma um galdrarykti Halldórs Bjarnasonar í Bjarneyjum á þingi. Lögrétta ákvað að hegningin, 20 vandarhögg, væri hæfileg fyrir ryktið því ekki var vitað að hann hefði neinum gert mein:

„Item hans eiðboð og meðkenning að hafa haft undir höndum Salomons innsigli. Sekt til 10 marka eða 20 vandarhögga því illt var ryktið en engum skaði gjörður.“

Vitus Jónsson kærir Guðrúnu Sigurðardóttur fyrir veikindi barna sinna. Upphaflega var dæmt í Aðalvík en málið tekið fyrir á alþingi 1. júlí. Niðurstaðan var enginn eiður því aðeins var um grunsemd að ræða:

„þar ei koma frekari líkindi eða nokkur áburður framar en í dóminn er innfærð. En þau reiðiyrði sem í dóminn eru innfærð virðist að engu takandi eftir því hún tók þau aftur að sama vetfangi.“

1658

Jón lærði Guðmundsson lést.

Þuríður Jónsdóttir, dóttir og systir Kirkjubólsfeðga, hreinsaði sig af galdraáburði með tylftareiði. Séra Jón þumlungur áfrýjaði niðurstöðunni til höfuðsmanns.

Galdra-Möngu gert að sverja eið.

1660

Kötlugos.

Þann 1. maí lýsti Guðrún Magnúsdóttir því yfir á Kaldaðarnesþingi í Strandasýslu að:

 „fyrir hálfu fjórða ári síðan kom að mér óvenjulegur veikleiki svo ég var slegin um koll með skjálfta og ofboðningu fyrir hjartanu og allt mitt hold í ófrið, og þessi veikleiki hefur haldist við mig síðan þótt hlé hafi sumum stundum á orðið, utan nú síðan í vetur í ósjaldnasta máta stóra þvingun af haft. Rök og líkindi til aðsveigunar að mannsvöld muni vera, vænist ég Jóni Bernharðssyni til votts.“

Enn nefndi Guðrún til Halldór Jónsson og var þeim öllum og svo Atla Sigurðssyni stefnt til næsta Kaldaðarnessþings. Málalyktir óþekktar.

Séra Árni Loftsson (vandræðagepill í prestastétt) orðaður við galdragrunsemd. Þorleifur Kortsson kom á þing með eikarspjald með einhverju ristu á sem fannst í sókn sr. Árna. Prestur vildi ekki líða að það væri geymt af sóknarbörnum hans. Hann neitaði þó að láta það í hendur veraldlegra valdsmanna og var biskupi falið að grennslast fyrir um hvort prestur hefði það undir höndum og hvort í því væri nokkuð hneykslanlegt. Árið 1667 var Árna stefnt fyrir galdur af mági sínum Rögnvaldi sýslumanni Strandamanna.

Galdra-Manga hafði ekki enn svarið. Dómurinn um eiðinn stóð og henni var veittur 10 vikna frestur.

1661

Magnús sýslumaður á Eyri bar fram laust rúnablað sem tveir menn, Snæbjörn Torfason og Þorvaldur Sveinsson, höfðu haft undir höndum. Ritarinn var dáinn. „Var það lækningablað við undirmigu, að spekja fé, ei sé stolið, með stöfum.“ Jón Þorsteinsson hafði sýnt þeim blaðið „í engri launung“ en Bjarni Bjarnason sem afhenti Jóni blaðið „sé meira forþenktur“. Bjarni fékk því áminningu eða straff og sýslumanni var falið að rannsaka málið frekar.

Um sumarið á alþingi varð bráðkvaddur í lögréttu Eiríkur Sigvaldason, lögréttumaður austan að. Var sagt hann hefði hart talað móti einni galdrakonu.

Sex hafa svarið Galdra-Möngu eiðinn ósæran en fimm hafa ekki enn svarið. Dómurinn látinn standa.

Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskups í Skálholti sver í viðurvist fjölda presta í Árnessýslu fyrir öll mök við karlmenn. Orðrómur hafði gengið um samdrátt hennar og Daða Halldórssonar ungs manns á staðnum. Ragnheiður fór til Bræðratungu til Helgu Magnúsdóttur eftir að hún sór eiðinn.

Jón Ólafsson Indíafari færir reisubók sína í letur.

Hæstiréttur stofnaður í Kaupmannahöfn.

1662

Þá kom Magnús Björnsson lögmaður ekki til alþingis vegna veikleika. Hann skrifaði á alþing og sagði af sér lögmannsembættinu. Var þá kjörinn til lögmanns Þorleifur Kortsson, áður sýslumaður í Strandasýslu. Hann bjó þá á Bæ í Hrútafirði.

Magnús Jónsson frá Reykhólum fékk hálfa Strandasýslu og varð þar sýslumaður.

Fjallað um Galdra-Möngu á alþingi, fjórir fangavottar telja hana saklausa, einn nefndarvottur hefur lofað að sverja með henni. Ákveðið var að hún fái að njóta fangavottanna ef einn sver í viðbót. Fyrst um lífið er að tefla er Þorleifi Kortssyni vítalaust að sýna þá miskunn.

Ragnheiður biskupsdóttir í Skálholti elur sveinbarn í Bræðratungu og Daði Halldórsson gengst við faðerninu. Var biskupi ókunnugt um þunga hennar.

1663

Mikið fiskiár í Strandasýslu og fyrir norðan.

1664

Ákærður Björn Björnsson í Norðurárdal fyrir veikindi á kvinnu. Dómsmönnum þótti mest um botnám með ókennilegum ristingum. Málið kom fyrir þing 1665.

Bjarni Hákonarson hýddur fyrir galdrakver sem hann kveðst hafa fundið á förnum vegi.

Að Heydalsá í Steingrímsfirði varð piltur sér sjálfum að skaða svo hann hengdi sig.

1665

Áburður á Björn Björnsson úr Skagafirði, áður sagður úr Norðurárdal, fyrir fram lagðan botnám með óvenjulegum caracteribus. Takist til rannsóknar og að ákærendur sverji.

1666

Lagt fram á alþingi „blað og eikarspjald hvar á voru skornir og uppmyndaðir caracteres eða óvenjulegar stafamyndir.“ Jón Jónsson, kallaður landi, vinnumaður séra Jóns Gíslasonar í Gullbringusýslu átti þá en sagðist aldrei hafa brúkað. Honum voru dæmd tuttugu vandarhögg en stakk af áður en hegningin var lögð á.

Á þessu ári rak staf einn í Hrútafirði með broddi; hann var af góðum grenivið kvistalausum með hvalbeinshólk. Sögðu þeir sem stafinn mældu að hann hefði verið nær 20 álnir, en broddurinn 4 eða 5 álnir, þó mjög upp máður að framan. Stafurinn var svo digur ofan að naumast mátti með báðum höndum yfir spenna. Var meining flestra að hann hefði rekið úr óbyggðum og tilheyrði tröllum.

Dómur úr Strandasýslu um ólíðanleg varningskaup á tóbaki og öðru klattaríi.

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar koma út.

1667

Um sumarið var brenndur á alþingi galdramaður af Vestfjörðum, Þórarinn Halldórsson. Hann viðurkenndi að hafa með lækningagöldrum sínum orðið valdur að dauða stúlku sem hét Hallfríður og séra Sigurðar Jónssonar, sóknarprests í Ögurþinghá. Þórarinn var brenndur fyrstur manna á Þingvöllum en fyrr um veturinn hafði hann sloppið úr járnum frá sýslumanninum Magnúsi Magnússyni yfir Ísafjarðarsýslu. Hann náðist þó og var sendur heim til sín.

Mál mikið var fyrir norðan í Vaðlaþingi um sumarið, voru nefndir til bændur tveir sem almennt voru taldir mjög fjölkunnugir. Annar hét Jón Guðmundsson sem lengi bjó á Hellu á Árskógsströnd, hann var álitinn illgjarn og áleitinn við menn. Hinn var Jón Illhugason kallaður hinn lærði, sá bjó á Skógum á Þelamörk og var atgjörfismaður. Jónarnir tveir höfðu lengi ást illt við og þegar Jón á Hellu dó á hlaðinu heima hjá sér og spýtti áður þremur blóðgusum var það eignað galdri hins.

Í Snæfellssýslu var búðarmannssonur einn tekinn fyrir að hafa undir höndum rúnakver með slæmum stöfum. Hann var dæmdur til húðláts.

Fimm vetra gamalt barn féll í sjávarsíki á Fjarðarhorni í Strandasýslu og fannst samdægurs.

1668

Í Trékyllisvík var mikill ókyrrleiki á þessum vetri og einnig í Hrútafirði. Í annálum segir að um vorið hafi drottinn þessu fári náðarsamlegast aflétt.

Það bar til undir jólin að prestur til Ögurs, Björn Þorleifsson, varð fyrir ógurlegri kynjasótt og Þórunn Árnadóttir kona hans jafnvel enn meiri. Þau voru nýlega gift. Göldrum var kennt um veikindin, en þeim létti síðar eftir að gjörðar voru almennar bænir til guðs.

Þennan vetur hófust víðfræg veikindi Helgu, eiginkonu séra Páls í Selárdal.

1669

Árni Pétursson í Barðastrandarsýslu ákærður fyrir að hafa undir höndum kver slæmt. Málinu var vísað heim í hérað árið eftir.

Brenndir Erlendur Eyjólfsson og Jón Leifsson úr Selárdal vestra. Jón var brenndur vestra fyrir að valda veikindum séra Páls í Selárdal, konu hans, börnum og hjúum. Erlendur var dæmdur fyrir að hafa kennt Jóni og fleirum fjölkynngi og galdra. Hann var brenndur í Nesskógi í Vesturhópi.

Slík ærsl gengu þá í Trékyllisvík sem hið fyrra árið og var þar tveim mönnum dæmdur synjunareiður – sjá 1670. Einnig ókyrrleiki í Hrútafirði.

Loftur prestur Jósepsson og Jón yngri Sigurðarson í Einarsnesi skólasveinn í Skálholti lentu í þrætu um Ragnheiði Torfadóttur fósturdóttur Brynólfs biskups. Varð af galdramál og galdurinn eignaður Lofti og Skapta bróður hans. Þeir voru báðir látnir sverja. Jón varð síðar sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu og lét brenna Þorbjörn Sveinsson árið 1677.

1670

Í Hrútafirði hengdi sig maður í hrosstagli.

Tveir menn úr Trékyllisvík, Sigmundur Valgarðsson og Eyjólfur Jónsson, voru galdramáli bornir. Báðir sluppu naumlega við líflát. Sigmundi var dæmt eitt húðlát sem næst gangi lífi á alþingi og annað ekki minna heima í héraði, en Eyjólfi þurfti að þola þrjár hýðingar, allar fast og alvarlega á lagðar, eina á þingi, aðra á Bessastöðum og þá síðustu sennilega heima.

Dómur um meðferð Árna Péturssonar úr Barðastrandarsýslu á galdrakveri. Málið var falið sýslumanni.

Einar Torfason ordineraðist til Staðarkirkju í Steingrímsfirði og fékk fógetans bréf fyrir þeim stað ofan á allhörð mótmæli sóknarmanna og gerðist þar prófastur.

1671

Brenndur á Alþingi Sigurður Jónsson úr Vatnsfirði. Sigurður viðurkenndi að hafa farið með fjölkynngi og sagði svo frá að hann hefði fyrst reynt gráurt við galdur sinn en það hefði ekki hrifið. Greip hann þá til vallhumals sem hann notaði með kvikasilfri úr fjöðurstaf og sæði sínu ásamt staf sem hann risti á eikarspjald og versi sem hann sjálfur orti. Úr hraunversi til að losa færi úr botni kunni hann einnig nokkuð. Ennfremur sagðist hann hafa mætt sendingu, varði hann sig með særingum og formælingum en lagðist loks niður, tók græðisvepp, lét drjúpa í hann tvo blóðdropa af vörum sér og grýtti í andskotann.

Annar strýktur fyrir galdra, hét Jón Úlfsson. Eggert Bjarnason sýslumaður á Skarði bar fram galdramálsrekstur sýslumanna á Barðaströnd um Jón Úlfsson en hann vildi ekkert meðkenna, var honum dæmd hýðing sem næst lífi hans.

Í Árneskirkjusókn urðu hjón bráðdauð, Jón Arnórsson og hans kona, létust með vikubili.

Jón Vigfússon yngri sver af sér galdur sem átti að hafa orðið til þess að danskt skip strandaði á Landeyjarsandi. Þorleifur Kortsson kom að málinu. Jón varð síðar biskup á Hólum við lítinn fögnuð heimamanna.

1672

Páll Torfason sýslumaður í Ísafjarðarsýslu bar fram á alþingi galdramál feðga, Þórðar Jónssonar og Jóns Þórðarsonar, er ei fengu fríunarmenn. Voru þeim dæmdar hýðingar.

1673

Mjófirðinga á leið yfir Trékyllisheiði að norðan, kól illa.

Borinn galdraáburður á Guðmund Þórðarson í Botni í Súgandafirði af Lénharði Jónssyni, áttræðum, og syni hans Sveini, er legið hafði máttlaus og mjög veikur heilt ár. Málið dæmt til alþingis, hvort Gvendi skyldi eiður dæmast, þar eð engin líkindi fylgdu áburðinum. Honum var síðan dæmdur tylftareiður á alþingi, sem hann sór.

Páli nokkrum Oddssyni úr Húnavatnssýslu dæmt á alþingi til tylftareiðs fyrir galdra um veikleika á kvinnu séra Þorvarðs á Breiðabólstað.

1674

Brenndir á alþingi Páll Oddsson að norðan og Böðvar Þorsteinsson undan Jökli. Páll var ákærður fyrir rúnaspjöld sem hann nafngreindi annan eiganda að og viðurkenndi aldrei að hafa farið með galdur. Sagt er að hann hafi stungið höfðinu út úr eldinum og sagt: „Sjáið þar sakleysi mitt.“ Böðvar var dæmdur fyrir að hafa spillt aflabrögðum og viðurkenndi brot sitt.

Eggert Björnsson fann eikarspjöld og eitt beinstykki í buxum Bjarna Ólafssonar. Ýtrasta rannsókn var samþykkt en Bjarna beðið vægðar á þingi.

Í Hrútafirði skaðaði einn maður annan á hvalfjöru, stakk hann með broddstaf í fótinn. Af því kom blástur í allan búkinn svo hann dó innan fárra daga en vegandinn komst undan.

Síra Páll Björnsson prófastur, semur ritið Character bestiæ (Kennimark kölska) þar sem má fræðast um djöflatrú þá sem kirkjunnar menn börðust gegn.

Brynjólfur Sveinsson biskup og sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson deyja þetta ár.

1675

Brenndur á Alþingi gamall maður, Lassi Diðriksson úr Arnarfirði vestan. Var honum gefið að sök að vera valdur að veikindum sona séra Páls í Selárdal. Lassi meðgekk aldrei og var settur á bálið án játningar.

Brenndur í Húnavatnsþingi Magnús Bjarnason fyrir galdur. Hann var dæmdur fyrir að bera ábyrgð á sjúkleika Helgu Halldórsdóttur í Selárdal.

Andaðist Vilhjálmur Arnfinnsson sýslumaður Strandasýslu (kallaður Galdra-Vilki), en Magnús Jónsson á Reykhólum fékk þann sýslupart aftur.

Guðmundur Þórðarson sór tylftareið fyrir galdraáburð Lénharðs Jónssonar.

1676

Dómur Magnúsar Jónssonar sýslumanns í Strandasýslu genginn á Kaldrananesi um 9 blöð úr hirslu Jóns Pálssonar. Á þeim var óvenjulegur caracteribus með tveimur tóustefnum og vanbrúkun guðs nafns. Sveitungar Jóns báru honum gott orð og ekki var vitað til að hann hefði brúkað blöðin til meins. Dæmdur til húðláts sem næst gangi lífi og að fyrrnefnd blöð öll níu verði brennd fyrir nösum hans.

Guðrún Halldórsdóttir ekkja Þorleifs heitins Einarssonar fæddi barn á Stað í Steingrímsfirði og vildi ei barnsföður lýsa í hálft annað ár. Varð séra Einar Torfason um síðir þar faðir að, í hórdómi fram hjá konu sinni.

Sigurður Ólafsson í Barðastrandarsýslu viðurkenndi meðferð á galdrastafablaði. Eggerti Björnssyni var skipað að sjá um húðlát nema ástæður þyngri refsingar finnist.

Galdramál fyrst borið upp á Ara Pálsson búanda á Neðrabæ í Barðastrandarsýslu af Sigurði Bjarnasyni á Hrafnabjörgum í Arnarfirði.

1677

Brenndur á alþingi Bjarni Bjarnason af Vestfjörðum og Þorbjörn Sveinsson, kallaður Grenjadals-Tobbi, úr Borgarfirði, báðir fyrir galdra og gjörninga mönnum og fé. Á Bjarna var m.a. borið að hafa valdið dauða Ingibjargar Pálsdóttur. Á Þorbirni fannst skinnbudda með þrem kverum og skinnlengjum, allt með galdrastöfum.

Hjá Bjarna Arasyni úr Ísafjarðarsýslu fannst eitt blað með galdralegum ristingum. Hann var dæmdur til alvarlegrar húðlátsrefsingar.

Páll Torfason sýslumaður bar fram óvenjuleg stafa blöð sem fundust í Sandakirkju í Dýrafirði.

Réttaður í Strandasýslu Þorlákur Þorsteinsson og tekinn af lífi.

Í Steingrímsfirði var hengdur maður fyrir þjófnað; hafði hann brotið hús og hirslur manna til fjár.

Franskt hvalaskip steytti í Skellibjarnarvík á Ströndum. Sigldu sumir skipbrotsmenn á 2 bátum suður fyrir land á Bessastaði, í Hólm og Hafnarfjörð. Þeir voru aflagðir í Geluckstað.

Þetta ár kom heim ferðalangurinn Ásgeir Sigurðsson sem síðar bjó á Ósi í Steingrímsfirði. Skrifaði reisubók.

1678

Brennd á Vestfjörðum Þuríður Ólafsdóttir og Jón sonur hennar fyrir að vera völd að sjúkleika maddömu Helgu í Selárdal með galdri. Hafði konan verið alla sína daga í Skagafirði og aldrei orðuð við galdur. Kom vestur vorið 1677, sem aðrir fátækir, með syni sínum, illa kynntum Jóni, þó fyrir utan galdrarykti. Hafði sonur hennar sagt að hún hefði farið yfir vatnsföll öll norðan, fyrir utan hesta eða ferjur og brúkað galdur til. Var lygum hans trúað og þau tekin bæði og brennd.

Í Húnavatnssýslu Stefán Grímsson borgfirskur og mikið drengmenni brenndur fyrir galdra.

Tveir galdramenn strýktir á alþingi úr Húnavatnsþingi, báðir af Skagaströnd.

Á alþingi voru strýktir 2 menn úr Húnavatnssýslu, Magnús Benediktsson og Clement Úlfsson fyrir galdraáburð og eiðfall.

Þórði Guðmundssyni, skólagengnum, dæmd hæsta húðlátsrefsing fyrir galdrablaðaskrif eftir bón annars. Átti sú refsing að leggjast á hann heima í héraði í Árnessýslu.

Stóðu þá og mál Ara Pálssonar (brenndur 1681) er borinn var fyrir göldrum vestra og þess að hann hefði verið valdur að veikleika Þorkötlu Snæbjarnardóttur á Lokinhömrum, konu Magnúsar Guðmundssonar.

Mál á hendur séra Árna Loftssyni fyrir galdra hefst. Borið var á hann að hann hefði með fordæðu og fjölkynngi hleypt þvingunarsömum veikleika á Rögnvald mág sinn og konu hans. Málinu var haldið áfram á prestastefnu árið eftir og „þóttu veikar ástæður Rögnvalds“. Eftir sættir fékk Rögnvaldur Strandasýslu og hélt henni í nokkur ár.

Fjallað um galdraskrif Þórðar Guðmundssonar úr Vatnsleysuþingi á alþingi. Hann skrifaði átta smáblöð og var dæmdur til húðláts eða útlegðar. Það fyrra varð ofaná.

Lýsti Guðrún Halldórsdóttir á Stað í Steingrímsfirði eftir langa þögn Sigurð Guðmundsson föður að barni sínu, Teiti. Hann sór fyrir barnið á Hróbergi.

1679

Bjarni Þorgeirsson í Álftafirði borinn galdraáburði af Þórunni Árnadóttur konu séra Björns Þorleifssonar, fyrir að vera valdur að veikleika hennar. Honum var eiður dæmdur og svarinn ósær af nefndarvættum. Síðan dæmdur af lögmanni til tveggja húðlátsrefsinga.

Hallvarði Stefánssyni í Kjós eignaður veikleiki Gísla að Hurðarbaki, ryktið ekki talið hafa lagagrundvöll og vísað til rannsóknar í héraði.

Lýst eftir Einari Þorbjörnssyni úr Miðfirði sem borinn var galdri af séra Jóni Bjarnasyni.

Þorleifur Kortsson segir af sér lögmannsembætti sökum aldurs. Kosinn Magnús Jónsson Magnúsarson Arasonar og Jórunnar Magnúsardóttur lögmanns Björnssonar er þá hafði Strandasýslu og lagði þar af eið sinn.

Einar prestur Torfason prests Snæbjarnarsonar sem hélt Stað í Steingrímsfirði sigldi fyrir kóng. Hann hafði uppvís orðið að hórdómsmáli en hafði um nokkur ár vafið með ýmsum krókum og brögðum barneignarmál Guðrúnar Halldórsdóttur sem til heimilis hafði lengi verið hjá honum, en hún hafði nú lýst hann föður að þessu barni.

1680

Þetta vor snemma fór Árni prestur Jónsson frá Hofi á Skagaströnd snögglega burt er honum hafði til eiðs dæmt verið fyrir galdraáburð allmargra manna í kirkjusóknum hans tveimur, Hofs og Spákonufells. Hann kom fram á Austfjörðum og sigldi þaðan til Englands.

Einar prestur Torfason kom og út, hafði farið með mál sitt, og fengið að halda embætti en ei kallinu. Fékk hann seinna Stað í Reykjanes og var þar enn ei vinsæll.

Þá voru borin í lögréttu nokkur galdrablöð er tólf menn vildu meina að væru með hendi Jóns Eggertssonar. Á því þingi stefndi Jón Eggertsson Magnúsi Jónssyni lögmanni 12 mánaða stefnu fram í Kaupenhafn fyrir 16 sakir fyrir kónginn og ráðið og fyrirbauð honum nokkra eiða að taka um sig eða nokkurn dóm dæma. Lögmaður tók engu að síður eiða um að þeir héldu að Jón Eggertsson hefði með eigin hendi skrifað þetta rúnablað. Var síðan sett til alþingis hvað háan eið Jón skyldi hafa fyrir áðurnefnt blað.

Fordæðu- og galdrayfirgangur á Vestfjörðum, einkum í Ísafirði, þar voru kvaldar þrjár kvenpersónur og í Trékyllisvík gat presturinn ei þjónustu framið í kirkjunni.

Bar Vilborg Ísleifsdóttir galdraáburð upp á Gísla Árnason um sinn veikleika, dæmdist honum sökum líkindaleysis tylftareiður með fangavottum í Hrafnseyrarþingsókn, hvern hann ei fullkomlega framkvæmt gat. Var hann þar fyrir síðar strýktur.

Höskuldi Sveinssyni úr Aðalvík dæmt húðlátsstraff sem næst gangi lífi fyrir galdrablaða meðferð.

1681

Brenndur á alþingi Ari Pálsson úr Barðastrandarsýslu hvers mál lengi yfirstaðið hafði og til margra alþinga komið. Upp á hann var borinn og svarinn galdraáburður af Þorkötlu Sveinbjörnsdóttur sem og fleira.

Viðurkenndi Ari eftir að líflátsdómurinn var upp kveðinn fjölkynngiskonst, að kunna kotruvers og að vita hvort konur væru óspjallaðar meyjar. Á Lokinhömrum fannst galdraspjald eftir að Ari fór þaðan. Meðkenndi hann sig dauða verðan og var brenndur. Ari var hreppstjóri og svo búinn í skart að margir höfðingjar keyptu klæði hans.

Komu fram galdrablöð úr Austfjörðum á alþingi.

Guðbrandur Bjarnason úr Kjalarnesþingi átti galdrablöð sem húsbóndi hans brenndi að sýslumanni óspurðum. Guðbrandur fékk húðlát, sagði blöðin komin frá norðlenskum vermanni. Loptur Sigurðsson útileguþjófur náðist af Hrútfirðingum við fyrirsátur með hóp fjár um haustið. Náðist í Vatnaflóa er hann ætlaði í Surtshelli hjá Kalmannstungu. Hafði hann haldið við gifta konu og lagst út með henni og konu sinni. Var önnur konan með barni. Voru þá með þeim þremur 5 börn þeirra; hafði Loptur víða rænt og stolið. Var hann hinn mesti óaldarmaður. Var færður valdsmönnum og höggvinn sama haust en önnur konan fékk húðlát.

Drukknaði í Skeiðará austur Gvöndur Þórólfsson, illa ræmdur, er af Ströndum strauk.

1682

Þorsteinn Högnason hét maður er galdrum var borinn af mörgum í Húnavatnssýslu en meðgekk aldrei. Hann var strýktur.

Fundið galdrablað í Þverárþingi með stórum ljótum charactere og ósæmilegri fyrirsögn. Afhent Magnúsi Jónssyni sýslumanni til að reyna að uppgötva eigandann.

Andaðist 8 vetra stúlkubarn Bjarna Sturlusonar í Tungu í Bolungarvík er fyrirfarandi vetur og sumar hafði mjög kramið og kvalið verið af illum anda; meinast af galdraverkum, aðsveigt af völdum Helgu Höskuldsdóttur, hverrar tylftareiður þar fyrir á Hólsþingi dæmdur var, hver eð féll því sumar eiðakonur vildu ei með henni sanna; var síðan strýkt á Nauteyrarþingi eptir lögmannsdómi.

Á alþingi hengdur maður úr Strandasýslu fyrir þjófnað, annar hálshöggvinn er orðið hafði að skaða dönskum manni á Vestfjörðum og launtekið frá honum fjárhluti nokkra.

1683

Sveini Árnasyni var dæmdur tylftareiður á Nauteyrarþingi fyrir áburð séra Sigurðar Jónssonar í Holti í Önundarfirði um veikleika sinna barna. Sveinn kom ekki fram eiðnum og var um haustið brenndur í Arngerðareyrarskógi á Langadalsströnd.

Var Árna Jónssyni á Höfðaströnd (í Grunnavík) dæmdur tylftareiður fyrir galdraáburð Teits Jónssonar hvern hann sór um vorið.

Einnig var Hannesi Illhugasyni tylftareiður dæmdur fyrir galdraáburð Steinþórs Ormssonar.

Gísli Árnason á Mýraþingi strýktur fyrir galdra eftir eiðfall.

Rykti á Ástríði Vigfúsdóttur í Dölum. Talin sú sama og dauð og uppvakin fannst við Haukadalsá.

Hafís kom í Grindavík svo og mikill fyrir norðan, einnig mikill um Strandir svo ei sást út yfir af háum fjöllum og lá lengi fram á sumar.

Jóni Hreggviðssyni kennt um dráp Sigurðar böðuls.

1684

Mál Jóns Eggertssonar þar sem galdrablöð voru lítill hluti af pólitískum átökum kom fyrir á alþingi, sjá 1680.

Í Hrútafirði í Strandasýslu féll Björn Höskuldsson með þeirri konu er skilgetin bróðir hafði áður með fallið. Voru bæði flutt til alþingis; var konunni þar drekkt en Björn slapp úr járnum á alþingi með því móti að þessi kona (Helga Gunnarsdóttir) komst að lyklunum og gat upp lokið hans handjárnum en hann sjálfur síðan fótjárnunum. Björn stal hesti og reið síðan á Vestfirði og sigldi með engelsku varnarskipi.

Ókyrrleiki í Hnappadalssýslu líka af Vestfjörðum svo 11 manns þar meintust af gerningum þvingaðir vera.

Um haustið rak mikla síld á Hrútafirði er sumir nefndu marþvöru, svo hún var í lestarferðum sótt úr næstu sveitum. Ei var það kölluð heilnæm fæða þá hún tók að eldast.

Á prestastefnu í Skagafirði var fullyrt að biskupsefni konungsvaldsins, Jón Vigfússon yngri, hefði verið borinn galdur (sjá 1671). Var það ein ástæða þess að prestar vildu ekki samþykkja embættisveitingu Heidemanns fógeta.

Reið landfógeti Heidemann vestur undir Jökul og minntist á líflát Sveins er brenndur hafði verið. Auglýsti Heidemann kongl. instrux að stórbrotamenn skyldu ekki hér í landi réttast fyrr en kóngsins andsvar væri þar um komið. Ætlaði hann vestur til Selárdals en hindraðist sökum snjóa og ófærða.

1580

Í Íslandslýsingu Peders Hansens Resen frá 1688 er nefnd sú saga að árið 1580 hafi kona nokkur verið dæmd til dauða fyrir að brúka tilbera.

 

1685

Þetta ár dæmt í guðlöstunarmáli Halldórs Finnbogasonar, þess sem hafði snúið Faðirvorinu upp á djöfulinn. Hann var brenndur fyrir guðlast.

Herra Þorleifur Kortsson og Ingibjörg kona hans fóru frá Þingeyrum og vestur til Bæjar við Hrútafjörð, á jörð sína.

Herra Sigurður Björnsson lögmaður þingaði á Kálfatjörn um ófríhöndlunarmál Strandamanna; þeim dæmt búslóðarstraff.

Þá var prestur á Stað í Aðalvík Vernharður Erlendsson og hafði hann misst prestskapar fyrir galdrarykti.

Tekið fyrir rykti á alþingi um galdrakrot á grenifjöl sem fannst í altari kirkjunnar á Mel í Miðfirði, álitnar engar óvenjulegar rúnir eða ristingar.

1686

Mál Sigurðar Torfasonar fyrir þing. Lögmaður átelur dóm frá Tungu í Örlygshöfn, telur skorta sannanir. Hafi 

vond kynning Sigurðar við málið aukist … einnin vitnisburðir fram komnir upp á hans orð að um dysjaðan dauðs manns líkama engelskan forvitnast hafi, þar af bein og tennur burt tekið hvað ei hefur fyrr hér í lögréttu né fyrir lögmenn í héraði fram komið.“ 

Sigurður hvarf og var lýst eftir honum árið eftir.

Andaðist séra Árni Einarsson á Ósi í Steingrímsfirði. Hann hafði misst prestskap í Skarðsþingum og bjó síðan lengi embættislaus á Ósi. Einnig Magnús Halldórsson á Kambi í Veiðileysu; frá honum er komin fjölmenn ætt í Strandasýslu. Hann var nafnfrægur hákallamaður, dó af ætu sem hann fékk í tunguna.

1687

Þingað á Hóli í Bolungarvík um galdramál Péturs Ólafssonar og til eiðs dæmt. Honum var eiðurinn ósær svarinn og var hann á alþingi strýktur og annað húðlát í héraði dæmt.

Blöð komu fram úr Múlaþingi frá Jóni heitnum Þorlákssyni, annað til fiskiheilla með settum galdrastaf og hitt um kvennamál með sínu átrúnaðarteikni.

Síðasta málið tengt Selárdal, ákæra á Þorstein Helgason fyrir eftirskilin galdrablöð. „Skal flytjast til typtunar,“ en strauk og lýst var eftir honum á alþingi.

Lýst var eftir Ásmundi Grímssyni úr Vöðlaþingi fyrir galdragrunsemd.

Ingibjörg Jónsdóttir í Múlaþingi (Galdra-Imba í þjóðsögum, kona sr. Árna Jónssonar á Skagaströnd, sjá 1680) biður um og fær að leggja fram frelsiseið vegna galdraryktis.

1688

Galdragrunsemdir Ólafs Árnasonar á Sigurð Guðmundsson, engar bevísingar. Hvorugur mættur, málið sent aftur í hérað.

Mál Klemusar Bjarnasonar hefst á Bassastöðum við Steingrímsfjörð í ágúst 1688 með því að Kolbeinn Jónsson, annar ábúenda á Hrófbergi, leggur fram kæru á hendur honum fyrir að 

hafa með fjölkynngi og fordæðuskap ollið þeirri stórkostlegri veiki og kvalræðis krankleika“ 

sem hafði dregið konu hans, Guðrúnu Árnadóttur, til dauða.

1689

Veiktist séra Bjarni Brynjólfsson á Mýrum í Dýrafirði undarlega og meinast af göldrum. Áburður á 2 menn, Guðmund Jónsson og Ketil Brandsson.

Á alþingi var Markús Magnússon á Reykjum í Syðra-Reykjadal dæmdur til að færast undan galdraáburði. Rögnvaldur Sigmundarson sýslumaður í Strandasýslu hafði þar mál fyrir; sá maður hét Vigfús Jónsson er þaðan var kærður um ofsa og kirkjufriðarspell.

1690

Dæmdur frá lífi á alþingi fyrir galdrabrúkun Klemus Bjarnason úr Steingrímsfirði; meðkenndi sig brúkað hafa töfravers yfir fé sínu. Ekki var lagt á hann lífsstraff og látinn aptur í vöktun sýslumannsins í Strandasýslu; sat hann þar til næsta árs.

Áburður (að Mýrum í Dýrafirði) séra Bjarna Brynjólfssonar á Guðmund Jónsson og Ketil Brandsson með lítilfjörlegum líkindum. Þeim dæmdir eiðar í héraði.

1691

Kom hingað kóngleg skikkan af dato 5. maí að þessi Klemus Bjarnason skyldi æfinlega útlægur af landinu. Var hann þá útfluttur og dó í Kaupmannahöfn veturinn eftir, kristilega eftir sögn biskupsins herra Einars Þorsteinssonar, hver honum dauðvona veitti þar heilagt sakramenti. Eigi hafa galdramenn hér síðan brenndir verið og minna borið á svoddan málum, segir í annálum.

Sigurður Hákonarson þóttist hafa fundið galdrakver á Skutilsfjarðareyri, var það fram lagt og honum dæmdur eiður fyrir.

Gissur Brandsson hýddur fyrir guðlast.

Sigríður Magnúsdóttir úr Barðastrandarsýslu bar galdra á Halldór Jónsson, honum var dæmdur tylftareiður.

1692

Bárður Bjarnason í Barðastrandarsýslu var dæmt húðlát og útlegð úr héraði vegna áburðar um galdra.

Kom út Jón Árnason skólameistari á Hólum og síðar biskup með bréf fyrir Stað í Steingrímsfirði.

1693

Lýst eftir Sumarliða Jónssyni, brotthlaupnum úr Snæfellssýslu, dæmdur í járn á Brimarhólm hjá hverjum og svo hafi fordæðulegur galdur fundist.

Hlupu margir háhyrningar á land á Melum og víðar í Trékyllisvík.

1694

Þessi hafís byrgði og inni 3 hollenskar fiskiduggur á Dröngum á Ströndum og 2 í Trékyllisvík, hverjar ei útkomust fyrr en á miðsumri. Voru skipmenn þá að mestu kostlausir orðnir. Hafísnum fylgdu hvalrekar.

Hórdómsmál í Súðavík, drápu barnið, flúðu á Strandir, náðust í Steingrímsfirði.

1695

Á Bölum fyrir norðan í Trékyllisvík lágu íslenskir menn á ísnum og fengu 100 hákarla. Yfir hvern fjörð fyrir norðan mátti ríða og renna á ísnum um vorkrossmessu.

1696

Sýslumaðurinn Jón Þorláksson í Múlaþingi býðst til að sverja eið gegn áburði Höskuldar heitins Halldórssonar. Það var talið óþarft því áburðurinn var ógrundaður.

Deyr síra Jón Magnússon þumlungur.

Ekki var kominn sauðgróður á Ströndum fyrir Jónsmessu.

1697

Í Tálknafirði á Vestfjörðum dó einn maður, gekk aftur og kvaldi annan mann, gjörði stórar ónáðir á bænum þar sem hann dó. Grafinn upp aftur tvisvar og í seinna sinni kominn á fjórar fætur á grúfu í gröfinni. Þá tekið af honum höfuðið og stungið til saurbæjar. Síðan varð ekki vart við hann.

Það ár voru harðindi fyrir norðan og vestan, sérdeilis í Strandasýslu. Þann sama vetur varð sauðlaust á Ströndum svo fólk lifði þar ei á öðru en sjóföngum sínum mestanpart.

Þá féllu margir snauðir menn og gekk hettusótt. Er mælt að 54 dæi í Trékyllisvík en önnur heimild telur þá 80.

1698

Kom upp mál er Rögnvaldur Sigmundsson sýslumaður á Ströndum og Þorbergur prestur í Vík kærðu Guðmund í Ávík son Vilhjálms sýslumanns Arnfinnssonar um ofsa hans og ill atvik. Gerði Guðmundur óskikkanlegan hávaða við Prestbakkakirkju á 3. dag páska, item hrækti hann til prestsins og sagði svei eltandi hann út og inn og vildi ei af láta. Dæmdur rétttækur hvar sem er af Rögnvaldi sýslumanni og Strandasýsluinnbyggjurum.

Manndauði vegna bjargarskorts í Trékyllisvík, Steingrímsfirði, Bitru og Hrútafirði.

1699

Eiður Gunnars Árnasonar, Hornafirði, um að hann hefði aldrei lært eða brúkað galdur.

Ásmundur Jónsson sem hýddur var á Öxaráþingi í fyrra fyrir lygi og fjölmæli um valdsmenn fór í fyrrasumar vestur um Dali og norður um Strandir. Var hann tekinn höndum í Hlíð í Kollafirði og færður sýslumanninum í Dalasýslu. Þar var hann hafður í járnum en eigi að síður tókst honum að strjúka og veit nú enginn hvað af honum er orðið.

Á þessum undanförnum tveimur árum fyrirfarandi er sagt að dáið hafi í Trékyllisvík meira en 120 manneskjur bæði í hor, hungri og sótt, því að öll liðamót hnepptust saman, fengu bólgu í munninn og tannholdið (það var kallað skoltur). Sumir fengu blóðspýju undir andlátið; var og þetta kallað hneppusótt. Þessi kvilli var víða við sjóinn á þurrabúðarfólki, bæði í kringum Jökul, í Bjarneyjum svo og á Vestfjörðum í sjóplássum.

Þetta ár vísiteraði Jón Þorkelsson Vestfirði, m.a. Strandir.

1701

Á þessa árs alþingi var hengdur þjófur, Ásmundur að nafni. Árið áður hafði hann stolið miklum fjármunum frá Sveini Jónssyni í Ófeigsfirði. Náðist í Eyjafjarðarsýslu.

1702

Halldór Einarsson sýslumaður Þingeyinga borinn galdri af Gísla Árnasyni í Ási í Kelduhverfi.

Þriðja mál Jóns Jónssonar (úr Ísafjarðarsýslu) um galdrarykti og grunsemdaráburð, hvar fyrir honum var tylftareiður dæmdur og nefndarvætti sóru honum hann ósæran. Virtist lögmönnum og lögréttunni hann frí frá því máli og ei eiðfall þar ryktið ei svarið var og var honum úr járnum sleppt á alþingi.

1703

Laugardaginn fyrir Mikaelsmessu lagði út Höfðaskip. Þar var kominn á til siglingar litari sá er verið hafði á Þingeyrum veturinn fyrir og önnur þernan danska er út hafði komið í Höfðanum hið fyrra vorið. Gerði þá veður ógnarlegt og óvenjulegt af norðri; gekk það sunnudaginn, mánudaginn og þriðjudaginn. Hraktist kaupskip það inn á Reykjarfjörð á Ströndum og lagðist þar á höfnina við lífakkerið því hin tvö voru áður ónýt orðin; slitnaði þá strax kaðallinn en skipið rak upp í sandinn og brotnaði svo að það fylltist af sjó. Var öllu góssinu bjargað; voru þar á 12 fálkar sem Laurits lögmaður hafði látið taka áður um sumarið og ætlað til siglingar (sumir sögðu að senda kóngi). Komust þeir og heilir af.

Fyrsta manntal á Íslandi.

1705

Hálshöggvinn Sumarliði Eiríksson úr Strandasýslu er átt hafði barn við Ragnhildi Tómasdóttur hálf-bróðurdóttur sinni. Henni var drekkt.

1706

Lést síra Páll Björnsson í Selárdal.

1707

Kolbeinn sýslumaður í Skaftafellssýslu talinn fjölkunnugur af kollega sínum. Yfirlýsing um sættir þeirra sýslumanna.

Lést Magnús prestur að Stað í Steingrímsfirði.

1708

Þorsteinn nokkur úr Skeggjastaðaþinghá ákærður skriflega fyrir fjölkynngi, ákæran var felld niður, skrifuð í fylleríi.

Um haustið tók bólan sig aftur upp og gekk hið nyrðra í Vopnafirði og á Ströndum með slíku mannfalli sem annars staðar, allt fram undir jólaföstu.

1710

Fundust tvö kver í fjörunni við Stokkseyri illa skrifuð með caracteribus, með nöfnum: Þórdís Markúsdóttir, Markús Guðmundsson. Þeim var dæmdur sjöttareiður og málinu átti að ljúka fyrir nóvemberlok.

1711

Jón Sigurðsson í Húnavatnssýslu kærður af Sigríði Jónsdóttur fyrir að valda sér veikindum og einnig af Guðmundi Konráðssyni og konu hans Þuríði Guðmundsdóttur fyrir að valda veikindum Þuríðar. Dæmdur saklaus, ákæran sögð aðallega komin til af fávísi ákærenda.

Sigfús Þorláksson á Grund í Eyjafirði ákærður fyrir fjölkynngi af Eiríki Jónssyni á Dvergsstöðum. Báðir mættu á alþing. Eiríkur taldi Sigfús valdan að veikindum barns síns. Heima höfðu ástæður verið taldar veikar og málinu var vísað aftur heim þar sem Eiríki var ætlað að finna talsmann og málsbætur fyrir ákærunni. Eiríki skipað að biðja Sigfús fyrirgefningar og síðar að greiða Sigfúsi kostnað af þingreiðum.

1716

Mál Jóns Ólafssonar kom fyrir lögréttu. Kver hafði fundist í kistu hans, en þar eð hvorki sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu eða ákærandi mættu var málinu vísað frá.

1719

Lesin var upp á þingi dómsprósess úr Arnarfirði um mál Sigmundar Atlasonar, Sigurðar Gíslasonar og Jakobs Jónssonar sem viðurkenndu að hafa haft undir höndum blöð nokkur. Á næsta þingi (1720) voru þeir dæmdir til sekta til hospítalsins.

Borin var undir lögréttu ákæra upplesin á Auðkúlu um veikindi með galdri. Lögrétta svarar:

Magnús Jónsson á og skal engan eið afleggja fyrir líkindalausan áburð Jóns Jónssonar.

Sýslumaðurinn aðvaraður um að hann ei þvílík marklítil mál oftar til lögréttunnar úrlausnar setji.

 

Með þessum orðum lögréttu er talið að galdraöld ljúki.