Ónefnd galdrakona – brennd 1580

Í Íslandslýsingu Peders Hansens Resen frá 1688 er nefnd sú saga að árið 1580 hafi kona nokkur verið dæmd til dauða fyrir að brúka tilbera.


Guðrún Þorsteinsdóttir – brennd 1608

Guðrún Þorsteinsdóttir var brennd í Þingeyjarsýslu fyrir að hafa brennt barn húsbænda sinna í grautarkatli.

Engar heimildir tengja þetta mál ótvírætt göldrum, en Ólína Þorvarðardóttir setur þá hugmynd fram í doktorsritgerð sinni. Aðrir telja þetta dæmi um refsingu sem byggist á hugmyndinni um auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.


Sveinn skotti Axlar-Bjarnarson – brenndur 1648

Til er bréf frá Brynjólfi biskup Sveinssyni frá 1646 þar sem hann kærir Svein skotta fyrir foröktun guðs orðs og sakramentis og að hafa iðkað djöfulsins íþróttir. Sveinn hafði þá tvívegis verið hýddur, m.a. fyrir nauðganir, en á Öxarárþingi þetta ár var hann hýddur „svo mikið sem hann má mest bera“ og skorið af honum annað eyrað, en jafnframt dæmdur réttdræpur ef hann brjóti af sér á ný. Sveinn var síðan tekinn fyrir nauðgunartilraun og hengdur á Barðaströnd 1648.


Jón ríðumaður (Jónsson, Sýjuson) – brenndur 1650

Jón Ríðumaður var dæmdur fyrir endurtekið hórdómsbrot og barneign með stjúpdóttur sinni. Hún meðgekk og var henni drekkt. Jón þótti hins vegar harðsvíraður og viðurkenndi ekkert.

Hann var hálshöggvinn á þingi en illa gekk að aflífa hann „varð ei krassað af honum höfuðið í 30 höggum; vafðist exin upp sem í stein hjyggi.“

Í skóm hans fundust eikarspjald og brot af hauskúpu með hárinu á, hvort tveggja með galdrastöfum og þótti þá öruggara að brenna skrokkinn. Sagan segir að Jón þessi hafi kennt Sveini skotta galdur.


Halldór Finnbogason – brenndur 1685

Ári eftir að síðasta galdrabrennan fór fram gekk í gildi konungleg tilskipun þess efnis að málum stórbrotamanna skyldi skotið til konungs. Þessi atburður hafði mikil áhrif þótt ekki kæmi hann í veg fyrir að Halldór Finnbogason úr Þverárþingi vestan Hvítár væri brenndur fyrir guðníð á alþingi í júlí 1685.

Hann játaði í votta viðurvist að hafa snúið Faðirvorinu upp á andskotann sem hér segir:

„Skratti vor, þú sem ert í Víti. Bölvað veri þitt nafn. Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem í Víti. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér fyrirgefum vorum skuldunautum.“

Einnig kvaðst Halldór hafa snúið skriftamálum upp á Satan með þessu upphafi:

„Minn kæri og verðugi skratti. Eg bið þig gjarnan að heyra mína játning og hugga mig með Sathans orði og segja mér minna synda fyrirgefning í djöfuls nafni.“

Halldór viðurkenndi og þuldi guðlastið á þremur dómsþingum, síðast á Þingvöllum þar sem hann var dæmdur „fyrir guðlast og dýrkun djöfulsins“ en ekki beinlínis fyrir galdra.