Náttúrusteinar voru taldir gæddir töframagni og til margra hluta nytsamir. Trúin á steina er forn og er þeirra m.a. annars getið í Grágás þar sem lagt er bann við að fara með þá eða magna. 

 

Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans. Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina. 

 

Á síðari tímum eru slíkir steinar einkum sagðir fyrirfinnast á ákveðnum stöðum eins og Drápuhlíðarfjalli, Tindastóli, tindinum Kofra, Eyjafjalli á Bölum á Ströndum og víðar.

 

Sögusteinn

Sögusteinn finnst í maríuerluhreiðrum í maí. Hann skal bera í blóðugum hálsklút og láta á hægra eyra sér ef maður vill vita eitthvað.

 

Surtarbrandur

Surtarbrandur er sagt að eigi við kveisu og verkjum ef hann er hitaður og lagður á verkinn.

Ef surtarbrandur er mulinn smátt ver hann föt fyrir möl og öðrum skorkvikindum; hann ver undirflogi á fénaði ef hann er látinn í fjósveggi eða kvíaveggi á stöðli.

 

Segulsteinn

Segulsteinn er góður til að vita hver hefur stolið frá manni. Nöfn þeirra sem grunaðir eru um stuldinn eru skrifuð á blað og steinninn lagður fyrir neðan nöfnin, fer þá steinninn á nafn þess sem sekur er.

Önnur aðferð er að mylja hann saman við hrátt deig og messuvín og baka í eldi. Svo skal gefa þeim að éta sem grunaður er um þjófnað. Ef í honum stendur er hann þjófur, en annars ekki.

 

Óskasteinn

Óskasteinn veldur því að maður fær hverja ósk sína uppfyllta. Hann finnst við sjó að hálfföllnu þegar tungl er 19 nátta og sól í fullu suðri.

 

Lífsteinn

Lífsteinn lífgar það sem dautt er eða dauðvona. Hann finnst þar sem jörðin veltist um og skrugga fellur.

Þar sem lífsteinn er inn borinn grandar ekki eldur.

 

Lausnarsteinn

Lausnarsteinn auðveldar fæðingu. Hans var aflað með því að múlbinda arnarunga og sótti móðirin þá lausnarstein til að leysa þá. Þurfti að vera nærri og grípa steininn því annars fór hún með hann á fertugt dýpi um leið og ungarnir voru orðnir lausir.

 

Lausnarsteinn leysir konu frá fóstri sínu og þarf ekki að gera annað en leggja hann á kvið konunnar eða gefa henni vatn eða vín sem steinninn hefur legið í eða verið skafinn út í.

 

Sumir segja að lausnarsteinarnir hafi verið tveir, karkyns og kvenkyns. Það er kvenkyns steinninn sem léttir konum fæðingu. 

Best er að afla sér lausnarsteins á Jónsmessunótt. 

Annar lausnarsteinn finnst sjórekinn, oftast á Hornströndum.

 

Hulinhjálmsteinn

Hulinhjálmsteinn er dökklifrauður að lit. Hann skal geyma undir vinstra armi. Vilji maður gera sig ósýnilegan á að fela steininn í vinstri lófa vafðan í hárlokk eða blað svo hvergi sjái á hann. Þá verður maður ósýnilegur en sér þó allt sem fram fer umhverfis mann.

 

Fésteinn

Fésteinn er í laginu eins og sauðatunga, hvítur að lit með litlum hrufum, en í öðrum endanum mjó svört rák. Hann vex utan á vömbinni á sauðfé. Hann skal taka og geyma í góðri hirslu og mun hann þá að gagni koma.

Annar fésteinn er ímóálóttur að lit og hnöttóttur. Hann finnst rekinn af sjó og skal geymast í hvítu óbornu lérefti.