Svanur á Svanshóli

Svanur á Svanshóli er fyrsti nafntogaði galdramaðurinn á Ströndum. Hans er getið í Landnámu og er þar sagður sonur Björns, landnámsmanns í Bjarnarfirði, og Ljúfu konu hans. Hann hefur verið allþekktur maður á ritunartíma íslenskra fornrita. Hans er m.a. getið í Grettis sögu og Laxdælu en mest er sagt af honum í Njáls sögu.

 

Svanur var móðurbróðir Hallgerðar langbrókar og geymdi þræl hennar, Þjóstólf sem drap fyrsta eiginmann hennar. Þegar Dalamenn hugðust hefna og drepa Þjóstólf komust þeir ekki yfir Bjarnarfjarðarháls vegna gjörningaþoku Svans. 

 

Í Njálu er Svanur sagður „fjölkunnugur mjög“ og „illur viðureignar“. Þar er einnig greint frá ævilokum hans á þann hátt að eitt sinn þegar hann var í róðri á Húnaflóa gerði austanveður mikið svo bátur hans týndist. Fiskimenn sem voru að veiðum við Kaldbak þóttust sjá Svan ganga í fjallið þar sem honum var vel fagnað.

 

 

Eiríkur í Vogsósum

Eiríkur Magnússon (1638-1716) mun hafa lært undir skóla hjá Jóni Daðasyni í Arnarbæli og var síðar aðstoðarprestur hans. Hann varð síðan prestur í Selvogsþingum og bjó sem ókvæntur húsmaður á Vogsósum.

Miklar sögur fara af galdrakunnáttu Eiríks í þjóðsögum, sjá sögurnar Galdrabókin í Skálholtskirkju og Tóbakið.

 

Galdra-Imba

Ingibjörg Jónsdóttir var eiginkona sr. Árna Jónssonar í Hvammi á Skagaströnd sem ákærður var 1679 fyrir að valda veikindum og drepa skepnur. Presti var dæmdur tylftareiður sem honum tókst ekki að koma fram og flúði þá til Austfjarða og þaðan til Englands. Ingibjörg dvaldi á Austfjörðum eftir brotthlaup prests og árið 1687 bar hún fram þá beiðni á alþingi að fá að sverja af sér galdraryktið. Sýslumaðurinn í Múlasýslu studdi þessa viðleitni hennar og var erindið samþykkt af þingmönnum en engu að síður taldi þjóðtrúin hana fjölkunnuga.

Fjöldinn allur af sögum um Imbu er í Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar.

 

Galdra-Leifi

Þorleifur Þórðarson (d. 1647) bjó lengst af á Garðstöðum hjá Ögri í næsta nágrenni við Ara sýslumann Magnússon. Hann var skáld gott en þekktastur er hann af þjóðsögum um fjölkynngi hans.

Hann á m.a. að hafa reynt að koma fyrir Snæfjalladraugnum sem Jón lærði kvað svo niður.

 

Galdra-Loftur

Loftur Þorsteinsson sá sem víðfrægur er í þjóðsögum og bókmenntum mun hafa dvalið í æsku hjá Þormóði í Gvendareyjum á Breiðafirði, en Þormóður var talinn fjölkunnugur eins og greint er frá í þjóðsögum. Hann hefur verið í Hólaskóla um 1720 en víst er talið að hann lauk ekki skólanámi og að líkindum varð hann ekki gamall og endaði ævi sína á Vesturlandi. Það var hins vegar Norðanlands sem þjóðsagan um hann þróaðist í þá mynd sem við þekkjum í dag. Hins vegar var ekki óalgengt að skólasveinar stunduðu kukl og nokkrir þeirra sem voru samtíða Lofti á Hólum voru síðar taldir fjölkunnugir.

 

Galdra-Manga

Margrét Þórðardóttir (d. 1726) var að öllum líkindum dóttir Þórðar Guðbrandssonar sem brenndur var í Trékyllisvík 1654. Stuttu síðar var Margrét kærð fyrir galdra en hún strauk þá úr sveitinni. Lýst var eftir henni á alþingi, en um 1660 hefur verið komið í ljós að hún dvaldi í Grunnavíkurhreppi í skjóli séra Tómasar Þórðarsonar. Margréti var þá dæmdur tylftareiður sem hún kom fram á Kirkjubóli í Steingrímsfirði 1662.

Til eru fjölmargar þjóðsögur um Galdra-Möngu og er hún þar öll önnur persóna en samtímaheimildir greina frá. Samkvæmt þjóðsögum á henni að hafa verið drekkt í Möngufossi á Snæfjallaströnd en hún varð allra kerlinga elst.

Finnski rithöfundurinn Tapio Koivukari skrifaði sögulega skáldsögu byggða á Galdra-Möngu. Áhugasamir geta fest kaup á bókinni hjá Forlaginu. 

 

Guðbjartur flóki

Guðbjartur Ásgrímsson sem uppi var á 14. og 15. öld var forfaðir flestra sýslumanna Vestfirðinga á 17. öld. Hann er talinn hafa lært utanlands, í París og Þýskalandi, en var síðan prestur á Laufási í Eyjafirði.

Hann var álitinn göldróttur eins og þjóðsögur vitna um.

 

Hálfdán á Felli

Hálfdan Narfason var uppi um aldamótin 1500 og hafa snemma farið sögur af kunnáttu hans. Þótt sögurnar séu miklar af honum er fátt vitað fyrir víst um Hálfdan.

Hálfdan mun hafa verið um tíma kirkjuprestur á Hólum en lengst af var hann prestur að Felli í Sléttuhlíð.

 

Stokkseyrar-Dísa

Árið 1709 fundust tvær galdraskræður í fjörunni á Stokkseyri og á þær voru páruð nöfnin Þórdís Markúsdóttir og Markús Guðmundsson. Skræðurnar, sem innihéldu forskriftir og „óvenjulega charcteribus“ en auk þess lækningaráð og kvæði, voru færð til alþingis árið eftir og sýslumanni falið að rannsaka málið.

Það kom svo aftur fyrir þing 1711 þar sem Eyvindi þeim sem fann kverin var skipað að sverja eið fyrir þau, en svo virðist sem Þórdís hafi álitið hann hafa merkt þau þeim Þórdísi og Markúsi. Þau síðarnefndu áttu síðan að sverja eið fyrir að hafa hvorki átt kverin né brúkað. Allar líkur eru á að þeim hafi tekist að koma fram eiðunum, en af Þórdísi fór síðan mikið galdraorð eins og kemur fram í þjóðsögum.

(Sjá Stokkseyrar-Dísa vekur upp tvíbura)

 

Þorkell Guðbjartsson

Þorkell (d. 1483) var lærður erlendis eins og faðir hans Guðbjartur flóki og var fyrirferðamikill klerkur, m.a. ráðsmaður Hólastóls. Kannski vegna námsins erlendis var hann talinn göldróttur eins og faðir hans.

Þjóðsögur vilja meina að hann hafi skrifað þá frægu bók Gráskinnu sem Galdra-Loftur hafði svo mikið fyrir að komast yfir.