Árni Magnússon (1663-1730) var fæddur á Kvennabrekku í Dölum, sonur Magnúsar Jónssonar prests og Guðrúnar Ketilsdóttur. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1683 og sigldi til Hafnar þar sem hann tók próf í guðfræði. Að því loknu sneri hann til Íslands og hóf að safna handritum. Hann varð prófessor við Hafnarháskóla í fornfræði og síðar í sögu og landafræði.

Árni var einn höfuðfulltrúi þeirra vísindalegu framfara sem höfðu verið í gerjun allt frá endurreisninni. Hann var skynsemistrúarmaður, framfarasinnaður föðurlandsvinur, fjölmenntaður og gagnrýninn og skipulegur í hugsun.

Ari í Ögri (1571-1652) var kominn af miklum höfðingjum, faðir hans var Magnús prúði Jónsson sýslumaður í Ögri og móðir hans Ragnheiður Eggertsdóttir, lögmanns í Ögri. Í eftirmælum um Ara er þess getið að fyrir tvítugt hafi hann verið 9 ár við nám í Hamborg en þar átti hann frændur í móðurætt. Hann tók við Barðastrandarsýslu eftir föður sinn en sleppti sýslunni nokkrum árum síðar til bróður síns, og tók við Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu. Þær hélt hann til dauðadags.

Ari bjó ýmist að Ögri eða á Reykhólum og varð stórauðugur. Hann var með hæstu mönnum, þótti harðdrægur mjög og hélt fast um sitt. Kona hans var Kristín dóttir Guðbrands Hólabiskups. Ari er einna þekktastur fyrir framgöngu sína í Spánverjavígunum sem er talið eitt af mestu grimmdarverkum Íslandssögunnar.

Arngrímur Jónsson (1568-1648) nam í Kaupmannahöfn og varð prestur og prófastur á Mel í Miðfirði, en var lengstum á Hólum sem aðstoðarmaður Guðbrands biskups Þorlákssonar. Hann var einn höfuðfulltrúi þeirrar endurreisnar í menntun og menningu sem blómgaðist á Íslandi eftir siðaskiptin.

 

 

Arngrímur skrifaði mörg rit bæði á íslensku og latínu og átti drjúgan þátt í að vekja áhuga lærðra erlendra manna á íslenskum fornfræðum. Frægasta verk hans Crymogæa er skrifað á latínu og er fyrsta samfellda saga Íslendinga.

Eggert Björnsson (1612-1681) var sonur Björns Magnússonar sýslumanns á Bæ á Rauðasandi og fyrri konu hans Sigríðar Daðadóttur. Eggert var sýslumaður í Vestur-Barðastrandarsýslu og hélt henni til dauðadags. Hann var búsýslu- og fjáraflamaður mikill enda var hann auðugur mjög.

 

 

Eggert var mjög eftirgangssamur í galdramálum, enda stóðu þau honum nærri þar sem séra Páll í Selárdal var hálfbróðir hans. Hlutur Eggerts í galdraofsóknunum á 17. öld virðist hafa verið vanmetinn af fræðimönnum, en ljóst er af heimildum að hann hefur gengið afar hart fram í að fá meinta galdramenn dæmda á bálið og samtímamenn hans telja hann oft hafa farið offari.

 

 

Sjá Selárdalsmál.

Brynjólfur Sveinsson (1639-1674) var fæddur í Holti í Önundarfirði. Hann sigldi 19 ára gamall utan og var fimm ár við háskólann í Kaupmannahöfn. Kom hann þá heim en sigldi nokkrum árum síðar aftur og gerðist konrektor latínuskólans í Hróarskeldu og magister í heimspeki við Hafnarháskóla. Í heimsókn til Íslands var hart lagt að honum að taka við embætti Skálholtsbiskup en hann færðist undan uns konungur skipaði honum að taka við embættinu. Hann var eitt mesta stórmenni sautjándu aldar, röggsamur kirkjustjórnandi, framfarasinnaður í veraldlegum efnum og allra manna lærðastur. Hann bjó yfir víðsýni og umburðarlyndi sem stakk í stúf við rétttrúnað og galdrahræðslu 17. aldarinnar, þótti hann m.a. taka mildilega á galdramálum og orti Maríukvæði í kaþólskum stíl.

 

 

Í tíð Brynjólfs urðu skólapiltar í Skálholti nokkrum sinnum uppvísir að kukli og meðferð galdrablaða, en talið er að Brynjólfur hafi vísvitandi komið þeim undan veraldlegu dómsvaldi en vék þeim hins vegar úr skóla. Sumum hleypti hann síðar aftur í skólann, aðrir komu sér úr landi og enn aðra hafði hann í þjónustu sinni árum saman. 

Sjá nánar Skálholtsmál.

 

 

 

Brynjólfur var áhugasamur um bæði náttúruvísindi og hugvísindi, safnaði fornritum og var áhugamaður um útgáfu þeirra. Þá orti hann talsvert og skrifaðist á við helstu vísindamenn á Norðurlöndum.

 

 

 

Brynjólfur og kona hans eignuðust nokkur börn en einungis tvö þeirra komust á legg. Halldór sonur þeirra dó hálfþrítugur í Yarmouth á Englandi 1666. Ragnheiður Brynjólfsdóttir eignaðist barn í meinum eins og frægt er og lést ári eftir barnsburðinn einungis 22 ára gömul. Brynjólfur tók son hennar að sér og arfleiddi að öllum eigum sínum. Hann lést síðan 11 vetra gamall og svo fór að þessi merki maður átti enga afkomendur. Brynjólfur afhenti Skálholtsstól árið 1674 en hafðist við í Skálholti allt til dauðadags.

Björn Jónsson (1574-1655) var helsti sagnfræðingur 16. aldar á Íslandi. Hann var af bændaættum og missti föður sinn ungur og var á komið fyrir hjá Sigurði lögmanni á Reynistað, bróður Magnúsar prúða. Hann var óskólagenginn en vel lesinn og hefur lært latínu. Lengst ævinnar var hann bóndi á Skarðsá í Skagafirði.

 

 

Til eru eftir Björn skýringar á lögbókum, samantekt um Tyrkjaránið 1627 og fleira, en merkasta rit hans er vafalaust Skarðsárannáll sem skrifaður var að tilhlutan Þórðar biskups Skúlasonar og er ein helsta heimild okkar um atburði frá 1400 til 1640.

Gísli Magnússon (1621-1696) sýslumaður á Hlíðarenda í Rangárvallasýslu fæddist inn í eina auðugustu ætt 17. aldar. Faðir hans var Magnús Björnsson sýslumaður í Eyjafirði, sá hinn sami og stóð fyrir fyrstu galdrabrennunni á Íslandi. Aðeins ellefu ára gamall hóf Gísli nám við Skálholtsskóla, var þar í þrjú ár og önnur þrjú í Hólaskóla. Hann hóf síðan nám við Kaupmannahafnarháskóla árið 1639 og var mestmegnis við nám erlendis, þ.á.m. í Hollandi (þar sem hann sat fyrirlestra Descartes) og Englandi, til ársins 1646. Hann lagði stund á náttúrufræðigreinar, einkum grasafræði, læknisfræði og efnafræði, en einnig heimspeki, tungumál og stjórnmálafræði. Hlaut hann af lærdómi sínum viðurnefnið Vísi-Gísli.

 

 

Meðal þess sem fangaði hug Gísla var hagnýting innlendra náttúruauðlinda og aukin velsæld þjóðarinnar. Hann gerði sér háar hugmyndir um viðreisn Íslands og ferðaðist nokkuð um landið en skrifaði þó ekkert um náttúru- eða landafræði eins samtímamenn hans lærðir gerðu margir hverjir.

 

 

Gísli flutti til dóttur sinnar í Skálholt árið 1685 og bjó þar til æviloka.

Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup (1541-1627) lagði stund á guðfræði og rökfræði við Hafnarháskóla og er sá Íslendingur sem lengst hefur gegnt biskupsembætti, 56 ár. Hann lagði mikla áherslu á að festa lútherska trú í sessi. Guðsorðabækur voru af mjög skornum skammti og til að ráða bót á því keypti hann prentsmiðjuna sem Jón Arason hafði fengið til landsins og gerðist umsvifamikill útgefandi bóka um trúarleg efni. Kunnust er þó Biblían sem við hann er kennd, Guðbrandsbiblía, sem kom út 1584.

 

 

 

Guðbrandur var einnig mikill brautryðjandi í að auka áhuga og þekkingu manna á landinu og náttúru þess og var mikill áhugamaður um náttúrufræði og landafræði. Um 1600 teiknaði hann t.d. Íslandskort sem gjörbreytti þáverandi hugmyndum manna um lögun landsins.

 

 

Guðbrandur stóð í miklum málaferlum um ævina en hann vann ötullega að því að auka jarðeignir Hólastóls og sínar eigin. Einkamálavafstur hans dró marga inn í deilurnar enda voru jarðirnar sem hann gerði tilkall til komnar í eigu ýmissa aðila og ekki alltaf auðvelt að rifta kaupsamningum. Aflaði hann sér margra óvina með málaferlunum en auk þess bakaði það honum óvinsældir að hann skaut stundum ágreiningi við lögréttu til konungs. Eitthvað virðist Guðbrandur hafa stutt Jón lærða en fátt er vitað fyrir víst um samskipti þeirra.

Guðmundur Einarsson (1568-1647) á mikinn þátt í að galdrafárið evrópska barst til Íslands. Hann lærði í Hólaskóla og í Kaupmannahöfn, gerðist síðan rektor á Hólum og þýddi þar guðsorðabækur fyrir frænda sinn Guðbrand biskup.

 

 

Guðmundur var prestur á Snæfellsnesi þegar Jón lærði dvaldi þar og gegn lækningum Jóns ritaði hann Hugrás sem fullu nafni heitir „In versutias serpentis recti et tortuosi, það er lítil hugrás yfir svik og vélræði djöfulsins, sem stundum gengur réttur, stundum hlykkjóttur, að spilla mannkynsins sáluhjálp.“

 

 

Fyrri hluti Hugrásar er almennt um galdra samkvæmt kennisetningum kirkjunnar en þeim síðari er beint gegn Jóni. Guðmundur segir frá því að í Kaupmannahöfn 1589 hafi hann séð 13 nornir brenndar í einu og saknar þess greinilega að slíkt gerist ekki á Íslandi.

Hallgrímur Pétursson (1614-1674) ólst upp á Hólum með föður sínum sem var hringjari þar. Hann var sendur utan í iðnnám en sagan segir að Brynjólfur biskup hafi komið honum í prestaskóla. Þegar hann var í þann veginn að ljúka námi var hann fenginn til að kenna nokkrum Íslendingum sem höfðu verið leystir úr ánauð frá Alsír. Þar hitti hann Guðríði Símonardóttur, betur þekkta sem Tyrkja-Gudda, og tókust með þeim ástir. 

Þau giftust og bjuggu við basl og fátækt í nokkur ár á Suðurnesjum. Árið 1651 fékk Hallgrímur Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og vænkaðist þá hagur þeirra hjóna nokkuð. Hann komst snemma í hóp helstu skálda og orti sálma, rímur og beittar heimsádeilur. Þekktasta verk hans eru Passíusálmarnir, þeir voru fyrst prentaðir á Hólum 1666 og hafa síðan verið prentaðir oftar en nokkurt annað rit á Íslandi. Passíusálmarnir hafa fylgt þjóðinni æ síðan og verið henni nákomnari en nokkur annar kveðskapur.

Fróðleg er sú þjóðsaga að einhvern tíma hafi Hallgrímur átt í vandræðum með dýrbít sem lagðist á fé hans. Loks sá hann til lágfótu þar sem hann stóð í prédikunarstól og kvað þá svo magnaða tófustefnu að dýrbíturinn sökk í jörð en Hallgrímur missti skáldagáfuna og fékk hana ekki aftur fyrr en hann hóf að yrkja Passíusálmana. Sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson lét af prestskap árið 1669 vegna holdsveiki, flutti til Eyjólfs sonar síns og lést þar.

Jón Daðason (1606-1676) var um tíma prestur Ögri, en þeim Ara Magnússyni samdi ekki og hann flutti sig eftir skamma dvöl að Arnarbæli í Ölfusi þar sem bjó til æviloka.

 

 

Jón hefur oft verið talinn ákaflega hjátrúarfullur en þótti jafnframt lögvís maður. Hann tók m.a. saman mikið rit sem hann kallar Gandreið og er eins konar samantekt um heimsmynd þessa tíma.

Jón Eggertsson (1643-1689) var af Svalbarðsætt, lærði heima og framaðist síðan erlendis. Hann fékk fógetaveitingu fyrir Möðruvallaklaustri en sonur Hólabiskups fékk sömu jörð og konungsumboð úr hendi hirðstjóra litlu síðar. Eftir þetta átti Jón í stöðugum erjum við valdamenn landsins, biskupa, lögmenn og sýslumenn í mörg ár. Hann var ákærður fyrir að hafa skrifað galdrakver og var talið að kona hans, Sigríður stórráða aðstoðaði mann sinn með gjörningum þegar hún gat. Á endanum hélt Jón til Kaupmannahafnar og sat þar í fangelsi í nokkur ár.

 

 

Þegar hann var loks laus úr málaflækjunum hélt hann til Svíþjóðar en hann hafði áður safnað handritum fyrir Svía í trássi við fyrirmæli Danakonungs. Eftir Jón liggja ýmis handrit í söfnum í Svíþjóð og þar á meðal mörg sem hann skrifaði sjálfur.

Jón Guðmundsson fæddist í Ófeigsfirði árið 1574, og ólst upp þar og á Ósi við Steingrímsfjörð. Hann var ýmist nefndur Jón málari eða smiður eða tannsmiður (mun þá átt við að hann hafi skorið út í hvaltennur) en hlaut síðar viðurnefnið hinn lærði. Hann var fræðimaður, handritaskrifari, fær handverksmaður, lækningamaður og sennilega almennt álitinn fjölkunnugur.

Í verkum Jóns sameinaðist hinn forni menningararfur, hjátrú alþýðunnar og fræðimennska. Á 17. öld þegar margir lærðir menn þjóðarinnar skýrðu hörmungar aldarinnar samkvæmt kennisetningu lúterskunnar sem réttmæta refsingu guðs við synduga þjóð, stóð Jón uppi sem víðsýnn og gáfaður alþýðumaður og leyfði sér að rita í jákvæðum anda gegn þröngsýni og taldi heimskulegt að láta katólskuna lönd og leið, af henni mætti margt læra.

Á árunum 1611-12 á Jón lærði að hafa kveðið niður tvo drauga að Stað á Snæfjallaströnd með mögnuðum galdrasæringum, kvæðunum Fjandafælu og Snjáfjallavísum. Af þessum afrekum ávann Jón sér nokkrar vinsældir og virðingu meðal alþýðu.

Jón lærði hafði töluverð samskipti við baskneska hvalfangara á Ströndum og aðstoðaði þá þegar þeir brutu skip sín í Reykjarfirði. 

Hann var eini maðurinn sem opinberlega andmælti Spánverjavígunum 1615 og hrökklaðist af Vestfjörðum undan ofsóknum sýslumannsins Ara í Ögri vegna skrifa sinna um málið. 

Eftir það settist hann að undir Jökli og stundaði m.a. lækningar, en eftir að sr. Guðmundur Einarsson á Staðastað skrifaði Hugrás gegn Jóni fluttist hann á Akranes. Guðmundur sonur hans kærði Ólaf Pétursson umboðsmann á Bessastöðum fyrir galdra og í framhaldi af því kærði Ólafur Jón fyrir lækningakver nokkurt og var Jón dæmdur útlægur af landinu fyrir kukl. Jón komst til Kaupmannahafnar og fékk málið tekið upp að nýju en á Alþingi 1637 var dómurinn staðfestur.

Jón lifði það sem eftir var ævinnar austur á Héraði, mest fyrir tilstilli Brynjólfs biskups Sveinssonar og þar skrifaði hann stóran hluta þeirra verka sem varðveitt eru eftir hann og eru flest skrifuð að beiðni biskups. Sennilega slapp Jón við brennu bæði vegna þess að brennuöldin var varla gengin í garð og fyrir orð biskups.

Séra Jón Magnússon (1610-1696), kallaður þumlungur, tók við Eyri í Skutulsfirði 1644. Um miðja 17. öld fékk hann feðgana Jón og Jón Jónssyni frá Kirkjubóli í Skutulsfirði brennda fyrir að hafa ofsótt sig með göldrum. Virtust ofsóknirnar aðallega fólgnar í ofsjónum og alls kyns líkamlegum og andlegum kvölum. Veikindin hans bötnuðu þó ekki við dauða feðganna og sneri síra Jón sér þá að Þuríði, dóttur Jóns eldra. Henni tókst að hreinsa sig af áburði og svaraði fyrir sig með því að ákæra síra Jón fyrir ofsóknir.

 

 

 

Síra Jón skrifaði þá Píslarsögu síra Jóns Magnússonar sér til varnar. Þar fjallar hann um allt sem hann mátti þola og er píslarsagan einstætt verk í íslenskum bókmenntum, skrifuð af mikilli snilld í einhvers konar trúarlegri hugljómun sem einkennist af galdra- og vítishræðslu 17. aldar. Hins vegar verður hún að teljast varhugaverð sagnfræðiheimild.

 

 

Jón þumlungur sagði af sér prestskap 1689, afhenti staðinn ári seinna og lá síðustu æviár sín í kör. 

Sjá Kirkjubólsmál.

Í lok 16. aldar fæddist að Svarthamri í Álftafirði maður sem átti eftir að ferðast víðar en nokkur annar þálifandi Íslendingur. Jón Ólafsson (1593-1679) var af venjulegum bændaættum en 22 ára gamall yfirgaf Jón sveitina sína og lagði af stað í ferðalag sem stóð í 11 ár. Hann kom heim reynslunni ríkari og löngu síðar, þegar hann var orðinn 68 ára gamall, skrifaði hann ferðabók, Reisubók Jóns Indíafara. Þar segir hann frá ótrúlegum ævintýrum sínum og ferðalögum.

 

 

 

Samkvæmt Reisubókinni hélt Jón frá Álftafirði til Englands og hafði viðkomu í heimsborginni London og í Noregi á leið sinni til Kaupmannahafnar þar sem hann gerðist byssuskytta Kristjáns konungs IV. Í þjónustu hans hátignar ferðaðist hann vítt og breitt um heiminn, til Svalbarða og Hvítahafs í Rússlandi og einnig fyrir Góðrarvonarhöfða til Indlands. Í þeirri ferð kynntist Jón Norður-Afríku sem hann kallaði Barbaríið, Kanaríeyjum sem hann hélt að væru Azoreyjar, Suður-Afríku, Madagaskar og eyjaklösunum við austurströnd Afríku sem Jón nefndi Ellefu þúsund eyjar, Sri Lanka og loks suðausturhluta Indlands þar sem Danir höfðu virki. Á heimleiðinni bættist Írland við áfangastaði Jóns.

 

 

 

Sem miskabætur fyrir örkuml sem hann hlaut í þjónustu Danakonungs fékk hann í ellinni að búa gjaldlaust á konungsjörðinni Eyrardal í Álftafirði sem var u.þ.b. þar sem kauptúnið Súðavík stendur í dag. Jón var tvíkvæntur og frá honum og seinni konu hans, Þorbjörgu Einarsdóttur, er komin fjölmenn ætt.

Jón Vídalín (1666-1720) var sonarsonur Arngríms lærða. Hann nam hjá nokkrum prestum, m.a. séra Páli Björnssyni í Selárdal. Þegar hann var 21 árs sigldi hann til Kaupmannahafnar og lærði þar guðfræði og heimspeki, en eyddi einnig tveim árum sem sjóliði í danska flotanum. Árið 1698 vígðist hann til biskups, en hafði áður m.a. verið kirkjuprestur í Skálholti. Á biskupsstóli þótti hann siðavandur í kirkjustjórn og duglegur framkvæmda- og umbótamaður. Hann var ásamt Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi einn helsti fulltrúi hinnar lúthersku rétttrúnaðarstefnu sem var ríkjandi stefna hér á landi fram á 18. öld.

 

 

Jón samdi Vídalínspostillu sem er safn prédikana eða húslestra fyrir alla helgidaga ársins. Í Postillunni ávítar Jón menn fyrir syndir og leitast við að efla daglega guðrækni manna og útmálar í því skyni reiði Guðs og ógnir vítis af mikilli innlifun og snilld.

Magnús Björnsson (1595-1662), sýslumaður í Eyjafirði, var sonur Björns ríka Benediktssonar og konu hans Elínu Pálsdóttur. Hann varð stúdent frá Hólaskóla 1613 en dvaldi síðan í Hamborg og Kaupmannahöfn um 1614. Hann varð lögmaður 1639 að kröfu hirðstjóra og hélt þeim starfa í 23 ár eða þar til hann sagði af sér vegna veikinda. 

 

Magnús var einn auðugasti maður á sinni tíð enda var hann fjárgæslumaður mikill, en þó höfðingi og rausnarmaður. Hann var og fræðimaður, ættvís og skáldmæltur.

 

 

 

Magnús var mjög harður í afstöðu sinni til galdra og galdramanna og stóð að fyrstu galdrabrennunni árið 1625 þegar Jón Rögnvaldsson úr Svarfaðardal var brenndur fyrir að vekja upp sendingu gegn óvini sínum, auk þess sem hann fjallaði um önnur mál í lögmannstíð sinni.

Magnús Jónsson (1642-1694) var kominn í beinan karllegg frá Magnúsi prúða. Hann stundaði m.a. nám í Hollandi en kom heim 1662 og varð sama ár sýslumaður í Strandasýslu. Hann varð lögmaður 1679 og síðar sýslumaður í Dala-, Snæfells- og Hnappadalssýslum. Hann bjó lengst af á Reykhólum og þótti héraðsríkur höfðingi en lagamaður góður.

 

 

Hann dæmdi m.a. mál þeirra Sigmundar Valgarðssonar og Eyjólfs Jónssonar úr Trékyllisvík 1670.

Magnús Jónsson (1600-1675) var sonarsonur Magnúsar prúða og og bjó á Miðhlíð og Haga á Barðaströnd og var sýslumaður þar mikinn hluta galdraaldar á móti frænda sínum Eggert Björnssyni hálfbróður sr. Páls í Selárdal.

 

 

Árið 1657 lét Magnús lesa upp bréf á héraðsþingi og segir mann nokkurn sem hann nafngreinir hafa oft hvíslað því í eyra sér að hann sé fullur með galdra og vegna þess að hann sé orðinn meiri kunnáttumaður en þeir sem kenndu honum sé hann hættur að refsa strákum og illræðismönnum. Í framhaldi af því sór Magnús fyrir allan galdur á þinginu og kærði jafnframt Runólf Þorvaldsson fyrir eikar- og surtarbrandsspjöld með rauðu galdrapári.

 

 

Til er bréf frá sr. Páli í Selárdal þar sem hann biður Magnús frænda sinn lengstra orða að segja ekki af sér embætti en biður hann jafnframt að hverfa frá hugmynd um að galdramenn fái að greiða sektir í stað húðláts. Páll telur að sú hugmynd gleðji engan nema Satan.

Magnús Magnússon (1630-1704) var sonur Magnúsar Jónssonar sýslumanns í Miðhlíð og konu hans Þórunnar Þorleifsdóttur. Hann lærði ekki í Latínuskóla en fór utan 1648 og komst í þjónustu Hans Nansen yfirborgmeistara í Kaupmannahöfn. Magnús fékk hálfa Ísafjarðarsýslu 1653 og hélt henni með hléum til 1688. Hann bjó á Eyri í Seyðisfirði frá 1653 til æviloka.

 

 

 

Magnús var mikill fræðimaður, samdi m.a. Eyrarannál, jarðabók, tíndi saman dóma og sumsstaðar er honum eignuð lækningabók, grasabók og plánetubók.

 

 

Magnús dæmdi í fjölmörgum galdramálum, ma. var hann annar tveggja dómara í Kirkjubólsmálinu og hlaut nokkur ámæli þegar Þórarinn á Birnustöðum slapp úr haldi hans.

Síra Páll Björnsson (1621-1706) fæddist á Bæ á Rauðasandi, sonur Björns Magnússonar sýslumanns og Helgu Arngrímsdóttur lærða. Hann var sendur í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan árið 1641 og fór sama ár til Kaupmannahafnar til náms við háskólann þar. Hann var síðan vígður til Selárdals þann 25. mars árið 1645 af Brynjólfi biskupi í Skálholti. Selárdalskirkja var þá meðal tekjuhæstu brauða landsins.

 

 

Sem prestur þótti Páll afburða ræðumaður og var hann talinn ganga næst Brynjólfi biskupi að lærdómi hér á landi. Eftir hann liggja ýmis skrif, m.a. fjölmargar prédikanir, en lengi var álitið að Jón Vídalín einn væri honum fremri í þeirri bókmenntagrein.

 

 

 

Séra Páll sinnti nokkuð náttúrufræði auk þess sem hann var mikilvirkur útgerðarmaður og lagtækur skipasmiður. Hann lét m.a. smíða fiskiskútu, svipaða duggum þeim sem Hollendingar sóttu sjóinn á við Íslandsstrendur og sigldi henni sjálfur á dýpri mið en menn höfðu áður sótt. Hann mældi hnattstöðu Bjargtanga og eftir hann liggja mörg ritverk, einkum ræður og þýðingar.

 

 

 

Töluvert hefur verið ritað um guðfræðirit sr. Páls, en einna kunnastur er hann þó fyrir hlut sinn í galdraofsóknum 17. aldar. Veturinn 1669 veiktist Helga kona hans af óþekktum sjúkdómi og kenndu þau hjónin fjölkynngi nágranna sinna um. Í fyrstu voru tveir brenndir fyrir og fékk Helga nokkurn bata eftir bálfarirnar og átti það að sanna að veikindin stöfuðu af göldrum. Fljótlega tóku veikindin sig upp aftur, bæði hjá húsmóðurinni og börnum hennar og áður en yfir lauk höfðu fimm menn og ein kona verið brennd fyrir ákærur þeirra. Munaði þar ekki minnst um dyggan stuðning Eggerts sýslumanns bróður sr. Páls.

 

 

 

Einn til viðbótar var brenndur litlu síðar vegna veikinda dóttur þeirra hjóna. Sr. Páll hefur skrifað gegn galdri og sótti þá mikið til hinnar illræmdu bókar Nornahamarsins. 

Sjá nánar Selárdalsmál.

Páll Vídalín (1667-1727) var samstarfsmaður Árna Magnússonar við Jarðabókina og og annað sem Jarðabókarnefndin hafði á sinni könnu. Átti m.a. þátt í greinargerðinni um galdramál Ara Pálssonar.

 

 

Páll var rektor Skálholtsskóla og síðan lengst af sýslumaður í Dalasýslu, en einnig um tíma í Strandasýslu. Hann varð lögmaður 1705 en lenti í miklum málaferlum í framhaldi af skýrslum þeirra Árna, m.a. við Odd Sigurðsson lögmann. Fyrir bragðið var honum vikið úr lögmannsembætti um tíma. Hann var vitur maður, fróður um lög- og fornfræði og skáld gott bæði á íslensku og latínu.

Rögnvaldur Sigmundsson var sýslumaður í Strandasýslu 1687-1700 en bjó stórbúi í Innra-Fagradal á Skarðströnd. hann ákærði mág sinn, séra Árna Loptsson fyrir að hafa valdið veikindum sínum og konu sinnar með gjörningum. Árni, sem var hálfgerður vandræðaklerkur og hafði áður komið nálægt galdramálum, kom fram tylftareiði á prestastefnu og sættust þeir mágarnir án eftirmála.

 

 

Rögnvaldur sýslumaður stjórnaði dómi í máli Klemusar Bjarnasonar úr Steingrímsfirði sem var síðastur dæmdur til dauða fyrir galdur þótt kóngur breytti dómnum síðan í útlegð.

Vilhjálmur Arnfinnsson (d. 1675) bjó á Þóroddsstöðum í Hrútafirði og var um tíma umboðsmaður Þorleifs Kortssonar og síðan sýslumaður Strandamanna. Fáar sögur fara af Vilhjálmi en hann var álitinn fjölkunnugur og almennt nefndur Galdra-Vilki.

 

 

Bogi Benediktsson segir í Sýslumannsæfum að flestir afkomendur hans hafi orðið ólánsmenn eða aumingjar og víst er að Guðmundur sonur hans sýnist hafa verið ofstopamaður og prestur hans vildi meina að með göldrum hefði hann valdið fótbroti sínu.

Þorlákur Skúlason biskup

Þorlákur Skúlason (1597-1656) varð Hólabiskup eftir Guðbrand Þorláksson. Hann hélt áfram útgáfustarfsemi á Hólum, lét m.a. prenta Biblíu, en einnig var hafði hann áhuga á fræðum og studdi Björn á Skarðsá við söguritun.

Í bréfabók hans er fjallað um tvö galdramál sem upp komu á Norðurlandi. Í öðru tilvikinu varð prestur nokkur í Skagafirði að segja af sér embætti fyrir að hafa sagt Krist „rentumeistara djöfulsins“. Hitt tilvikið fjallar um galdrarykti og illt framferði Svarfdælinga sem biskup taldi þvætting einan.

Fáum mönnum hefur verið úthúðað jafn rækilega í sagnfræðiumfjöllun um brennuöldina og Þorleifi Kortssyni. Því hefur verið haldið fram að Þorleifur eigi sök á fleiri brennum en aðrir valdsmenn, hann hafi kynt undir móðursýki galdraofsóknanna og jafnvel að honum hafi ekki gengið annað til en að komast yfir eignir fórnarlambanna. Og þó er þessa neikvæðu mynd af manninum ekki að finna í ritum samtímamanna hans.

 

 

 

Þorleifur Kortsson mun fæddur um 1620. Í móðurætt var hann af valdsmannaættum en langafi Þorleifs í föðurætt er talinn hafa verið þýskur kaupmaður frá Hamborg, Kurt eða Kort Lýðsson eða Lydersen, og faðir hans hafði umboð klausturjarðar svo ekki hefur hann verið álitinn lágstéttarmaður. Þorleifur sigldi ungur og ólst upp hjá föðurfrændum sínum í Hamborg og lærði þar klæðskeraiðn.

 

 

 

(Rithönd Þorleifs Kortssonar)

 

 

Vafalítið hefur Þorleifur kynnst galdramálum í Hamborgardvöl sinni þótt staðurinn sé ekki einn af þeim þar sem fárið var hvað ákafast. Galdraofsóknum þar er talið lokið 1642 þegar Cillie Hempel var brennd, en frá 1581 höfðu 10 konur og 1 eða 4 karlar verið brennd í viðbót við þær 30-40 konur sem brenndar voru á milli 1444 og 1581.

 

 

 

Þorleifur kom heim 1647 og var lögsagnari (þ.e. umboðsmaður sýslumanns) þar til Ari í Ögri lét honum í té hálfa Strandasýslu og umboð helmings konungsjarða á þeim slóðum. Um sama leyti giftist Þorleifur bróðurdóttir Ara, en Svalbarðsætt réði þá öllum embættum á Vestfjörðum. Þorleifur settist að á Bæ í Hrútafirði og tók við allri sýslunni þegar Ari dó árið 1652. Um sama leyti kom upp hið undarlega Trékyllisvíkurfár sem endaði með því að Þorleifur kvað upp þrjá líflátsdóma eftir að hafa leitað álits alþingis á hvernig með málið ætti að fara. Þorleifur var einnig annar sýslumannanna sem kváðu upp brennudóm yfir Kirkjubólsfeðgum, en ekki kom Þorleifur að því máli fyrr en eftir ítrekaða beiðni séra Jóns þumlungs. Og við höfum eingöngu orð prests fyrir því að Þorleifur hafi nefnt pyntingar við yfirheyrslur í þessu máli. Þegar Magnús Björnsson sagði af sér lögmannsembætti 1662 hlaut Þorleifur kosningu og hélt embættinu til 1679.

 

 

Ekki er að sjá að Þorleifur hafi átt frumkvæði að neinum galdramálum, en það var í hans verkahring sem lögmanns sunnan og vestan að fjalla um þau annað hvort á alþingi eða þegar sýslumenn vísuðu þeim til hans. 

Það skal tekið fram að þar sem málin komu flest upp á Vestfjörðum þar sem allir valdsmenn voru náskyldir konu hans, hefur hann ekki verið í öfundsverðri afstöðu gagnvart mönnum eins og þeim bræðrum Eggerti ríka Björnssyni sýslumanni og sr. Páli í Selárdal sem sóttu mál gegn meintum galdramönnum af miklu offorsi.

 

 

 

Umfjöllun Þorleifs um nokkur þekktustu brennumálin er að finna í Dómabók hans sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni og samkvæmt þeim málsmeðferðum sem þar eru bókfestar virðast samtímamenn hans hafa haft réttari mynd af honum en þeir 19. og 20. aldar fræðimenn sem gera hann að blóraböggli fyrir galdrafár aldarinnar. Iðulega vísar Þorleifur málum heim í hérað aftur og krefst frekari rannsóknar ef honum finnast rök ákærenda eða yfirvalds léleg. Dómabókin hefur lítt verið notuð sem heimild um galdramál til þessa.