hlautbolli

Saga bollans

Sérkennilegur steinn fannst nálægt gamla bæjarstæðinu í Goðdal í Bjarnarfirði um 1960 þegar verið var að byggja þar sumarhús. Steinninn hvarf síðan um árabil og birtist aftur sumarið 2002. Steinninn var þá um sumarið afhentur Galdrasýningu á Ströndum til varðveislu.

Steinninn er úr sömu bergtegund og algengur er í berggöngum á svæðinu. Undarlegur svartur litur í skál ofan í steininn vakti athygli og vegna munnmæla um að forn hofrúst væri í Goðdal töldu menn hugsanlegt að um væri að ræða hlautbolla, eins og þeir eru nefndir í fornum heimildum.

Rannsóknir á bollanum

Við rannsókn meinafræðings kom í ljós að á botni og börmum skálarinnar er að finna ævafornt blóð og leiddi rannsóknin í ljós að um dýrablóð er að ræða. Við réttarmeinafræðirannsókn sem notuð er við greiningu blóðs á brotavettvangi var steinninn úðaður með efninu fluorescin og skoðaður með sérstökum ljósgjafa. í ljós kom að á börmum og botni skálarinnar er blóð. Á sýningunni á Hólmavík má lesa um heiðin blót og hvernig hlautbollinn hefur verið notaður.

Merkilegasta lýsingin á hlautbolla er að finna í Eyrbyggja sögu en þar segir m.a.: 

“Á stallanum skyldi standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er svæfð voru þau kvikindi er goðunum var fórnað.”