Grös af ýmsu tagi eru einn þáttur í þjóðtrú Íslendinga og eru talin koma að haldi við margvíslegar aðstæður, aðallega til lækninga. Fyrr á öldum var skammt á milli þess sem í dag er nefnt galdur, hjátrú og kreddur annars vegar og læknisfræði og náttúrufræði nútímans.
Mikið af galdri sem dæmt var fyrir voru frumstæðar lækningaaðferðir og menn trúðu á mátt ýmissa náttúrufyrirbæra, sérstaklega jurta og steina. Hér að neðan eru upplýsingar um fáeinar íslenskar lækninga- og galdrajurtir.
Þjófarót
Þjófarót er gras með hvítleitu blómi. Sagt er að hún vaxi upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin af náfroðunni úr honum. Aðrir segja að hún sé sprottin upp úr þjófadysinni.
Þegar þjófarótin er tekin verður að gæta þess að skaða hana hvergi nema miðrótina því hana verður að slíta. Þeim anga rótarinnar fylgir sú náttúra að hvaða kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hún er slitin dettur niður dautt. Þess vegna þarf sá sem tekur rótina að binda flóka eða skinni af skoffíni um eyrun. Aðrir binda spotta í rótina og hinn endann í hund. Þegar kallað er á hundinn hleypur hann af stað og slítur rótina en drepst þegar í stað þegar hann heyrir slithvellinn.
Þjófarót dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðarmús dregur fé úr sjó. Fyrst þarf þó að stela undir hana peningi bláfátækrar ekkju á milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. Rótin dregur eingöngu til sín samskonar pening og lagður var undir hana í fyrstu.
Sæhvönn
Sæhvönn var einnig nefnd spekingsjurt og meistarajurt og var notuð við töfra en ekki er lengur vitað á hvern hátt.
Selja
Í því húsi sem selja er í getur enginn fæðst og enginn dáið.
Ef selja er í skipi verður það manndrápsbolli.
Ekki má heldur tálga selju eða höggva því þá sker maður sig og mælt er að það hafi verið seljuhnyðja sem Grettir hreppti af áverkann sem dró hann til bana.
Reynir
Reynir hefur 18 náttúrur, níu góðar og níu vondar. Í því húsi sem hann er fæðist enginn og deyr enginn. Reynir má ekki vera bara öðrum megin í skipi því þá steypist það á hlið.
Reyni og eini verður að hafa báða í skipi til að halda jafnvægi milli tegundanna.
Ef reynir brennur á milli vina verða þeir óvinir.
Ef reynir og einir eru í sama húsi brennur það.
Í keltneskum löndum var mikil trú á reynivið og var hann gjarnan hafður framan við hús til að varna illum öndum og afturgöngum að komast inn í þau.
Mjaðurt
Mjaðurt var notuð til að vita hver hefði stolið frá manni. Hana átti að taka á Jónsmessunótt, láta hreint vatn í mundlaug og leggja jurtina á vatnið.
Fljóti hún er þjófurinn kvenmaður en drengur ef hún sekkur. Skugginn af jurtinni sýnir hver maðurinn er.
Þar við á að lesa þennan formála: „Þjófur ég stefni þér heim aftur með þann stuld er þú stalst frá mér með svo sterkri stefnu sem guð stefndi djöflinum úr paradís í helvíti.“
Maríuvöndur
Maríuvöndur vex í kirkjugörðum þar sem jörð er þurr og er einnig kallað hulinhjálmgras. Það á að taka um messutíma en áður á að stökkva vígðu vatni á það. Berar hendur mega ekki snerta það, þá má sól ekki skína á það. Síðan á að geyma það í hvítu silki og helguðu messuklæði. Ef maður vill gera sig ósýnilegan á að gera kross í kring um sig í fjórar áttir og bregða síðan yfir sig grasinu.
Lækjasóley
Lækjasóley kom upp um þjófa en gat einnig valdið því að friðsamlega var að manni vikið og hindrað að konur spilltu hjónabandi sínu. Lækjasóley átti að taka þegar þegar sól var í ljónsmerki, lauga hana í lambsblóði, leggja við úlfstönn og vefja lárviðarlaufi. Ef hún er borin á sér megnar enginn að tala við þann mann nema friðsöm orð.
Lásagras
Lásagras er líka þekkt sem fjögra laufa smári og lýkur upp hverri læsingu sem það er borið á. Best þótti að taka smárann þegar sól gengur í ljónsmerki og herða hann í vindi. Grasið átti síðan að geyma í dauðsmannshári undir hægri hendi eða um háls sér í silkitvinna.
Hjónagras
Hjónagras hefur tvær rætur, aðra þykka en hina granna. Þykkri rótin örvar til ásta en hin grennri til hreinlífis. Þetta gras er einnig kallað Brönugras, elskugras, Friggjargras, graðrót og vinagras. Friggjargras var talið vekja losta og ástir á milli karls og konu og stilla ósamlynd hjón ef þau sváfu á því. Í Færeyjum og Svíþjóð var þetta gras gefið daufum og fjörlausum törfum til að örva þá til kúnna. Brönugras ku líka vera gott til að snúa hug kvenna. Ef karlmaður laumar því undir höfðalag stúlku svo hún sofi á því óvitandi, fær hún ást á honum.
Grasið Grídus
Grasið Grídus er með ljósbláum legg og dökkbláu höfði. Það á að taka á Jónsmessunótt gömlu og vökva í helguðu messuvíni. Síðan á að láta það í dauðs manns leiði og láta það liggja þar þrjár nætur, þá skal láta það liggja hjá 63. Davíðssálmi aðrar þrjár nætur og geyma síðan í hveiti og hvítum dúk. Ef maður vill ráða draumum sínum á að leggja það undir hægri arm sinn.
Freyjugras
Freyjugras er haft til að koma upp um þjófa. Fyrst skal láta það liggja þrjár nætur í vatni, leggja síðan undir höfuð sér og sofa á og mun maður þá sjá þann er stolið hefur.
Fjandafæla
Fjandafæla fældi burt drauga og ýmislegt óhreint. Á meðan strúthettur voru fluttar hingað geymdu margir fjandafælu í strúti sínum en hattar þeir sem síðar bárust hentuðu ekki til að geyma fjandafælu. Hún var máttugust ef enginn nema eigandinn vissi af henni.
Draumagras
Draumagras er einnig kallað mánaðargras, kveisugras og tröllafingur. Grasið er grátt að lit, með liðum neðan um legginn og hnapp á endanum. Það vex fyrst allra grasa og er fullvaxið þann 16. maí. Þann dag á að taka það og geyma í guðspjalli þann 16. sunnudag eftir trinitatis. Síðan á að saxa það smátt saman við messuvín og og taka inn á fastandi maga hvern morgun, ver það þá gegn holdsveiki og allri innvortis kveisu. Sé það látið í hársrætur sér rétt fyrir svefninn mun maður fá svör við spurningum sínum.
Burnirót
Burnirót er góð til margs. Skal halda um hana með hreinum klút meðan hún er grafin upp og skera grasið frá því að það er illrar náttúru. Eigi má rótin koma undir bert loft. Geyma skal hana í vígðri mold. Maður á að bera hana á sér um daga en láta hana liggja við rúmstokkinn um nætur og mun manni þá ekkert ama.
Brenninetla
Brenninetla sprettur þar sem saklausir menn hafa verið drepnir. Ef galdramenn eru hýddir með henni nýtekinni af jörðinni missa þeir allan galdramátt.