Pistill eftir Jón Jónsson, þjóðfræðing, sem er byggður á grein eftir Jón Samsonarson:

Mál Klemusar hefst á Bassastöðum við Steingrímsfjörð í ágúst 1688 með því að Kolbeinn Jónsson, annar ábúenda á Hrófbergi, leggur fram kæru á hendur honum fyrir að „hafa með fjölkynngi og fordæðuskap ollið þeirri stórkostlegri veiki og kvalræðis krankleika“ sem hafði dregið konu hans, Guðrúnu Árnadóttur, til dauða.

 

 

Sýslumaðurinn Rögnvaldur Sigmundsson, sem búsettur var í Innri-Fagradal á Skarðströnd, tók málið fyrir á þriggja hreppa þingi að Hrófbergi þann 3. september sama ár og nefnir þá tólf menn í dóm. Tekin er fyrir kæra Kolbeins og nú hefur bæst við önnur frá hinum ábúendanum á Hrófbergi, Jóni Bjarnasyni, um að Klemus sé valdur að veikindum hinnar húsfreyjunnar, Ólafar Bjarnadóttur, sem meðal annars ollu því að hún lagðist í bæjaflakk.

 

 

Fyrst voru þingsóknarmenn spurðir álits á Klemusi og kom þá fram að hann hafi verið orðaður við galdra áður og haft á sér illt orð allt frá barnæsku. Tveir menn voru látnir sverja að þeir hefðu heyrt Klemus bendlaðan við galdra. Þá var Kolbeinn bóndi látinn færa rök fyrir ákærunni og kom í ljós að kuldi á milli þeirra Klemusar hafi byrjað út af tré sem rak á Hrófbergsfjöru og Kolbein taldi að Klemus hefði stolið. Kolbeinn sagðist hafa borið stuldinn upp á Klemus og þar með hafi óvild Klemusar í sinn garð hafist. Jafnframt lagði hann fram vitnisburð tveggja manna sem sýndi að veikindin væru af völdum Klemusar. Þeir Snorri Sveinsson og Oddur Jónsson, báðir Bjarnfirðingar, fullyrtu að Klemus hafi sagt þá er veikindi húsfreyjunnar á Hrófbergi komu til tals:

 

Ef það mál á mig gengur, og ég undir refsing kem, og komist ég lífs af, skal ég þess manns líf hafa, er frekast fyrir því gengur.

Tekið er fram í málsskjölunum að á meðan dómurinn sat hafi ein heimilisstúlka Kolbeins á Hrófbergi fengið:

 

vondan óvenjulegan snert með mási, ofboði og hljóðum, einnig með öngviti, hvað eð sýslumaðurinn með tveimur dómsmönnum sáu og upp á horfðu.

Daginn eftir 4. september var dómþinginu haldið áfram. Jón Bjarnason bar fram sinn vitnisburð um veikindi konu sinnar Ólafar Jónsdóttur. Síðan var Klemusi dæmdur eiður og honum gefinn tíu vikna frestur til að koma honum fram, en ákærendurnir fóru fram á að sýslumaður geymi Klemus því þeir hræðist heitingar hans. Aftur var þingað í málinu um vorið 1690 og málinu vísað til alþingis með tilvísan til ályktunar kóngs um að þau mál sem sem varða líf og æru skuli til æðra dómstóls. Niðurstaðan á Öxarárþingi varð sú að Klemus 

„skuli á lífinu straffast og í eldi brennast.“

Sýslumanni var falið að geyma fangann áfram og leita álits amtmannsins varðandi aftökuna. Rögnvaldi sýslumanni var skipað að geyma Klemus í ár meðan amtmaður leitaði álits í Kaupmannahöfn. Þaðan barst svo kóngsbréf árið eftir og var dóminum breytt í ævilanga útlegð. Klemus lést svo úr sótt í Kaupmannahöfn veturinn eftir.