Skiprekinn

Einu sinni sást skip skammt undan landi á Vestfjörðum; var það harla stórt og hagaði seglum undarlega. Komust menn að raun um að þetta var ræningjaskip; varð fólk á næsta bæ hrætt mjög og ráðgjörði að flýja. Gamall maður var þar á bænum og sagði hann að gömlum fauskinum væri ekki vant, hann skyldi verða úti og vaka til að taka við gestum, en allt fólk annað fara inn og hátta, en líf þess lægi við sem út kæmi. Fólkið gegndi þessu því það vissi að karl var fjölkunnugur enda var komið kvöld og farið að skyggja; þetta var að áliðnu sumri. Strax þegar fólkið var háttað skall á ofsaveður svo það brakaði í hverju tré og var eins og allt ætlaði ofan að ganga. Um morguninn valt sjórinn kolmórauður, en ofveðrinu var létt af. Þegar að var hugað sást að karl mundi hafa sezt upp á hjall er var skammt frá flæðarmáli; hafði hann fokið ofan og lamazt til bana, en skipið hafði molazt í spón og allir skipverjar farist; en Vestfirðingar bjuggu lengi að rekanum.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar,
I. bindi, bls. 598-599
(eftir handriti Skúla Gíslasonar prests)

Mailing list