Sr. Hallgrímur Pétursson

Image
Sr. Hallgrímur Pétursson
Hallgrímur Pétursson (1614-1674) ólst upp á Hólum með föður sínum sem var hringjari þar. Hann var sendur utan í iðnnám en sagan segir að Brynjólfur biskup hafi komið honum í prestaskóla. Þegar hann var í þann veginn að ljúka námi var hann fenginn til að kenna nokkrum Íslendingum sem höfðu verið leystir úr ánauð frá Alsír. Þar hitti hann Guðríði Símonardóttur, betur þekkta sem Tyrkja-Gudda, og tókust með þeim ástir.

Þau giftust og bjuggu við basl og fátækt í nokkur ár á Suðurnesjum. Árið 1651 fékk Hallgrímur Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og vænkaðist þá hagur þeirra hjóna nokkuð. Hann komst snemma í hóp helstu skálda og orti sálma, rímur og beittar heimsádeilur. Þekktasta verk hans eru Passíusálmarnir, þeir voru fyrst prentaðir á Hólum 1666 og hafa síðan verið prentaðir oftar en nokkurt annað rit á Íslandi. Passíusálmarnir hafa fylgt þjóðinni æ síðan og verið henni nákomnari en nokkur annar kveðskapur.

Fróðleg er sú þjóðsaga að einhvern tíma hafi Hallgrímur átt í vandræðum með dýrbít sem lagðist á fé hans. Loks sá hann til lágfótu þar sem hann stóð í prédikunarstól og kvað þá svo magnaða tófustefnu að dýrbíturinn sökk í jörð en Hallgrímur missti skáldagáfuna og fékk hana ekki aftur fyrr en hann hóf að yrkja Passíusálmana.

Sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson lét af prestskap árið 1669 vegna holdsveiki, flutti til Eyjólfs sonar síns og lést þar.

Mailing list