Skálholtsmál

Í þjóðsögum er greinileg sú trú að stutt sé frá skólalærdómi til fjölkynngi og kannski hafa lærðir menn, sumir a.m.k., ýtt undir þessa hugmynd. Það er líka mögulegt að þau galdramál sem upp komu í skólum á 17. öld eigi sinn þátt í þessari mynd.

Á 17. öld er vitað um fjögur galdramál sem upp komu í Skálholti. Eitt þeirra var ákæra skólapilts á kirkjuprestinn á staðnum en hin snúast um kukl skólapilta. Ekkert þessara mála kom fyrir veraldlegan dómstól og allar líkur eru á að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi lagt sig allan fram um að halda þessum málum innan kirkjunnar. Biskup gerði sitthvað til að sporna við hysteríunni, sbr. þá staðreynd að enginn prestur sem lenti í galdramálum þurfti að þola sambærilega refsingu við þá sem veraldlegir dómstólar lögðu á.

Fyrsta málið kom upp 1650 eða 1651. Þá var 13 eða 14 skólapiltum vísað úr skóla eftir að þeir höfðu verið flengdir fyrir meðferð galdrastafa og rúnablaða. Flesta þessara pilta tók Brynjólfur aftur inn í skólann síðar, en annars er tiltölulega lítið vitað um þetta mál, sérstaklega vegna þess að í Bréfabók Brynjólfs biskups vantar síður frá þessum árum. Hins vegar er til vitnisburður biskups frá 1657 um Árna Ketilsson af Austfjörðum sem bendir til þess að Árni hafi verið í þessum flokki. Vitnisburðurinn er jákvæður þrátt fyrir „óleyfilega kunnáttu“ sem Árni hafði stundað og svo virðist sem biskup hafi haft pilt í þjónustu sinni í 4 ár eftir að hafa rekið hann úr skóla. Aðrar heimildir segja að flestir piltanna hafi verið teknir í skólann árið eftir.

Árið 1664 bar skólameistarinn í Skálholti fyrir Brynjólf rifið kver með ljótum og óvenjulegum characteribus sem á voru 80 galdrastykki. Kverið hafði einn skólapilta fundið í rúmi sem hann deildi með Einari Guðmundssyni frá Straumfirði á Mýrum. Einar var kallaður fyrir biskup og viðurkenndi að hafa skrifað hluta kversins en sagði hinn hlutann skrifaðan af frænda biskups, Bjarna Bjarnasyni frá Hesti í Önundarfirði. Þegar Bjarni var kallaður fyrir viðurkenndi hann að hafa skrifað blöðin í Kálfeyrarverstöð við norðanverðan Önundarfirði eftir Erlingi Ketilssyni frá Þórustöðum. Erlingur væri hins vegar sigldur til Englands. Bjarni neitaði að hafa reynt að nota blöðin við kukl eða sýnt öðrum en Einari þau og sagðist hafa beðið hann að brenna þau. Brynjólfur biskup vísaði piltunum úr skóla og skrifaði jafnframt lögmanni um málið. Kverið sendi hann lögmanni hins vegar ekki fyrr en þeir voru löngu komnir vestur og sigldir til Englands. Einar dó þar en Bjarni kom aftur 1667, bjó fyrst í Önundarfirði en flutti síðan að Skarðsströnd og varð lögréttumaður og lögsagnari. Efnisyfirlit galdrakversins er að finna í Bréfabókum Brynjólfs biskups.

Þess má geta að faðir Bjarna þessa, Bjarni Jónsson Magnússonar prúða sem bjó á Hafurshesti er þekktur úr þjóðsögum fyrir galdur auk þess sem hann og kona hans ákærðu Bjarna nokkurn Bjarnason fyrir að hafa valdið veikindum frúarinnar. Sá Bjarni var brenndur á alþingi 1677.

Árið 1669 var Jón Sigurðsson yngri, lögmannssonur, við nám í Skálholti. Þá var þar líka fögur hefðarmey, Ragnheiður Torfadóttir, fósturdóttir Brynjólfs biskups. Jón varð yfir sig ástfanginn og sömu sögu var að segja um Loft Jósepsson kirkjuprest. Út af þessum skotum spratt þræta og allt í einu veiktist Jón af "niðurfallsflogum“. Hann varð frá skóla einhvern tíma en alltaf þegar hann kom í Skálholt og sá Ragnheiði fékk hann flog á ný. Jón þóttist vita ástæðuna og kærði Loft prest fyrir galdur með fulltingi föður síns. Úr varð langt málastapp þar sem fullyrt var að Loftur eða bróðir hans hefðu sett galdrastaf í rúm Jóns. Lögmaður gekk hart eftir málinu en biskup sá að sjálfsögðu til þess að málið færi ekki fyrir veraldlegan dómstól. Lofti var dæmdur eiður sem hann féll á en ekki er ljóst hvað síðan gerðist nema hvað Loftur fór af landi brott. Löngu seinna kom hann aftur og varð kirkjuprestur í Skálholti á ný. Jón eignaðist hins vegar Ragnheiði, þó ekki fyrr en biskup var látinn, varð sýslumaður í Borgarfirði og dæmdi þar Þorbjörn Sveinsson sem brenndur var 1677.

Galdramál kom aftur upp í Skálholtsskóla í biskupstíð Þórðar Þorlákssonar og þurftu piltarnir fjórir sem þá áttu sökina að taka opinbera aflausn í dómkirkjunni. Tveir piltanna fengu aftur pláss í skólanum, en annar hinna var Björn Þorleifsson systursonur Þorleifs lögmanns Kortssonar. Björn varð síðar lögsagnari í Húnavatnssýslu. Ekki er vitað um nein galdramál sem komu upp í Hólaskóla á 17.öld en þau voru hins vegar viðloðandi skólann eftir að Galdra-Loftur dvaldi þar um 1720 og fleiri fjölkunnugar persónur í þjóðsögum voru þar við nám á eftir honum.

Mailing list