Selárdalsmálin

Um áramótin 1668-69 veiktist „sú guðhrædda“ maddama í Selárdal í Arnarfirði, Helga Halldórsdóttir, af undarlegum sjúkdómi. Varð hún fyrir „ærið mikilli árás og ofsókn af illum anda“ og lá veik fram á sumar.

Image
Síra Páll Björnsson
Eiginmaður Helgu, síra Páll Björnsson prófastur, var þá talinn einn lærðasti klerkur á landinu. Hann samdi árið 1674 rit um galdur sem heitir Character bestiæ og hefur verið gefið út undir nafninu Kennimark kölska. Í því má fræðast um djöflatrú þá sem kirkjunnar menn börðust gegn og endurspeglast höfuðrit galdrafársins í Evrópu, Nornahamarinn, í riti Páls. Þessi galdur á hins vegar sáralítið skylt við íslenska kuklið eins og það birtist í galdramálum, skræðum og þjóðtrú. Hálfbróðir síra Páls var Eggert ríki á Skarði, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en hann var atkvæðamikið yfirvald þegar galdramál voru annars vegar. Þeir bræður höfðu báðir dvalið í Danmörku og Norður-Þýskalandi og þekktu galdrafárið í Evrópu.

Eftir að maddama Helga lagðist í rúmið gekk yfir Selárdal skæður draugagangur, svo þau hjónin og allt þeirra fólk flúði staðinn um tíma. Helga þóttist nú sjá hver orsökin fyrir ókyrrleikanum væri. Jón nokkur Leifsson hafði sóst eftir að kvænast einni af þjónustustúlkum hennar, en Helga hafði lagst eindregið gegn því. Sá drengur var nú tekinn og yfirheyrður og virðist hafa viðurkennt eitthvað kukl, a.m.k. að hafa reynt að kynnast því. Eggert sýslumaður gekk sköruglega fram í málinu og Jón var brenndur vestra að gengnum dómi árið 1669.

Fyrir dauða sinn hélt Jón því fram að Erlendur nokkur Eyjólfsson, sem ein heimild segir að hafi verið af Ströndum, hefði kennt sér galdur. Af þessu tilefni mun sr. Páll hafa sent bréf til lögmannanna, Þorleifs Kortssonar og Sigurðar Jónssonar, þar sem hann lýsir Jón valdan að „öllum þeim kvalafeiknum“ sem yfir heimili hans hafi gengið, og lýsir því yfir að „hans skólameistari“ hafi kennt honum hvernig átti að bera sig að. Erlendur sé „sekkur djöfulsins, úr hverjum lekur það, hver vondur girnist, meistari þeirra, sem lært hafa og læra vilja, uppsprettubrunnur alls djöfuls í þeirri sveit.“ Varla var við öðru að búast en að slík orð úr þessari átt hefðu áhrif og Erlendur var brenndur sama ár eftir að hafa gengist við að hafa framið fjölkynngi og kennt öðrum.

Næsta mál sem tengist Selárdal var mál Jóns Úlfssonar sem ryktaður hafði verið um galdur en hann þverneitað öllu slíku og bauðst til að sverja að „hann viti sig ekki um alla sína lífdaga hafa tekið líf eður heilsu af nokkurri lifandi skepnu með göldrum eða gerningum, signingum eður særingum.“ Jón Úlfsson hafði verið heimilismaður séra Páls í Selárdal. Sr. Páll skrifaði bréf til Jóns og álítur greinilega að hann eigi sök á gjörningunum á heimili prófasts. Í bréfinu er hann að sýna Jóni fram á rétta guðrækilega leið. Eggert sýslumaður fer með málið á þing 1670 því Jón vill ekkert játa. Þótt ekkert sannaðist þótti samt öruggara að hýða Jón sem næst gekk lífi áður en hann var sendur heim aftur. Magnús Magnússon sýslumaður og annálaritari á Eyri í Seyðisfirði (tvö börn hans voru gift börnum sr. Páls) segir að um Jón sé það sagt „að hann sé ei betri en áður“.

Fimm árum seinna komu ný Selárdalsmál fyrir dóm og í það skipti var maddama Helga ekki ein um að verða veik heldur og synir þeirra hjóna. Nú voru tveir menn ákærðir, dæmir og brenndir, Magnús Bjarnason og Lassi Diðriksson. Lassi neitaði öllum sakargiftum harðlega, en var ályktaður sekur vegna þess að hann kom ekki fram eiði. Sagt er að illa hafi gengið að brenna hann, eldurinn hafi slokknað þrisvar vegna stórkostlegrar rigningar. Þá fótbrotnaði Eggert Björnsson sýslumaður á leið af þingi og þótti alþýðu það benda til þess að Lassi hefði verið brenndur saklaus.

Enn veiktist maddaman í Selárdal árið 1678, og um veturinn skrifar sr. Páll Þorleifi lögmanni og taldi efalaust að Þuríði Ólafsdóttur og Jóni Helgasyni syni hennar væri um að kenna og tilgreindi rök og líkindi fyrir þessari skoðun sinni. Ekki er vitað hver þessi líkindi voru. Í Dómabók Þorleifs Kortssonar kemur fram að hann hefur skrifað sýslumönnunum Birni Gíslasyni og Eggert bróður Páls og farið fram á að þeir rannsökuðu málið til hlítar. Á Alþingisbókinni er að skilja að Þorleifur hafi kveðið upp dóm í málinu og mæðginin verið tekin af lífi þá strax um vorið.

Tveir samtímaannálar nefna þetta mál. Annar þeirra er Mælifellsannáll sem skrifaður er af Ara Guðmundssyni prófasti í Skagafirði. Hann furðar sig á málinu því Þuríður hafi verið búsett þar í sveit til 1677 og aldrei verið orðuð við galdur. Hins vegar hafi Jón sonur hennar verið illa kynntur en þó ekki fyrir galdur. Síðan segir: „Skyldi sonur hennar hafa sagt, að hún hefði farið yfir vatnsföll öll norðan fyrir utan hesta eða ferjur, og brúkað galdur til, og svo hefði hún galdra með að fara. Var lygum hans trúað og síðan tekin bæði og brennd, hvað hann meinti, eigi mundi verða.“

Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði, frændi séra Páls segir um málið í Eyrarannál: „Sama vor brennd norðlensk mæðgin í Barðastrandarsýslu, Þuríður og hennar sonur Jón Þórðarson (Jón var víst Helgason), valdandi veikleika Helgu Halldórsdótur í Selárdal.“ Annað er ekki vitað um málsatvik en það er ljóst að þau mæðgin hafa fyrst og fremst verið brennd fyrir orð prófastsins í Selárdal og sennilega ekki unnið sér annað til óhelgis en að vera utanhéraðsfólk.

Síðasta málið tengt Selárdal var ákæra á Þorstein Helgason fyrir að skrifa og nota galdrakver sem fannst í Selárdal 1686. Þorsteinn strauk og var lýst eftir honum á Öxarárþingi árið eftir en annað er ekki vitað um málið.

1683 kom enn upp mál sem tengist Selárdalsfólki. Nú var Sveinn Árnason dæmdur til dauða á Nauteyrarþingi við Djúp, en málið reis vegna veikinda Helgu dóttur þeirra Selárdalshjóna sem þá var gift Sigurði prófasti Jónssyni í Holti í Önundarfirði. Í samtímaheimildum er Helga sögð hafa verið „eyðslusöm og mjög drykkfelld og taugaveikluð.“ Sú sögn hefur lifað við Djúp að meiningin hafi verið að fara með Svein á alþingi, en þegar komið var í fyrsta skóginn á leiðinni nenntu þeir ekki lengra og hlóðu köst í Arngerðareyrarskógi. Í framhaldi af þessari brennu lét danska yfirvaldið á Íslandi þau boð út ganga að allir líflátsdómar skyldu sendir til Kaupinhafnar til staðfestingar áður en aftaka færi fram.

Mailing list