Lassi Diðriksson - brenndur 1675

Maðurinn sem var talinn valdur að veikindum sona sr. Páls og Helgu í Selárdal hét Lassi Diðriksson, sjötugur að aldri. Hann var einnig sakaður um að hafa valdið veikindum Egils Helgasonar sem var einn af mönnum Eggerts sýslumanns á Skarði, bróður prófastsins.

Lassi neitaði harðlega að hafa fengist við galdra eða vera viðriðinn veikindin. Málið var lagt fyrir Þorleif Kortsson sem ályktaði að vegna skorts á sönnunum skyldi senda málið til alþingis.

Þar var hann dæmdur sekur og var brenndur mest fyrir orð Eggerts sýslumanns Björnssonar, en að „saklitlu að sumir héldu" eins og segir í einum annál.

Illa gekk að brenna Lassa því að mikil rigning var og slokknaði eldurinn þrisvar. Eggert sýslumaður fótbrotnaði á leið heim af þingi og þótti þá mörgum sem honum hefði hefnst fyrir framgöngu sína gegn saklausu gamalmenninu.
Sjá einnig: Selárdalsmál.

Mailing list