Strandagaldur hlaut Eyrarrósina

ImageStrandagaldur hlaut Eyrarrósina, ein helstu menningarverðlaun landsins, afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær. Verðlaunin eru veitt framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni og tóku þeir Sigurður Atlason framkvæmdastjóri og Magnús Rafnsson formaður stjórnar Strandagaldurs við verðlaununum úr hendi Dorritar Moussaieff forsetafrúr sem er verndari Eyrarrósarinnar. Verðlaunagripurinn er listaverk eftir Steinunni Þórarinsdóttir og einnig fylgir fjárstyrkur að upphæð 1.5 milljón, auk flugmiða frá Flugfélagi Íslands.

Stjórnarmenn Strandagaldurs mættu allir með tölu á Bessastaði til að vera viðstaddir verðlaunaafhendinguna, en þar var upplýst hvert af þremur verkefnum sem tilnefnd voru úr stórum hópi umsækjenda hefði fengið sjálf aðalverðlaunin. Hin verkefnin sem tilnefnd voru að þessu sinni voru Safnasafnið á Svalbarðseyri og Sumartónleikar í Skálholti.

Ávarp galdramannanna eftir viðtöku Eyrarrósarinnar vakti mikla kátínu. Ásamt að þakka fyrir tilnefninguna og verðlaunin þá kom það fram í máli þeirra að þetta væri í fyrsta skipti sem galdramönnum af Ströndum væri boðið á Bessastaði í 400 ár. Sá síðasti sem naut þess heiðurs var Jón lærði Guðmundsson, en hann gisti dýflissuna á Bessastöðum áður en hann var sendur í fangelsisvist í Kaupmannahöfn. Haft var á orði að það væru breyttir tímar og að núorðið væru galdramenn sem heimsæktu Bessastaði leystir út með gjöfum, bugti og beygingum.

Image
Fulltrúar Strandagaldurs taka við verðlaunagripnum eftir Steinunni Þórarinsdóttur úr höndum Dorrit Moussaieff forsetafrú
Ljósm: artfest.is

Image
Frá vinstri: Sigurður Atlason, Magnús Rafnsson, Valgeir Benediktsson, Frú Dorrit Moussaieff, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, Matthías Lýðsson, Magnús H. Magnússon, Ólafur Ingimundarson og Jón Jónsson.

Mailing list