Jóhann á Ytra-Holti

Jóhann bóndi Jónsson að Ytra-Holti í Svarfaðardal (†nálægt 1880) var talinn fjölkunnugur. Einhverju sinni vantaði mann sauð. Sá, sem átti hann, koma að tali við Jóhann inni í baðstofu og spurði, hvort hann gæti ekki sagt sér eða sýnt, hvar sauðurinn væri niðurkominn. „Komdu þá með fram," svaraði Jóhann. Þeir fóru nú fram, en Jóhann tók skál, gerði eitthvert merki á henni með fingrinum, hellti í hana vatni og sagði við manninn: „Líttu í skálina." Hann gerði það og þóttist sjá gæru og sauðarkrof hanga í eldhúsi, en ekki vissi hann, hvar það var. „Ertu nú nokkru nær?" spurði Jóhann, – en það var maðurinn ekki. Maður þessi var enn á lífi 1901.

Morgun einn sagðist Jóhann þurfa að bregða sér af bæ og gat þess við einhvern vinnumanna, að hann mundi ekki koma aftur. Því næst tók hann tvær skruddur og eitthvað fleira, fór með það fram í eldhús og brenndi það. Jóhann hélt síðan leiðar sinnar, en varð fyrir snjóflóði um daginn og beið bana af.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 267
(eftir handriti Jóns Borgfirðings á Akureyri)