Erfitt er að fullyrða um nokkuð um hvaða fræði liggja að baki galdrastöfum. Sumir virðast eiga rætur að rekja til dulspeki miðalda og fornfræði endurreisnarmanna, en aðrir bera með sér tengsl við Ásatrú og heiðna rúnmenningu. 

 

Marga galdra sem bar á góma við réttarhöld á sautjándu öld er að finna í galdrabókum sem eru geymdar á handritasöfnum. Tilgangurinn með galdrastöfum getur sagt nokkuð til um amstur, áhyggjur og erfiði alþýðufólks. Við höfum tekið saman nokkur dæmi af íslenskum galdrastöfum sem þú getur skoðað hér fyrir neðan. 

Smellið á flokk til að lesa um galdrastafina:

Verndargaldrar

Ægishjálmur

Ægishjálmur er varnarstafur gegn illum vættum, óvinum og yfirgangi og reiði höfðingja. Stafurinn skal ristur í blýplötu sem síðan er þrýst á ennið á milli aegishjalmuraugnanna og þrykktur í hörundið. Galdramaðurinn skal þylja formála þann sem galdrastafnum fylgir: "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna, rán og reiði ríkra manna". Við það öðlast hann það hugrekki sem til þarf, að ganga gegn hverju hann óttast.

Ægishjálmarnir níu

Þetta eru þeir níu Ægishjálmar sem enginn má án vera sem með nokkra kunnáttu fer og skal hver og brúkaður vera.

 

Ef óhreint sveimar um

Rist þennan staf yfir húsdyr. Gjör af stíl af einir eða silfri.

 

Stafir móti aðsókn

Þessa stafi skal rista á eik og bera á blóð úr hendi og hengja þá yfir dyr þínar og mun þá fátt inn fara.

 

 

Að stilla alla reiði

Gjör staf í enni þér með sleikifingur þínum á vinstri hendi og mæl: 

Ægishjálm ég ber milli augna mér. Reiðin renni, stríð stemmi. Verði mér svo hver maður feginn sem María varð fegin sínum signuðum syni þá hún fann hann á sigurhellunni. Í nafni föður og sonar og anda heilags. 

Og les:

Ölver, Óðinn, Illi,

allt þitt vilið villi.

Sjálfur Guð með snilli

sendi okkur ást í milli.

 

 

Veldismagn

Galdrastafinn skal rista á surtarbrand og bera blóð í skurðinn,
og láta liggja milli brjósta þinna og mun þig ekki illt saka og heill og ósjúkur aftur heim koma hvort sem þú ferðast á sjó eða landi.

 

 

Rosahringur minni

Rosahringur er ristur á mórautt hundtíkarskinn holdrosamegin. Í skurðinn er borið blóð úr svörtum fressketti sem skorinn hefur verið á háls með fullu tungli.
Stafurinn er góður varnarstafur gegn uppvakningum, sendingum og galdri. Við notkun hans er gott að hafa þetta yfir:

 

Komi mér hjálp af jörðu, sigur af sólu, sæla af tungli, stoð af stjörnum og styrkur af englum drottins.

 

Ef nota á stafinn til að reka út eldglæringadraug eða djöful þá á að hrækja, skvetta keytu og ota skinninu með þessum orðum:



Undan vindi vondan sendi, óskir ferskar raski þrjóskum, galdurs eldur gildur holdið, grenni kenni og innan brenni. Eyrun dára örin særi, eitrið ljóta, bíti hann skeytið, allur fyllist illum sullum, eyði kauða bráður dauði.

Hagall hinn minni

Ber hann á þér fyrir öllum galdri og skrifa hann á selsherðarblað úr músarblóði.

 

Karla-Magnúsar hringar

Þessir eru þeir níu hjálparhringar, hverja Guð sendi með sínum engli til Leo páfa, hverja hann skyldi færa Karlamagnúsi kóngi til varnar móti óvinum sínum eftir því sem þeir nú ljóslega á vísa hér eftir fylgjandi. In nomine patris et filio et spiritu sancty Amen.

 

 

Þeir fyrstu þrír eru svo sem hér eftir fylgir:

Þessir fyrstu þrír hringar og sá fyrsti er vörn fyrir öllum fjandans prettum og óvina árásum og hugarvíli; annar fyrir bráðum dauða og niður falli sem og hjartaskelfing allri; þriðji fyrir óvina reiði, að þeir skelfist í hug sínum þá þeir líta mig augum svo þeir doðna og drjúpa niður.

 

 

Aðrir þrír hringar eru svo sem hér eftir fylgir:

Þessir aðrir þrír hringar og sá fyrsti er við sverðabiti; annar fyrir apagangi og maður villist ekki; þriðji við reiði höfðingja og allri ofsókn illra manna.


Þriðju þrír hringar eru svo myndaðir sem hér næst eftir fylgir:

 

 

Þessir þriðju þrír hringar og sá fyrsti aflar málasigurs í fjölmenni og vinsæli allra manna; annar við öllum ótta; þriðji varnar líkamans löstum og munaðarlífi.

Þessa níu hringa skal bera á brjósti sér eða á annarri hvorri hlið þá maður á von á óvini sínum.

 

 

Róðrastafur

Þennan staf skal rista á leður og bera í blóð þitt.

Lát síðan undir leguskautann á ár þinni en sjálfur skaltu bera hann af skipi og á.

Mun þá enginn á þig snúa.

 

 

Róðukross Ólafs konungs Tryggvasonar

Róðukrossinn er til varnar gegn illum öndum, forðar manni frá villu og er til heilla á sjó og landi. 

Þessi kristskross er innan sem utan skjól og vörn gegn öllum gjörningum, sjónhverfingum, ótta, hjartveiki og sinnisveiki. Góður er hann í öllum ferðum á landi og legi, sé hann hafður á brjósti sér innan klæða.
Hver sem elskar hann af alúð, veit dauða sinn fyrir. Hann verndar menn og hreinsar af illum þankagangi og eykur þolinmæði í mótlæti, öllum þeim sem elska guð og gleðja náunga sinn veitir hann styrk og hæfni. Sá sem slíkan kross á, beitir trúarstyrk á stund reynslu og háska. Róðukrossinn notuðu Ólafur konungur Tryggvason, Sæmundur hinn fróði, Ari prestur hinn fróði og margir aðrir til að öðlast gáfu, anda og fróðleik.
 
 

Peningar og viðskipti

Blóðuxi - Molduxi

Til varnar stuldi, sá fyrri á dag en hinn á nóttu. Rist þá innan á lok kistu þeirrar er geymir fjármuni þína.

 

Dúnfaxi

Til að vinna mál fyrir rétti hafðu þá þennan staf með þér þegar þú sverð fyrir rétti. Hann á að vera á lítilli eikartöflu.

 

Galdratöluskip

Talbyrðingur til að granda hundtyrkjum og útlendum sjóreyfurum.

Þessi galdrastafur sem er bandrún á að ristast á skinn af frumsafrumsakálfi en frumsafrumsakálfur heitir það afkvæmi sem komið er af venjulegri kú og sænauti.

 

Í bandrúnina á að innibinda eftirfarandi vísu til að granda ræningjaskipum.

Hátt eru segl við húna
hengd með strengi snúna.
Séð hef ég ristur rúna
mig rankar við því núna.
Ofan af öllu landi
ógn og stormur standi,
særokið með sandi
sendi þeim erkifjandi.
 

Kaupalokar

Til að njóta velgengni í kaupskap og viðskiptum skal sníða tákn þetta á beykitöflu og hafa á milli brjósta sér.

 

Drag þennan staf á loðpappír og ber leynilega undir vinstri hendi. Muntu þá hafa sigur í viðskiptum.

 

Nábrókarstafur

Til að gjöra sér nábrók (einnig nefndar skollabuxur, finnabrækur og Papeyjarbuxur) þá gjör samning við einhvern í lifandi lífi til að fá að nota skinnið af honum dauðum.

Þegar svo er komið, far að næturþeli í kirkjugarðinn og graf hinn dauða upp. Flá síðan af honum skinnið, allt ofan frá mitti og niður úr í gegn, og lát það vera smokk. Varast skal að gat komi á brókina. Far þar næst í brókina og verður hún þá óðar holdgróin.
Áður en brókin kemur að notum, verður að stela pening af bláfátækri ekkju, á milli pistils og guðspjalls, á einhverri hinna þriggja stórhátíða ársins og láta hann í pung nábrókarinnar ásamt stafnum. Eftir það munu brækurnar draga að sér fé af lifandi mönnum, svo aldrei verður pungurinn tómur. Varast verður þó að taka þaðan peninginn þjófstolna.
Sá er annmarki með brækur þessar að sá er þær á getur ekki skilið þær við sig þegar hann vill, en á því ríður öll hans andleg heilsa að hann sé búinn að því áður en hann deyr, auk þess sem lík hans úir og grúir allt í lúsum, ef hann deyr í þeim. Því verður eigandinn að losa sig við brækurnar áður en hann deyr og fá einhvern til að fara í þær af sér. Verður það með því eina móti gert að eigandinn fari fyrst úr hægri skálminni og jafnskjótt fari hinn er við þeim tekur í hana. Verður þá nábrókin óðar holdgróin. Náttúru sinni halda nábrækurnar mann fram af manni og slitna aldrei.
 

Gegn stuldri

Gjör þennan staf á dyratréð í húsinu og kross með öfugri hendinni.

 

Að þjófur verði fastur í húsi, lát þennan staf undir þröskuldinn.

 

Ást

Að fá stúlku

Rist þennan staf á brauð eða ost, og gef henni að eta.

 

Að stúlka unni manni​

Skrifa í lófa þinn hægri með blóði þínu og tak það ofan af þumalfingri á vinstri hendi og mæl þessi orð yfir og hald í hönd henni: „Legg ég lófa minn í þinn lófa, minn vilja í þinn vilja. Verði þér í beinum sem þú brennir öll nema þú unnir mér sem sjálfri þér. Svo heit verði þér orð þessi, svo megn og sterk, sem eilífðin er. Allir töfrar og fjölkynngi fjandans villi vit þitt til ástar og elsku við mig og allar þær vættir sem í jörðu búa séu mér liðsinnandi á þessa leið.“

 

Feingur

Viljir þú að stúlka verði barnshafandi af þínum völdum, grópaðu þá staf þennan í ost og gefðu henni að borða.

Búskapur

Veiðistafur

Þennan staf skal draga upp á líknarbelg upp úr músarindilsblóði með hrafnsfjöðurpenna. Síðan skal láta hann í nafarholu undir stefni á skipi því er fara skal á til fiskjar og mun þá ekki afli bregðast.

 

Brýnslustafir

brynslustafir2
brynslustafir1

Rista skal táknið vinstra megin ofan á brýnslustein, en hitt undir. Leggja svo grastó yfir um stund, brýna því næst undir sól og varast að líta í eggina.

 

Þessir galdrastafir skulu ristir sinn hvorum megin á brýnið og mun þá skerpast vel.

 

Ef kýr mjólkar blóði

Rist þennan staf á eik og mjólka á hann.

 

Að fé verði tvílembt

Rist þennan eftirfylgjandi staf á sauða taði með músarrifi úr hrafnsblóði og brenn í stekkjardyrum á blágrýtishellu og lát reykinn leggja framan í féð á Jónsmessu gömlu.

 

Ef ólán er á fénaði

Rist þennan staf á eik og graf í gólfið og lát féð ganga þar yfir.

 

Sláttustafir

Þessa stafi skal rista á efri orfhælinn og bera í þá blóð úr lífæð á vinstri hendi.

 

Fjárvarnarstafur

Að ekki flæði fé þitt, rist þennan staf á hornið á elsta sauðnum.

 

Við dýrbiti

Klipp þennan staf í enni á einhverjum sauðnum og mun tófa ei bíta.

 

Haf þessa stafi í húsi og mun ei bíta.

 

dyrbit3

Rist þessa stafi á geitarhorn og lát hjá húsum þínum og mun ei bíta.

 

Fjárspektarstafir

Að fé verði spakt.

Tak eini og víði sem vex móti austri þá sól kemur upp og rist þar á þennan staf og lát fé ganga yfir á sumrum en undir á vetrum.

 

Rist þessa stafi í hríseik og graf undir þrepskjöldinn þar fé gengur yfir og fangamark þitt með.

 

Til að fiska vel

Rist á kálfskinn og bind við öngul þinn.

 

Rist á skinn og bind við vaðarstein.

 

Rist á manndrápseik ef þú vilt fiska.

 

Rist þennan staf á keipsnefið.

 

Valda ótta og skaða

Svo hestur fótbrotni

Rist þennan staf á töflu og kasta í götuna viljir þú að hestur fótbrotni. Rist með mathníf þínum – stafurinn kemur hér.

 

Dreprún

Þessa stafi skal maður skrifa á blaði og kasta í hestfar hans, þá mun einhver gripur hans deyja ef hann styggir þig óforþént og byrg stafinn í hestfarinu.

 

 

Óttastafur

Til þess að hræða óvin þinn ristu staf þennan á eikarspjald og kastaðu því fyrir fætur hans.

 

Svefn og draumar

Innsigli Salómons

Ef þú vilt verða vitur og fá góða drauma, þá rist þennan staf á surtarbrand og haf undir höfði þér.

 

Draumstafir

Ristu stafi þessa í silfur eða á hvítt leður á Jónsmessunótt. Sofðu svo á þeim og dreymir þig þá það sem þú vilt þegar sólin er lægst á lofti.

 

Annað

Hulinhjálmur

Hulinhjálmhringur er galdrastafur til að gera sjálfan sig ósýnilegan. Aðferð til að búa hann til er að finna í myndbandinu hér að neðan. Á Galdrasafninu á Hólmavík er ósynilegur drengur til sýnis, sem virðist hafa notað þá aðferð.

 

Lásabrjótur

Til að brjóta upp lás leggðu staf þennan við hann og andaðu frá þér á hann. Rúnirnar undir myndinni þýða: „Tröll öll taki í mellu, taki í djöfull svo braki.“

 

Angurgapi

Angurgapa skal rista á hlemm eða keraldsbotn.

 

Hólastafur

Hólastaf skal skera í reynistaur sem er eins og sproti. Blóð sem tekið er undan tungurótum á að bera í skurðinn.

Ef sprotanum er slegið í hóla eða steina opnast þeir.

 

Glímugaldrar

Vilt þú glíma vel, rist þessa stafi á skó þinn með mannsbeini eða kjúku á þeim fæti sem þú glímir með og seg: „Sendi ég fjandann sjálfan í hans brjóst og bein sem við mig glímir, í þínu nafni Þór og Óðinn“ og snú andliti til útnorðurs. 

 

Item rist á jarðtorfu mót vaxandi tungli með mathníf þínum og yfir döggva blóði þínu, lát svo í skó þína og mæl svo að rót vísu þessa:
„Ginfaxi á hæl,

Gapandi á tá,

taktu á sem fyrri

því nú liggur á.“

 

 

Viljirðu glíma við mann, rist þennan staf á kefli og heng yfir hann sofandi og mæl þetta fyrir: „Særi þig og hrelli, svelli þig og felli sjálfur Óðinn með xxx, Frigg, ginfaxi, gapandi, verði þér aldrei vær vonda fýlan fyrr en Baldurs innsigli á brjóst þér kemur. 

 

 

Smjörhnútur

Til að gera tilbera þá þarf kona að fara í kirkjugarð á hvítasunnumorgni og grafa upp rifbein af manni. Svo vefur hún það grárri sauðaull og fer næstu þrjá sunnudaga til messu. Hún gengur til altaris og dreypir á víninu en kyngir því ekki, heldur spýtir því niður á milli brjósta sér. Þannig skapast tiberinn og konan nærir hann á spena sem hún hefur gert sér ofarlega innanlæris.

Tilberinn nærist á spenanum, þar til hann er orðinn nógu þroskaður til að stela mjólk fyrir móðurina frá öðrum bændum. Þegar tilberamóðirin verður gömul og lúin þá þarf hún að fyrirfara tilberanum og skipar honum því á fjöll að tína saman öll lambaspörð á þremur afréttum í eina hrúgu. Á því sprengir
tilberinn sig, svo eftir liggur einungis mannsrifið úr kirkjugarðinum.

Að koma sér upp tilbera, eða snakk er eingöngu kvennagaldur og samkvæmt þjóðtrúnni þá notuðu konur hann til að draga björg í bú, en tilberinn hljóp út um haga að skipan móðurinnar og saug mjólk úr ám. Hann stökk upp á hrygg þeirra og saug þær með báðum hausum á sitthvorum enda búksins. Tilberamóðirin gerði svo smjör úr mjólkinni sem kallað er tilberasmjör.

Galdrastafurinn Smjörhnútur er notaður til að vita hvort tilberasmjör er borið á borð með því að rista hann í smjörstykkið. Ef það er tilberasmjör þá hjaðnar það niður eins og froða, eða springur í þúsund mola.

Viltu vita meira um íslenska galdrastafi?

Ef þig langar að fræðast meira þá gefum við út og seljum bækur með íslenkum galdrastöfum. 

two icelandic books of magic