Íslendingar bjuggu um aldir í torfbæjum. En fáir þeirra hafa líkst þeim nítjándu aldar burstabæjum sem enn standa. Á höfuðbólum sýslumanna og presta hefur verið mikil reisn, en kotbýli hafa átt fátt sameiginlegt með þeim annað en byggingarefnið, allra síst á útnesjum langt frá þeim býlum sem talin voru verðmætust. Um það vitna lýsingar í fyrstu ferðabókunum um Ísland. 

Um miðja 18.öld, hálfri öld eftir lok galdramála, ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um landið og ferðabók þeirra eru nokkrir kaflar um byggingar og segir þar að verstu hreysin séu í verstöðvunum á Suðurlandi og Snæfellsnesi, en hvergi er farið út í nákvæmar lýsingar á öðru en skárri bæjum með mörgum burstum. Enginn sérstakur kafli er um húskost á Vestfjörðum en í kafla um ferðalög norður eftir Strandasýslu og yfir í Jökulfirði segir:

  • En þótt Strandamenn séu góðir trésmiðir og beykjar, þá eru þeir harla lélegir húsasmiðir, því naumlega munu nokkurs staðar jafn illa hýstir bæir og á Ströndum, einkum norðan Trékyllisvíkur. Húsagerð þeirra er með þeim hætti, að ef eitthvert hús er að falli komið, er það rifið og reist sama daginn. Gildum rekadrumbum er hlaðið hverjum ofan á annan og mold mokað að þessum veggjum, svo að þeir hrynji ekki. Síðan eru bitar lagðir yfir húsið og sperrur reistar. Á þær er svo þakið með smátimbri svo þéttu, sem framast verður viðkomið, og það að lokum þakið með torfi, þangi og hellum svo að allt fjúki ekki, og þar með er húsasmíðinni lokið. Viðinn nota menn alls staðar í óhófi. Honum er eytt eins og menn framast geta, en ekkert hirt um seinni tíma. í eunu orði sagt, hér við sjóinn fara menn á sama hátt með rekaviðinn og gert var við skógana, þar sem þeir voru. 

 

Ekki er líklegt að þessi byggingaraðferð hafi tíðkast í Bjarnarfirði enda áttu þeir sem ekki bjuggu við sjávarsíðuna engan rétt til rekans, en rökrétt er að álykta sem svo, að fátækir leiguliðar hafi orðið að notfæra sér það byggingarefni sem var við hendina í miklu magni. Hér var það jarðefni sem auðvelt var að nálgast meðan sléttlendið í Bjarnarfirði var næstum samfelldar mýrar og fen. Þetta efni notuðu menn fram á tuttugustu öld þegar Skarðsrétt, sem enn er notuð, var hlaðin upp eingöngu úr torfi. 

Í Kotbýli kuklarans er grjót notað í undirstöður hússins en veggir hlaðnir úr klömbru og streng. Klambra er séríslensk aðferð við að hlaða torf, sniðskornir hnausar sem hlaðnir voru eftir ákveðnum reglum, inn í veggina fyllt með mold og afskurði og strengur lagður á milli laga til að binda veggina saman. Á veggjaendum og hornum voru síðan notaðir stórir torfhnausar, svokallaðir kvíahnausar. Helstu verkfærin við torfskurðinn voru páll (forveri stunguskóflu), reka og torfljáir. En torfbæir voru ekki reistir án þess að nota timbur og í Kotbýli kuklarans er öll grindin úr ósöguðum rekavið, sitt húsið með hverju lagi og árefti ýmist klofið sprek, reisifjalir úr bökum eða stuttir, breiðir kubbar sem teknir voru í sneiðar og lagðir á langbönd. Rekagrindur af ýmsu tagi og klofið árefti var algengt við fjárhúsabyggingar á Ströndum allan fyrri hluta tuttugustu aldar. Ofan á áreftið í þökunum voru ýmist lagðar þökur eða snyddur, eða sambland af báðum tegundum eins og Kotbýlið er dæmi um. 

Um er að ræða þrjú hús, sitt með hvoru lagi. Tvö þau fyrri sem gengið er um eru íveruhús heimilisfólksins og skepnanna. Þriðja húsið sem gestir ganga síðast inn í, er seinni viðbót og hýsir nokkra fróðleiksmola um Bjarnfirðinga fortíðarinnar.