Annáll 2025

9. janúar 2026

Galdrasýning á Ströndum – Annáll 2025

Árið sem leið var bæði viðburðaríkt og lærdómsríkt hjá Galdrasýningunni á Ströndum og því kjörið að staldra aðeins við og líta yfir farinn veg. Gestir ársins voru tæplega 16 þúsund. Það er örlítil fækkun frá árinu á undan, en skiptingin var svipuð og áður: um 75% gesta voru erlendir og um fjórðungur innlendir.

Endurhönnun á sýningunni

Í apríl náðum við loks langþráðum áfanga þegar endurhönnun á hluta sýningarinnar sem fjallar um hlautbollann úr Goðdal var kláruð. Steinninn sem fannst árið 2002 í Goðdal er eini varðveitti munurinn á Íslandi sem tengist heiðnum átrúnaði.

Hönnuðurinn Snorri Freyr Hilmarsson leiddi þetta verk, en hann hefur getið sér gott orð fyrir hönnun leikmynda og sýninga, meðal annars Skyrland á Selfossi. Á Galdrasýningunni sækir hann innblástur í lýsingar á hofi Þórólfs Mostraskeggs í Laxdælu, með öndvegissúlum og hinum helga hring. Landslagið á norðurveggnum sýnir legu hofsins í landslagi og sólarstöðu á jafndægrum. Þetta verkefni hefði þó aldrei orðið að veruleika án stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Sterkum Ströndum, sem við erum afar þakklát fyrir.

Galdrafár

Stór hluti fyrri hluta ársins fór í undirbúning fyrir menningar- og listahátíðina Galdrafár, sem var haldin í annað sinn á Hólmavík dagana 1.–4. maí. Þar var boðið upp á metnaðarfulla tónlistardagskrá í húsnæði Galdurs Brugghúss, hlúðflúrráðstefnu í Hnyðju, fyrirlestra í Bragganum og líflegt víkingaþorp og markað við sláturhúsið.

Víkingafélagið Rimmugýgur hélt víkingaskóla þar sem börn fengu að spreyta sig á víkingaleikjum og skilmingum – eitthvað sem vakti mikla lukku meðal ungra gesta á Hólmavík. Hátíðin heppnaðist einstaklega vel og við viljum senda innilegt þakklæti til allra sem komu, tóku þátt eða lögðu hönd á plóg. Ákveðið hefur verið að næsta Galdrafár fari fram vorið 2027 og við hlökkum til að sjá sem flest þá.

Afmæli og aðrar hátíðir

Í júní fögnuðum við stórum tímamótum þegar Galdrasýningin varð 25 ára. Afmælisdagurinn, 20. júní, var haldinn hátíðlegur með fjölbreyttri menningar- og skemmtidagskrá fyrir allan aldur. Yfir daginn var sérstök dagskrá fyrir börn með kokum, söng og leikjum, og um kvöldið tóku við kvæðasöngur, sögur, þulur og önnur menningarleg innslög.

Hörmungadagar voru haldnir dagana 7.–9. febrúar með glæsilegri dagskrá, sem að hluta fór fram á Galdrasýningunni. Við þökkum aðstandendum hátíðarinnar kærlega fyrir gott samstarf og öllum sem mættu.

Í apríl tók Galdrasýningin þátt í barnamenningarhátíðinni Púkanum með Þjóðsögusmiðju í samstarfi við Þjóðfræðistofu Háskóla Íslands og listamanninn Sunnevu Guðrúnu Þórðardóttur. Þau heimsóttu nemendur á miðstigi á Ströndum og Reykhólum og leiddu þau í gegnum ferlið við að skapa eigin þjóðsögur og myndskreyta þær.

Fjölþjóðleg verkefni

Galdrasýningin tók þátt í tveimur spennandi Evrópuverkefnum á árinu. Annars vegar MERSE, sem snýr að samfélagslegri nýsköpun í dreifðum byggðum. Í tengslum við það var farin kynningarferð um Vestfirði með öðrum samfélagsfrumkvöðlum og Vestfjarðastofu, sem leiðir verkefnið á Íslandi, með það að markmiði að skapa tengsl, auka vitund og hvetja fleiri til þátttöku.

Hins vegar er verkefnið NICHE2, sem Þekkingarnet Þingeyinga leiðir. Það er samstarf sex Evrópulanda og fjallar um óáþreifanlegan menningararf og hvernig megi flétta græn gildi Evrópusambandsins inn í hann. Í verkefninu er unnið að þróun fræðsluefnis, tengslamyndun og samstarfi á þessu sviði. Á árinu var haldinn fjölþjóðlegur fundur á Ítalíu þar sem allir samstarfsaðilar komu saman.

Við höfum einnig lagt mikla áherslu á skemmtileg verkefni fyrir börn á Ströndum, þar á meðal Muggla-Quidditch á hátíðinni Sameinumst á Ströndum og listavinnustofu þar sem Miðgarðsormurinn, afsprengi fyrstu Púkahátíðarinnar, fékk kærkomna upplyftingu.

Umfjöllun erlendis

Það var okkur sérstök ánægja þegar breski fjölmiðillinn Daily Mail setti Galdrasýningu á Ströndum í fjórða sæti á lista yfir furðulegustu söfn Evrópu. Við tökum því sem viðurkenningu og þökkum öllum sem hafa hjálpað til við að halda galdraglæðunum lifandi.

Í september fengum við einnig heimsókn frá tökuliði History Hit, bresku stafrænu fjölmiðlaneti sem framleiðir og miðlar sagnfræðilegu efni. Tekið var upp efni fyrir þátt um galdrafárið á Íslandi, bæði á sýningunni á Hólmavík og í Kotbýli kuklarans.

Aðrir viðburðir

Í desember hélt litáíski rithöfundurinn Greta Lietuvninkaité vinnustofu í ígrunduðum skrifum á Galdrasýningunni, með það að markmiði að hjálpa fólki að takast á við vetrarblúsinn. Greta, sem er búsett á Ísafirði, hefur haldið slíkar vinnustofur um árabil við miklar vinsældir. Hún hyggst snúa aftur á Hólmavík á þessu ári og við hlökkum mikið til að taka á móti henni á ný.

Einnig var haldið útgáfupartý fyrir bókina Gömlu íslensku jólafólkin á Galdrasýningunni. Höfundarnir Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir sögðu frá bókinni, og myndskreytirinn Sunneva Guðrún Þórðardóttir fjallaði um sköpunarferlið við að færa þekkt og óþekkt – oft óþekkt – jólaverur í myndrænt form. Aðsókn heimamanna fór langt fram úr væntingum og var fullt út úr dyrum. Nú prýða myndir úr bókinni veggi Galdrasýningarinnar.

Lokaorð

Þegar við lítum til baka er ljóst að árið 2025 var ríkt af samstarfi, sköpun og skemmtilegum áskorunum. Við erum afar þakklát fyrir allt það fólk sem hefur staðið með okkur, heimsótt sýninguna, tekið þátt í viðburðum eða lagt sitt af mörkum á einn eða annan hátt. Nú horfum við spennt fram á nýtt ár, ný verkefni og nýjar áskoranir – og hlökkum til að halda áfram að skapa, miðla og galdra saman á Ströndum.

Galdrasýningin á Ströndum meðal sérkennilegustu safna Evrópu

14. október 2025

quirkiest museum in europe

Okkur er sönn ánægja að tilkynna að Galdrasýningin á Ströndum hefur verið valin í 4. sæti yfir 10 sérkennilegustu söfn Evrópu af Daily Mail

Þessi viðurkenning er mikill heiður fyrir okkar litla safn hér í Hólmavík og fagnar hinum dularfulla, heillandi og stundum skemmtilega hliðum íslenskrar þjóðtrúar, galdra og galdrasagna. Í meira en tvo áratugi hefur markmið okkar verið að varðveita og miðla þessum einstaka hluta af menningararfi Íslands — sögunum, seiðunum og sagnfræðinni sem hafa mótað ímyndunarafl og sögu þjóðarinnar.

Við viljum senda okkar innilegustu þakkir til allra gesta, stuðningsaðila og vina safnsins um allan heim sem hafa hjálpað til við að halda anda safnsins á lífi. Áhugi ykkar og forvitni gera þetta allt mögulegt.

Einnig viljum við senda okkar hlýjustu hamingjuóskir til vina okkar á Hið Íslenzka Reðasafn, sem hafnaði í 1. sæti listans. Það er sannarlega stoltisdagur fyrir íslensk söfn — sönnun þess að þessi litla eyja geymir stórar sögur og einstaka fjársjóði! 

Niðurstöður úr Vinnupakka 2 í NICHE 2: gögn, dæmi og GreenComp Matrix til að styðja við græn umskipti og lifandi hefðir

9. október 2025

NICHE 2 hefur birt allar niðurstöður úr Vinnupakka 2 (WP2), sem eru nú aðgengilegar á nokkrum tungumálum á vefsvæði verkefnisins. Á Íslandi, Ítalíu, Frakklandi, Spáni og í Króatíu hefur vinnuþáttur 2 umbreytt sundurlausri þekkingu í hagnýtar leiðbeiningar fyrir fagfólk, kennara og stefnumótandi aðila sem starfa á mörkum óáþreifanlegs menningararfs (ICH) og sjálfbærni.

Nýtt á vefsíðunni okkar

1) Samantekt

Samantekt frá kortlagningu og greiningu sem samstarfsaðilarnir hafa unnið á landsvísu og frá sjónarhorni ESB:

  • Tekur saman niðurstöður á landsvísu um hlutverk, viðbúnað og áhættur óáþreifanlegs menningararfs í grænum umskiptum og nýtist beint við gerð á komandi þjálfunaráætlun NICHE 2
  • Leiðir lesendur frá stöðugreiningu að hagnýtri innsýn: gangverki geirans, hindrunum og áskorunum, stuðningskerfum og bestu starfsvenjum, og þeirri hæfni sem þarf fyrir umskiptin
  • Er ætlað sem stefnumótandi tæki fyrir framtíðarþjálfun, stefnumótun og fjármögnun, sem nýtist út fyrir samstarfshóp verkefnisins.

2) Safn fyrirmyndar starfsvenja (12 dæmi)

Safn fyrirmyndar starfsvenja sem nær yfir fimm samstarfslönd og verkefni á vettvangi ESB og endurspeglar fjölbreytta aðila, þemu og landfræðilegan mælikvarða. Það sýnir breidd þeirra þátta sem skipta máli fyrir óáþreifanlegan menningararf og sjálfbærni, þar á meðal:

  • Varðveisla og miðlun óáþreifanlegs menningararfs
  • Græn stjórnunarlíkön fyrir samfélagssöfn og viðburðastaði
  • Stefnumótunarrammar og skilyrði fyrir fjármögnun
  • Snjöll stjórnsýsla og tækninýjungar fyrir lágmarksáhrifaferðaþjónustu
  • Þjálfunaráætlanir
  • Sjálfbær ferðaþjónusta
  • Hringrásarnálgun / visthönnun

3) GreenComp Matrix

Hagnýtt Matrix sem samstarfsaðilar þróuðu til að tengja þjálfunarþarfir sem komu fram í kortlagningunni við hæfniviðmið GreenComp-rammans frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Matrixið er notað til að skilgreina skýr námsmarkmið fyrir þjálfunarefni NICHE 2 og til að tryggja um leið að niðurstöður gagnanna séu nýttar í því.

Hvað er framundan

Afurðir Vinnupakka 2 nýtast beint við hönnun þjálfunaráætlunar NICHE 2 (Vinnupakka 3), sem sameinar tæknilega þætti með ígrunduðu námi og menningarnæmum samræðum sem styða við  fagfólk í að vinna með menningararf og umhverfismál á ábyrgan hátt.

Fyrir frekari upplýsingar, sjá vefsíðu NICHE-verkefnisins á https://www.nicheproject.eu/index.php eða hafðu samband við teymið okkar með tölvupósti á nicheproject.eu@gmail.com

Óáþreifanlegur menningararfur Erasmus+ samstarfsverkefni

12. desember 2024

icelandic witchcraft
Strandagaldur er samstarfsaðili í nýju Erasmus+ samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar sem kallast NICHE 2 – Nurturing Intangible Cultural Heritage for Entrepreneurship. Verkefninu er stýrt af Þekkingarneti Þingeyinga og samstarfsaðilar eru frá 6 löndum: Króatíu, Frakklandi, Íslandi, Ítalíu, Belgíu og Spáni. 
Markmið NICHE 2 er að þróa og veita þjálfun fyrir einstaklinga sem nýta sér óáþreifanlegan menningararf í sínu starfi. Áhersla verður lögð m.a. á að styðja við stafræna færni og þá færni sem hefur verið skilgreind í Evrópska hæfnirammanum um sjálfbærni.
Verkefnið hófst með stafrænum upphafsfundi 18. nóvember 2024 en verkefnið er til tveggja ára. 
Strandagaldur fagnar tækifærinu að vera með í slíku verkefni og teljum okkur hafa margt fram að færa og hlökkum til að bæta við þekkingu okkar.