efolaneradfenadi
Til verndar sauðfé / Protection for sheep

Heimildir um galdramál á Íslandi eru mismiklar og mis greinargóðar. Um þau fáu mál sem vitað er um fyrir siðaskipti eru þær brotakenndar. 


Sem dæmi má taka líflát Katrínar nunnu á Kirkjubæjarklaustri 1343. Á aftökuna er minnst í Nýja annál og þar sagt að biskup hafi degraderað „systur í Kirkjubæ um páfa blasphemiam, og síðan var hún brennd.“ Flateyjarannáll segir hins vegar svo frá málinu: „Brennd ein systir í Kirkjubæ, er Kristín hét, er gefizt hafði púkanum með bréfi. Hon hafði ok misfarit með guðs líkama ok kastat aftr um náðahústré, lagizt með mörgum leikmönnum.“ Allar fullyrðingar fram yfir þessar upplýsingar eru getgátur.


Annað er upp á teningnum þegar kemur fram á brennuöld en þó eru heimildir mjög mismiklar um einstök mál. Alþingisbækur yfir allt tímabilið eru til, en það sem varðveist hefur af dómabókum úr héraði er ákaflega brotakennt. Einstaka héraðsdómar eru til þar sem mál eru svo nákvæmlega rakin að á stundum er hægt að lesa úr þeim heilu yfirheyrslurnar. Greinabestar eru upplýsingar um þau mál sem tekin voru fyrir og dæmd á Öxarárþingi en þegar þar er um að ræða staðfestingar á héraðsdómum eru upplýsingarnar oft takmarkaðar. 

Magnús Magnússon

Um eitt mál segir til dæmis aðeins að Magnús Magnússon sýslumaður hafi lesið upp dóm úr Önundarfirði og svar lögmanna og lögréttu er að málið skuli höndlast samkvæmt lögum og kóngsbréfi frá 1617. Þessi tilvísun í kóngsbréfið og svo fyrirsögnin í Alþingisbókinni, „Um töframál“, segja okkur að um galdramál sé að ræða en annars er ekki meira vitað um þetta mál. Í fáeinum tilvikum sýnist einum að brotakenndar upplýsingar bendi til þess að um galdramál sé að ræða á meðan aðrir túlka heimildir á allt annan veg. Sum mál sem borin voru undir alþingi eru send aftur heim í hérað til „frekara rannsaks“ og þar við situr og ekki vitað hvað um málin varð. Því er ekki vitað hver urðu endalok milli fimmtán og tuttugu prósenta íslenskra galdramála. Upplýsingar um þau verða því seint ótvíræðar og tölur um galdramál á Íslandi verður alltaf hægt að véfengja.

 

Um það bil 170 manns voru ákærðir fyrir einhvers konar kukl og eru konur þar um tíu af hundraði. Rúmlega hundrað mál voru tekin fyrir á alþingi, sum einu sinni en önnur oftar. Vel þriðjungur galdramála snerist um notkun forboðinna kúnsta til að valda veikindum og næstum eins stór hluti snerist um meðferð stafa og galdrabóka. Önnur mál fjalla um eyðileggingu á búfé, sendingar, lækningar, veðurgaldra og annað kukl til að auðvelda sér lífsbaráttuna. Loks má nefna að guðlast er oft nefnt sem hluti af ákærum.

Glímugaldur / Staves for wrestling

 

Tuttugu og einn Íslendingur var brenndur fyrir galdra, þar á meðal ein kona. Við þessa tölu mætti bæta fjórum aftökum þar sem galdur tengdist máli eða gæti hafa gert það. Fjórðungur þeirra sem ákærðir voru á Íslandi voru hýddir og um það bil jafn stór hluti var sýknaður. Fáeinir hlutu útlegðardóma og um það bil tugur manna strauk áður en réttvísin náði að hegna þeim.

 

Ekki er hægt að segja að samræmi hafi verið í dómum því fyrir svipaðar sakir og líkur voru sumir dæmdir sýknir saka á meðan aðrir voru hýddir, sumir lítillega en aðrir hlutu þrjár hýðingar, allar „sem næst gangi lífi“. Sumir voru hýddir þótt ekkert sannaðist á þá og virðist þar ráða mestu hvort menn höfðu á sér gott orð. Í öðrum tilvikum þótti dómurum öruggara að hýða menn þótt ekkert sannaðist.

Galdrabrennur

Galdrabrennur

Djöfullinn kom lítið við sögu í íslenskum galdramálum og galdramessur og pyndingar ekki neitt, auk þess sem konur voru í miklum minnihluta þeirra sem brennd voru hér á landi. 


Um 1660 var galdrafárið víðast hvar í rénum í Evrópu. Árið 1654 er álitið að galdrafárið á Íslandi hafi hafist með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi. 

Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson sem var brenndur árið 1625 í Svarfaðardal í Eyjafirði.

„Þann ….ris var Sveinn Árnason brenndur á Nauteyri (eptir þing þar afstaðið og haldið 4. dag sama mánaðar af lögmanninum herra Magnúsi Jónssyni) fyrir galdraáburð prófastsins séra Sigurðar Jónssonar.“

Höfundur þessarar annálsgreinar var téður Sigurður Jónsson en sakarefni Sveins var að hafa valdið veikindum prófastfrúarinnar Helgu dóttur Páls í Selárdal.

 

Helga var þekkt fyrir drykkjuskap, en fátt er vitað fyrir víst um gang þessa máls. Réttara mun vera að Sveinn var dæmdur á Nauteyri en brenndur í Arngerðareyrarskógi.

 

Munnmæli vestra herma að ákveðið hafi verið að flytja hann á Alþingi, en þegar kom í skóginn hafi menn ekki nennt lengra.

 

Sjá einnig: Selárdalsmál.

 

Upphaf máls Ara má rekja til Þorkötlu Snæbjarnardóttur, systur Björns á Staðastað sem átti þátt í að koma Böðvari Þorsteinssyni á bálið fáum árum fyrr.

 

Hún kærði Ara og á heimili hennar fannst galdraspjald sem talið var að hann hefði skilið þar eftir. Við rannsókn á málinu voru vitnisburðir mjög Ara í óhag en margir létu uppi grun um að hann myndi valdur að veikindum fólks.

 

Hann var dæmdur sekur og þegar honum var veitt hinsta sakramenti meðgekk hann að hafa farið með óleyfilega fjölkynngi, bæði haft um hönd kotruvers og grennslast fyrir um það hvort konur væru óspilltar meyjar.

 

Hann var brenndur á Þingvöllum og keyptu ýmsir fyrirmenn föt hans því hann var kallaður hreppstjórinn prúðbúni.

 

Í skýrslum Árna Magnússonar og Páls Vídalíns til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn um réttarfar á Íslandi er þetta mál rakið og talið augljóst að framið hafi verið dómsmorð, enda allur málatilbúnaður meingallaður.

Heimildir um brennu mæðgininna, Þuríðar og Jóns, eru ærið brotakenndar en víst er að sr. Páll í Selárdal taldi þau völd að veikindum Helgu konu sinnar sem enn þjáðist mjög af hinum ókennilega sjúkdómi.

Mæðginin höfðu komið úr Skagafirði sumarið áður og voru ný og óþekkt í sveitinni, en ekki er vitað nánar um málavexti. Skagfirskur annáll segir að Jón hafi gasprað um að þau hefðu farið yfir vatnsföll án þess að nota hest eða ferjur, svo mikil væri kunnátta móður sinnar. Þau voru bæði tekin og brennd í Barðastrandasýslu.


Sjá einnig: Selárdalsmál.

Heimildir um brennu mæðgininna, Þuríðar og Jóns, eru ærið brotakenndar en víst er að sr. Páll í Selárdal taldi þau völd að veikindum Helgu konu sinnar sem enn þjáðist mjög af hinum ókennilega sjúkdómi.

 

Mæðginin höfðu komið úr Skagafirði sumarið áður og voru ný og óþekkt í sveitinni, en ekki er vitað nánar um málavexti.

 

Skagfirskur annáll segir að Jón hafi gasprað um að þau hefðu farið yfir vatnsföll án þess að nota hest eða ferjur, svo mikil væri kunnátta móður sinnar. Þau voru bæði tekin og brennd í Barðastrandasýslu.

 

Sjá einnig: Selárdalsmál.

Stefán Grímsson var kallaður drengmenni og talinn borgfirskur að kyni. Stefán var m.a. ákærður fyrir skemmd á átta kúm og nytmissi en eftir að dómur var genginn játaði hann á sig ýmis brot, m.a. hórdómsbrot og að hafa borið glímustaf í skó sínum en ekkert af því sem hann var dæmdur fyrir.

 

Við málaferlin voru nefnd tengsl við mál Árna prests Jónssonar sem strauk af landi brott áður en mál hans var tekið fyrir af prestastefnu.

 

Stefán var brenndur í Húnavatnssýslu strax eftir réttarhöldin.

Á þingi var brenndur Þorbjörn Sveinsson, Grenjadals-Tobbi, úr Mýrasýslu fyrir þrjú galdrakver og skinnlengjur með pári og galdrastöfum sem fundust á honum.

 

Þorbjörn viðurkenndi að hafa skrifað mest af þessu og að hafa prófað galdur til að spekja fé. Ekki er þess getið hvort hann hafi mein gert, en hann hafði fáum árum áður verið hýddur og brennimerktur fyrir þjófnað. Hann var brenndur á Þingvöllum sama dag og Bjarni Bjarnason.

Á þingi var brenndur Þorbjörn Sveinsson, Grenjadals-Tobbi, úr Mýrasýslu fyrir þrjú galdrakver og skinnlengjur með pári og galdrastöfum sem fundust á honum.

 

Þorbjörn viðurkenndi að hafa skrifað mest af þessu og að hafa prófað galdur til að spekja fé. Ekki er þess getið hvort hann hafi mein gert, en hann hafði fáum árum áður verið hýddur og brennimerktur fyrir þjófnað. Hann var brenndur á Þingvöllum sama dag og Bjarni Bjarnason.

Maðurinn sem var talinn valdur að veikindum sona sr. Páls og Helgu í Selárdal hét Lassi Diðriksson, sjötugur að aldri. Hann var einnig sakaður um að hafa valdið veikindum Egils Helgasonar sem var einn af mönnum Eggerts sýslumanns á Skarði, bróður prófastsins.

Lassi neitaði harðlega að hafa fengist við galdra eða vera viðriðinn veikindin. Málið var lagt fyrir Þorleif Kortsson sem ályktaði að vegna skorts á sönnunum skyldi senda málið til alþingis.

Þar var hann dæmdur sekur og var brenndur mest fyrir orð Eggerts sýslumanns Björnssonar, en að „saklitlu að sumir héldu“ eins og segir í einum annál.

Illa gekk að brenna Lassa því að mikil rigning var og slokknaði eldurinn þrisvar. Eggert sýslumaður fótbrotnaði á leið heim af þingi og þótti þá mörgum sem honum hefði hefnst fyrir framgöngu sína gegn saklausu gamalmenninu.

Sjá einnig: Selárdalsmál.

Galdraofsóknunum í Selárdal linnti ekki þrátt fyrir að búið væri að brenna tvo menn. Enn á ný var maddaman lostinn miklum sjúkleika og nú einnig tveir synir þeirra hjóna.

 

Veikindi frúarinnar voru nú kennd Magnúsi Bjarnasyni úr Arnarfirði í Barðastrandasýslu. Að minnsta kosti einn galdrastafur fannst í fórum Magnúsar og í Dómabók Þorleifs Kortssonar er talað um lostuga meðkenningu.

 

Magnús var fluttur norður að Þingeyrum til Þorleifs, dæmdur á bál og brenndur í Húnavatnssýslu.

 

Sjá einnig: Selárdalsmál.

Sama dag og Páll Oddsson bóndi í Ánastaðakoti var brenndur fór einnig á bálið Böðvar Þorsteinsson frá Snæfellsnesi. Böðvar þessi var margorðaður við galdur. Upphaf málsins var á þá leið að um veturinn þegar hann reri í Gufuskálum hafði hann uppi gaspur um kukl sitt og dag einn gengu menn á hann og spurðu hvort hann hefði verið valdur að aflabresti á skipi séra Björns Snæbjörnssonar prófasts. Svaraði hann því játandi. Séra Björn kærði hann þá fyrir galdur og gekkst Böðvar við honum. Seinna dró hann játninguna til baka en ekki var talið vert að taka mark á því og var Böðvar brenndur á Þingvöllum.

Páll Oddsson bóndi í Ánastaðakoti á Vatnsnesi hafði búið þar nálega tvo áratugi og aldrei verið orðaður við forneskju þegar séra Þorvarður Ólafsson á Breiðabólstað kenndi honum um veikindi konu sinnar, Valgerðar Ísleifsdóttur. Var ákæran sprottin af rúnaspjöldum sem höfðu fundist.

 

Þegar rannsaka átti málið kom Páll ekki til þings og fannst hvorki heima hjá sér né annars staðar. Þótti það benda til að hann vissi upp á sig sökina.

 

Málinu var skotið til Þorleifs Kortssonar og var Páll í haldi hjá Guðbrandi sýslumanni Arngrímssyni í Ási í Vatnsdal. Síðari tíma saga segir að Páll hafi átt vingott við eiginkonu sýslumanns og Guðbrandur þess vegna sótt málið fastar.

 

Þegar á leið urðu fleiri til að saka hann um galdur og kenna honum veikindi. Málinu var vísað til Öxarárþings og Páli gert að frelsa sig með tylftareiði. Þegar til eiðs kom greindi eiðvætti á og sumir báðust undan eiði. Samt tókst að ná öllum saman nema einum, fjögur vildu sverja hann saklausan en sjö ekki. Páll meðgekk aldrei að vera valdur að veikindum konunnar og sagði nafngreindan mann hafa rist eða látið rista spjöldin sem málið reis út af. Sá maður sór fyrir sakargiftir Páls svo að hann var dæmdur sekur þrátt fyrir vitnisburð margra góðra manna. Sagt var að hann hefði stungið höfðinu fram þegar hann var kominn á bálið og sagt: 

„Sjáið þar sakleysi mitt.“

 

Páll var brenndur á Þingvöllum.

Sigurður Jónsson úr Ögurhreppi var ákærður fyrir að hafa valdið sjúkleika bóndakonu einnar í Ísafjarðardjúpi.

 

Viðurkenndi hann galdur og sagði svo frá að fyrst hefði hann notað gráurt við galdur sinn en það hefði ekki hrifið. Þá hefði hann notað vallhumal sem hann notaði með kvikasilfri úr fjöðurstaf og sæði sínu ásamt staf sem hann risti á eikarspjald og versi sem hann orti sjálfur.

 

Einnig sagðist hann eitt sinn hafa mætt sendingu og hafa varið sig með særingum og formælingum, en lagðist loks niður, greip græðisvepp, lét drjúpa í hann tvo blóðdropa og snaraði í kjaftinn á andskotanum sem að honum sótti.

 

Sigurður var gripinn í Vigur í Ísafjarðardjúpi og brenndur á Þingvöllum.

Fyrir dauða sinn hélt Jón Leifsson því fram að Erlendur nokkur Eyjólfsson, sem ein heimild segir að hafi verið af Ströndum, hefði kennt sér galdur.

 

Af þessu tilefni mun sr. Páll hafa sent bréf til lögmannanna Þorleifs Kortssonar og Sigurðar Jónssonar, þar sem hann lýsir Jón valdan að „öllum þeim kvalafeiknum“ sem yfir heimili hans hafi gengið, og lýsir því yfir að „hans skólameistari“ hafi kennt honum hvernig átti að bera sig að. Erlendur sé „sekkur djöfulsins, úr hverjum lekur það, hver vondur girnist, meistari þeirra, sem lært hafa og læra vilja, uppsprettubrunnur alls djöfuls í þeirri sveit.“

 

Varla var við öðru að búast en að slík orð úr þessari átt hefðu áhrif og Erlendur var brenndur í Vesturhópi í Húnavatnssýslu sama ár eftir að hafa gengist við að hafa framið fjölkynngi og kennt öðrum.

 

Sjá einnig: Selárdalsmál.

Um áramótin 1668-9 veiktist „sú guðhrædda“ maddama í Selárdal í Arnarfirði, Helga Halldórsdóttir, af undarlegum sjúkdómi. Varð hún fyrir „ærið mikilli árás og ofsókn af illum anda“ og lá veik fram á sumar.

 

Eftir að maddama Helga lagðist í rúmið gekk yfir Selárdal skæður draugagangur, svo þau hjónin og allt þeirra fólk flúði staðinn um tíma. Helga þóttist nú sjá hver orsökin fyrir ókyrrleikanum væri.

 

Jón nokkur Leifsson hafði sóst eftir að kvænast einni af þjónustustúlkum hennar, en Helga hafði lagst eindregið gegn því. Sá drengur var nú tekinn og yfirheyrður og virðist hafa viðurkennt eitthvað kukl, a.m.k. að hafa reynt að kynnast því. Um skeið var tvísýnt hvernig tekið yrði á máli Jóns og bar séra Páll mikinn kvíðboga fyrir því að máli hans yrði vísað til Öxarárþings.

 

Eggert sýslumaður gekk þá skörulega fram í málinu og ákvað að láta brenna Jón vestra, rétt áður en hann reið til þings. Fékk hann síðan brennudóm sinn staðfestan á Þingvöllum eftir á.

 

Jón var brenndur í Barðastrandasýslu að gengnum dómi árið 1669.

 

Sjá einnig: Selárdalsmál.

Þórarinn á Birnustöðum hafði stundað lækningar bæði á fólki og skepnum í Ögursveit og m.a. notað eikarspjald við tilraun til að lækna stúlku á Laugabóli. Stúlkan dó og spjaldið komst í hendur Sigurðar Jónssonar sóknarprests í Ögri. Spjaldið var skoðað á vorþingi 1665 án þess að menn kæmust að niðurstöðu.

 

Litlu síðar dó prestur og þessi tvö dauðsföll voru kennd Þórarni. Hann flúði þá sveitina með konu sinni og hafði þá rakað hár sitt og skegg en var engu að síður tekinn í Staðarsveit á Snæfellsnesi og sendur vestur. Hann strauk aftur og komst nú alla leið í Rangárvallasýslu þar sem Vísi-Gísli handsamaði hann og sendi vestur.

 

Við réttarhöldin kom æði margt neikvætt fram um Þórarinn. Málið var tekið fyrir á tveim þingum vorið 1667 þar sem enginn fékkst til að sverja með Þórarni og var hann dæmdur sekur en Öxarárþingi eftirlátið að ákveða refsinguna. Þar var hann dæmdur til dauða fyrir „rúna risting og brúkun til óleyfilegra lækninga“ og eftir dómsuppkvaðninguna viðurkenndi Þórarinn sig dauða verðugan.

 

Þórarinn Halldórsson var fyrsti maðurinn sem brenndur var á Þingvöllum fyrir galdra.

Jón yngri viðurkenndi á sig ýmislegt fleira en faðir hans áður en þeir voru brenndir.

 

Fyrst sagði hann frá misheppnuðu kukli sínu og að hafa klippt Salómons innsigli á kálfskinn til að lækna kú og þá hafi djöfullinn komið til hans í svefni. Meðal annars sem hann viðurkenndi var að hafa rist dóttur prests fretrúnir og reynt að ná ástum hennar með galdrastöfum, að hafa brúkað glímustafi og kveisustafi, að eiga þátt í veikindum séra Jóns og fleira.

 

Sjá einnig: Kirkjubólsmál.

Síra Jón Magnússon sem kallaður var þumlungur, prestur á Eyri í Skutulsfirði, sótti þá feðgana Jón og Jón Jónssyni frá Kirkjubóli til saka fyrir að vera valdir að veikindum sínum og djöfullegum ásóknum. Eftir nokkurra mánaða varðhald játuðu feðgarnir á sig ýmiskonar kukl á þingi á Eyri, en þangað voru þeir fluttir í járnum. Jón eldri viðurkenndi að hafa haft tvær skræður undir höndum, skemmt kú, farið með tóustefnu aðstoðað son sinn við kukl og valdið veikleika prests með særingum.

 

Jón eldri var dæmdur til dauða og brenndur í apríl 1656, en prestur fékk skaðabætur af fé og eignum þeirra feðga.

 

Þeir voru brenndir á Kirkjubóli í Skutulsfirði.

 

Sjá einnig: Kirkjubólsmál.

Áður en Þórði Guðbrandssyni var varpað á eldinn lét hann svo um mælt að mestur galdramanna í Trékyllisvík væri Grímur Jónsson. Var rannsókn því hafin á atferli hans sem leiddi í ljós að á honum var hið mesta galdraorð. Við yfirheyrslur viðurkenndi hann að hafa notað rúnaspjald, fengið frá Þórði, til varnar dýrbiti og að hafa banað á einni með því að kasta í hana rúnakefli.

 

Grímur var settur í járn og glúpnaði hann svo við það að hann hét því að leggja af allt kukl ef þeir slepptu honum úr járnunum. Bænum hans var þó ekki sinnt og á næstu tveimur dögum játaði Grímur á sig alls kyns galdur svo sem að hafa viðhaft galdravers og særingar til að gera mönnum baga og skaða og komið manni af jörðinni Reykjarfirði sem hann fýsti í sjálfan.

 

Grímur var dæmdur á bál og brenndur í Kistu í Trékyllisvík, Strandasýslu.

 

Sjá einnig: Undrin í Trékyllisvík.

Við rannsóknina á Þórði Guðbrandssyni í Trékyllisvík kom í ljós að fleiri en hann voru grunsamlegir í sveitinni. Beindist athyglin þá fyrst og fremst að Agli nokkrum Bjarnasyni. Var hann handtekinn, settur í járn og í framhaldi af því játaði hann að hafa lagt lag sitt við djöfulinn með ristingum, blóðvökum og naglaskurði og gert sáttmála við djöfulinn svo hann þyrfti ekki annað en skipa honum fyrir það sem hann vildi láta hann gera. Með slíkri fjölkynngi og fordæðuskap kvaðst hann hafa drepið sauði fyrir bændum í Hlíðarhúsum og á Kjörvogi.

 

Eftir þessum játningum var Egill dæmdur og brenndur með Þórði Guðbrandssyni í Kistu í Trékyllisvík, Strandasýslu.

 

Sjá einnig: Undrin í Trékyllisvík.

Árið 1652 tók að bera á miklum og undarlegum veikleika meðal íbúa Trékyllisvíkur á Ströndum, einkum hjá kvenfólki. Plágan gerði fyrst vart við sig skömmu eftir manntalsþing í Árnesi árið 1651. Á því þingi kvað Þorleifur Kortsson sýslumaður upp þann úrskurð að Guðrún Hróbjartsdóttir sem var á vist með Þórði Guðbrandssyni skyldi fara þaðan á brott að kröfu bræðra hennar og móður. Þegar bræðurnir fóru að sækja hana greip hana mikil sótt sem batnaði jafnskjótt og þeir fóru. Eins fór þegar þeir höfðu hana heim með sér úr kirkju, varð hún þá mikið veik og batnaði ekki fyrr en hún kom aftur í Munaðarnes. Af þessu þótti mega ráða að Þórður hefði gert henni veikina með göldrum.

 

Við yfirheyrslur viðurkenndi Þórður að hafa séð djöfulinn í tófulíki og að hann hefði sært þennan djöful með þeim orðum, illum og góðum, sem hann frekast hefði kunnað.

 

Þórður var brenndur í Kistu í Trékyllisvík, Strandasýslu.

 

Sjá einnig: Undrin í Trékyllisvík.

Sigurður nokkur á Urðum í Svarfaðardal taldi sig verða fyrir hatrammri ásókn sendingar. Eyfirðingnum Jóni Rögnvaldssyni var um kennt og á hann borið að hann hefði vakið upp draug til að vinna Sigurði mein. Uppvakningurinn vann þó ekki á honum en gerði ýmsan annan óskunda eins og að drepa nokkra hesta.

 

Sýslumaðurinn í Vaðlaþingi, Magnús Björnsson á Munkaþverá, tók málið upp en Jón þvertók fyrir að hafa átt við galdra og bar það af sér að hann ætti nokkra sök á atburðunum á Urðum. Við leit hjá honum fundust blöð með rúnum á og ískyggilegum teikningum. Það nægði til að Magnús dæmdi hann til að brennast á báli og gekk hart eftir því að dómnum yrði fullnægt.

 

Jón Rögnvaldsson var brenndur á Melaeyrum í Svarfaðardal, án þess að málið kæmi nokkurn tíma fyrir þing, en tuttugu og níu ár liðu þangað til næstu menn létu líf sitt á báli.

Galdramál

Haustið 1676 var haldið merkilegt dómþing á Kaldrananesi. Þar var Jón Pálsson lagður á grúfu og hýddur „sem næst gekk lífi“ ef sýslumaður hefur fylgt út í æsar úrskurði lögréttu frá því um sumarið. Húðlát með hrísvendi var ekki mikil nýjung á þessum tíma en hitt hefur vafalaust verið meira sjónarspil að meðfram voru brennd upp í nasirnar á Jóni níu galdrablöð í þeirri trú að mengunin myndi lækna hann af öllum galdraþönkum um ókomna framtíð.

 

Allar upplýsingar um þetta mál er að finna í Alþingisbókinni frá 1676 og þar segir að Magnús Jónsson sýslumaður Strandamanna hafi lagt dóm um mál Jóns Pálssonar fram til staðfestingar og til að fá ákvarðaða refsingu. Í dómnum segir að sýslumaður hafi sjálfur fundið níu pappírsblöð í hirslu Jóns en ekki er nefnt hvernig á þeim fundi stóð. Jón hafði viðurkennt fyrir yfirvaldinu að hafa skrifað blöðin sem á voru:

 

margslags óvenjulegir characteribus með tveimur tóustefnum og … vanbrúkun guðs heilaga nafns.

 

Það hefur sennilega bjargað Jóni að á Kaldrananesi höfðu sveitungar sakborningsins borið honum „meinlausa kynningu“ og talið var fullvíst að hann hefði ekki brúkað fjölkynngina til meins. Jón nýtur þess sem sagt við ákvörðun refsingar að hann var vel liðinn í Kaldrananeshreppi. Samkvæmt öðrum málum má ætla að niðurstaðan hefði verið önnur ef maðurinn hefði verið illa liðinn og sérstaklega ef hann hefði verið aðkomumaður.

 

Síðari hluti refsingarinnar er óneitanlega kímilegur í okkar augum þótt reykeitrun sé ekkert grín. Eitt fordæmi er þó þekkt fyrir henni í galdramálum 17. aldar.

 

Árið 1639, þegar fyrst fór verulega að brydda á galdramálum var Oddur Jónsson úr Árnessýslu (kallaður Sanda-Oddur) dæmdur til hýðingar fyrir stafamyndir og rúnastafi og „þau blöð brennd fyrir vitum hans.“ Skýrt er tekið fram að Oddur hafi ekki kveinkað sér við hýðinguna en þegar reykinn af blöðunum lagði fyrir vit hans á hann að hafa sagt:

 

Það veit Kreistur minn, ég þoli það ekki.

 

Oddur var ekki vel látinn maður og hafði áður staðið í ýmsum illdeilum sem komu fyrir alþingi.

Mál Klemusar hefst á Bassastöðum við Steingrímsfjörð í ágúst 1688 með því að Kolbeinn Jónsson, annar ábúenda á Hrófbergi, leggur fram kæru á hendur honum fyrir að „hafa með fjölkynngi og fordæðuskap ollið þeirri stórkostlegri veiki og kvalræðis krankleika“ sem hafði dregið konu hans, Guðrúnu Árnadóttur, til dauða.

 

Sýslumaðurinn Rögnvaldur Sigmundsson, sem búsettur var í Innri-Fagradal á Skarðströnd, tók málið fyrir á þriggja hreppa þingi að Hrófbergi þann 3. september sama ár og nefnir þá tólf menn í dóm. Tekin er fyrir kæra Kolbeins og nú hefur bæst við önnur frá hinum ábúendanum á Hrófbergi, Jóni Bjarnasyni, um að Klemus sé valdur að veikindum hinnar húsfreyjunnar, Ólafar Bjarnadóttur, sem meðal annars ollu því að hún lagðist í bæjaflakk.

 

Fyrst voru þingsóknarmenn spurðir álits á Klemusi og kom þá fram að hann hafi verið orðaður við galdra áður og haft á sér illt orð allt frá barnæsku. Tveir menn voru látnir sverja að þeir hefðu heyrt Klemus bendlaðan við galdra. Þá var Kolbeinn bóndi látinn færa rök fyrir ákærunni og kom í ljós að kuldi á milli þeirra Klemusar hafi byrjað út af tré sem rak á Hrófbergsfjöru og Kolbein taldi að Klemus hefði stolið. Kolbeinn sagðist hafa borið stuldinn upp á Klemus og þar með hafi óvild Klemusar í sinn garð hafist. Jafnframt lagði hann fram vitnisburð tveggja manna sem sýndi að veikindin væru af völdum Klemusar. Þeir Snorri Sveinsson og Oddur Jónsson, báðir Bjarnfirðingar, fullyrtu að Klemus hafi sagt þá er veikindi húsfreyjunnar á Hrófbergi komu til tals:

 

Ef það mál á mig gengur, og ég undir refsing kem, og komist ég lífs af, skal ég þess manns líf hafa, er frekast fyrir því gengur.

Tekið er fram í málsskjölunum að á meðan dómurinn sat hafi ein heimilisstúlka Kolbeins á Hrófbergi fengið:

 

vondan óvenjulegan snert með mási, ofboði og hljóðum, einnig með öngviti, hvað eð sýslumaðurinn með tveimur dómsmönnum sáu og upp á horfðu.

 

Daginn eftir 4. september var dómþinginu haldið áfram. Jón Bjarnason bar fram sinn vitnisburð um veikindi konu sinnar Ólafar Jónsdóttur. Síðan var Klemusi dæmdur eiður og honum gefinn tíu vikna frestur til að koma honum fram, en ákærendurnir fóru fram á að sýslumaður geymi Klemus því þeir hræðist heitingar hans. Aftur var þingað í málinu um vorið 1690 og málinu vísað til alþingis með tilvísan til ályktunar kóngs um að þau mál sem sem varða líf og æru skuli til æðra dómstóls. Niðurstaðan á Öxarárþingi varð sú að Klemus „skuli á lífinu straffast og í eldi brennast.“

 

Sýslumanni var falið að geyma fangann áfram og leita álits amtmannsins varðandi aftökuna. Rögnvaldi sýslumanni var skipað að geyma Klemus í ár meðan amtmaður leitaði álits í Kaupmannahöfn. Þaðan barst svo kóngsbréf árið eftir og var dóminum breytt í ævilanga útlegð. Klemus lést svo úr sótt í Kaupmannahöfn veturinn eftir.

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á pistil um Klemus og skúlptúrinn af honum sem stendur við Galdrasýninguna.

 

 

 

Eitt af því algengasta sem menn voru ákærðir fyrir var að vera valdir að veikindum (ca. 35 ákærðir) eins eða fleiri manna og/eða skepna. Flest mál sem látin voru niður falla voru af þessu tagi, líkur þóttu þá of litlar og annað kom ekki fram sem gaf tilefni til „frekari rannsaks“. Þó var nokkur fjöldi hýddur eftir áburð af þessu tagi þótt ekkert hafi sannast. Ákærendur virðast iðulega tilbúnir að sverja að þeir vissu ekki betur en að tiltekinn nágranni væri valdur að veikindunum þótt ástæðurnar komi ekki alltaf fram. Kannski gamlar væringar eða illilegt augnatillit við messu. Óútskýrð veikindi voru upphafið að sumum verstu brennumálunum svo sem Selárdalsmálunum, Þumlungsmálunum og jafnvel Trékyllisvíkurmálunum.

 

Dæmigert smámál af þessu tagi úr Strandasýslu er ákæra Guðrúnar Magnúsdóttur á Kaldaðarnesþingi 1660. Guðrún lýsir því yfir að hálfu fjórða ári fyrr hafi komið yfir hana „óvenjulegur veikleiki, svo ég var slegin um koll með skjálfta og ofboðningu fyrir hjartanu og allt mitt hold í ófrið“ og veikindin hafi hrjáð hana síðan með hléum. Hún telur „rök og líkindi“ til þess að krankleikinn sé af mannsvöldum og þykir líklegast að orsakanna sé að leita hjá Jóni Bernharðssyni. Guðrún nefndi líka Halldór Jónsson og Atla Sigurðsson, en hvað síðan gerðist vitum við ekki því fyrir utan ákæruna finnst ekkert í heimildum um þetta fólk.



Árið 1652 fór að bera á miklum og undarlegum veikleika meðal íbúa Trékyllisvíkur á Ströndum, einkum hjá kvenfólkinu. Í Ballarárannál er þessum undrum lýst svo:

 

„Það haust kom ókyrleiki og plága af vondum anda eður draugi í Trékyllisvík, með því móti, að opt á einum degi og mest í kirkjunni, þá prédikað var, vissu menn ei betur, en hann hlypi ofan í kverkar á fólki, svo það fékk mikla ropa og síðan ofurfylli, en þá það létti af fann það á sér ekkert mein; fengu það þær kvenpersónur, sem óspilltar píkur voru.“

 

Þorleifur Kortsson, sem nýverið hafði gifst inn í Svalbarðsætt sem þá réði mestu á Vestfjörðum, tók þetta sama ár við öllum sýsluvöldum í Strandasýslu og hélt vorið 1654 norður í Trékyllisvík til að rannsaka málið nánar. Í Fitjaannál segir við þetta ár að slík harmkvæli hafi verið á kvenfólkinu að þjónustugjörð hafi tæpast verið framin í Árneskirkju fyrir

 

þeirra hljóðum, mási, froðufalli og ofboði, svo opt voru úr kirkjunni út bornar 4, 5, 10, 12 og fleiri á einum helgum degi, hvað skelfilegt var, en miklu skelfilegra á slíkt að horfa og nálægur vera.

 

Fjórir menn ákærðu Þórð Guðbrandsson fyrir að vera valdur að ósköpunum sem yfir sóknina hafi gengið. Upphaflega virðist málið hafa snúist um „kvensnipt“ sem sýslumaður hafði dæmt að skyldi dvelja hjá einum ákærendanna en hún féll niður með undarlegum veikleika í hvert sinn sem hún fór af heimili Þórðar. Var Þórði dæmdur tylftareiður á vorþinginu, en á Alþingi um sumarið notaði Þorleifur tækifærið og spurðist fyrir um hvernig hann ætti að bregðast við ef Þórður félli á eiðnum. Hélt Þorleifur af þingi með þá niðurstöðu að ef Þórði dæmdist eiðurinn ósær væri hann rétttækur undir frekara rannsak.

 

Á haustþinginu í Árnesi voru málin orðin flóknari. Þá játaði Þórður á sig, „óneyddur án allra þrenginga“ að hafa séð djöfulinn í tófulíki og sært hann til Trékyllisvíkur og var dæmdur til dauða fyrir. Daginn eftir var dómþing sett aftur, nú gegn Agli nokkrum Bjarnasyni. Hann var viðstaddur í járnumog viðurkenndi að hafa drepið sauð með fjölkynngi, gert samband við djöfulinn með ristingum, naglaskurði og blóðvökum. Sagði Egill að hann gæti látið fjandann útrétta fyrir sig hvað sem hann vildi og var hann einnig dæmdur til dauða. Þeir voru brenndir saman á báli þann 20. september.

 

Á þingunum þar sem mál Þórðar og Egils voru tekin fyrir kom fram að mikið galdraorð fór af Grími nokkrum Jónssyni, en Þórður Guðbrandsson hafði m.a. lýst því yfir að Grímur væri mestur af þeirra í göldrum. Voru 12 menn nefndir í dóm um mál hans að Árnesi og var það tekið fyrir 23. og 25. september.

 

Grímur viðurkenndi að hafa drepið kind með göldrum, manað djöfulinn „illt að gjöra“ og sagðist ennfremur hafa hrakið ábúandann frá Reykjarfirði með skaðlegu rúnaspjaldi og haft galdravers og særingar um hönd. Jafnframt viðurkenndi hann ótilneyddur hórdóm með þremur vinnukonum. Fyrir þetta var hann brenndur á báli 25. september.

 

Kistan í Trékyllisvík

Aftökustaður þremenninganna er þekktur, Kistuvogur eða Kista, sem er sérkennileg klettagjá á milli Litlu-Ávíkur og Finnbogastaða. Kolgrafarvík

sem er litlu utar er einnig nefnd í heimildum sem brennustaðurinn.

 

Þrátt fyrir brennurnar linnti ekki harmkvælum fólksins í Trékyllisvík nema um skamma hríð. Næst var Margrét, dóttir Þórðar Guðbrandssonar, borin galdri

en hún strauk þá úr Strandasýslu. Á Alþingi 1656 var lýst eftir henni, með þessum hætti:

 

Vel að meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær og skynsöm í máli; kveður nærri kvenna best.

 

Næstu árin var mikið málastapp vegna Margrétar og henni m.a. dæmdur tylftareiður árið 1659, þar sem helmingur eiðvættanna sór gegn henni. Ljóst er þó að menn hafa verið afar ósammála um sekt hennar. Presturinn í Árnesi skrifaði vitnisburð eða varnarskjal henni til handa og lýsti því afgerandi yfir að hann vildi ekki láta gera henni neinn. Margrét hreinsaði sig loks með tylftareiði í 18. ágúst 1662 þótt strangt til tekið hafi hana skort einn eiðvott. Alþingi leyfði Þorleifi Kortssyni að gera þessa miskunn. Hún sór eiðinn synjunareið fyrir sýslumanni á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð og sönnuðu 12 konur hann með henni. Var hún þá gift séra Tómasi Þórðarsyni á Stað á Snæfjallaströnd og hefur líklega verið í skjóli hans þessi ár. Tómas missti kjól og kall fyrir barneign þeirra fyrir hjónabandið. Svona hljóðaði eiður Margrétar:

 

Til þess legg eg Margrét Þórðardóttir hönd á helga bók, og það segi ég almáttugum guði, að eg hefi aldrei, úng eða gömul, á allri æfi minni galdur lært, ekki heldur með galdri eður fordæðuskap mein gert eður gera látið nokkurri karlmanns eður kvenmanns persónu, úngri né gamalli, ekki heldur gripum, fénaði eða fjár hlutum nokkurs manns, né það af nokkrum feingið að gera, og í eingum ráðum eður vitund þar um verið, hvorki með Þórði heitnum Guðbrandssyni né neinum öðrum, og að svo stöfuðum eiði.

 

En fárinu í Trékyllisvík lauk ekki með brennunum þrem eða máli Galdra-Möngu. 1668 minnast annálar aftur á ókyrrleika í Trékyllisvík og sömuleiðis árið eftir. Þá um vorið ákærir Sigmundur Valgarðsson Eyjólf Jónsson fyrir galdra. Þegar tekið er til við að rannsaka málið kemur í ljós að mikið galdraorð fer af Sigmundi sjálfum. Víkurbúar þykjast nú vissir um að annar eða báðir eigi einhverja sök á aðsókninni í kirkjunni. Málið fer loks fyrir þing og þar þykir mönnum líklegt að þeir séu ekki saklausir en þar eð hvorugur játar nokkuð halda þeir lífi. Hins vegar eru þeir hýddir, Sigmundur þrisvar og Eyjólfur tvisvar, „sem næst gangi lífi“.

 

Ekki var öllum ókyrrleika í Trékyllisvík þó lokið því við árið 1680 segir Kjósarannáll að í Trékyllisvík hafi presturinn ekki getað þjónustað í kirkjunni, en eftir það er fátt að frétta úr Árneshreppi fyrr en í lok 17. aldar þegar harðindi og mannfellir skella yfir.

 

Í þjóðsögum er greinileg sú trú að stutt sé frá skólalærdómi til fjölkynngi og kannski hafa lærðir menn, sumir a.m.k., ýtt undir þessa hugmynd. Það er líka mögulegt að þau galdramál sem upp komu í skólum á 17. öld eigi sinn þátt í þessari mynd.

 

Á 17. öld er vitað um fjögur galdramál sem upp komu í Skálholti. Eitt þeirra var ákæra skólapilts á kirkjuprestinn á staðnum en hin snúast um kukl skólapilta. Ekkert þessara mála kom fyrir veraldlegan dómstól og allar líkur eru á að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi lagt sig allan fram um að halda þessum málum innan kirkjunnar. Biskup gerði sitthvað til að sporna við hysteríunni, sbr. þá staðreynd að enginn prestur sem lenti í galdramálum þurfti að þola sambærilega refsingu við þá sem veraldlegir dómstólar lögðu á.

 

Fyrsta málið kom upp 1650 eða 1651. Þá var 13 eða 14 skólapiltum vísað úr skóla eftir að þeir höfðu verið flengdir fyrir meðferð galdrastafa og rúnablaða. Flesta þessara pilta tók Brynjólfur aftur inn í skólann síðar, en annars er tiltölulega lítið vitað um þetta mál, sérstaklega vegna þess að í Bréfabók Brynjólfs biskups vantar síður frá þessum árum. Hins vegar er til vitnisburður biskups frá 1657 um Árna Ketilsson af Austfjörðum sem bendir til þess að Árni hafi verið í þessum flokki. Vitnisburðurinn er jákvæður þrátt fyrir „óleyfilega kunnáttu“ sem Árni hafði stundað og svo virðist sem biskup hafi haft pilt í þjónustu sinni í 4 ár eftir að hafa rekið hann úr skóla. Aðrar heimildir segja að flestir piltanna hafi verið teknir í skólann árið eftir.

 

Árið 1664 bar skólameistarinn í Skálholti fyrir Brynjólf rifið kver með ljótum og óvenjulegum characteribus sem á voru 80 galdrastykki. Kverið hafði einn skólapilta fundið í rúmi sem hann deildi með Einari Guðmundssyni frá Straumfirði á Mýrum. Einar var kallaður fyrir biskup og viðurkenndi að hafa skrifað hluta kversins en sagði hinn hlutann skrifaðan af frænda biskups, Bjarna Bjarnasyni frá Hesti í Önundarfirði. Þegar Bjarni var kallaður fyrir viðurkenndi hann að hafa skrifað blöðin í Kálfeyrarverstöð við norðanverðan Önundarfirði eftir Erlingi Ketilssyni frá Þórustöðum. Erlingur væri hins vegar sigldur til Englands. Bjarni neitaði að hafa reynt að nota blöðin við kukl eða sýnt öðrum en Einari þau og sagðist hafa beðið hann að brenna þau. Brynjólfur biskup vísaði piltunum úr skóla og skrifaði jafnframt lögmanni um málið. Kverið sendi hann lögmanni hins vegar ekki fyrr en þeir voru löngu komnir vestur og sigldir til Englands. Einar dó þar en Bjarni kom aftur 1667, bjó fyrst í Önundarfirði en flutti síðan að Skarðsströnd og varð lögréttumaður og lögsagnari. Efnisyfirlit galdrakversins er að finna í Bréfabókum Brynjólfs biskups.

 

Þess má geta að faðir Bjarna þessa, Bjarni Jónsson Magnússonar prúða sem bjó á Hafurshesti er þekktur úr þjóðsögum fyrir galdur auk þess sem hann og kona hans ákærðu Bjarna nokkurn Bjarnason fyrir að hafa valdið veikindum frúarinnar. Sá Bjarni var brenndur á alþingi 1677.

 

Árið 1669 var Jón Sigurðsson yngri, lögmannssonur, við nám í Skálholti. Þá var þar líka fögur hefðarmey, Ragnheiður Torfadóttir, fósturdóttir Brynjólfs biskups. Jón varð yfir sig ástfanginn og sömu sögu var að segja um Loft Jósepsson kirkjuprest. Út af þessum skotum spratt þræta og allt í einu veiktist Jón af „niðurfallsflogum“. Hann varð frá skóla einhvern tíma en alltaf þegar hann kom í Skálholt og sá Ragnheiði fékk hann flog á ný. Jón þóttist vita ástæðuna og kærði Loft prest fyrir galdur með fulltingi föður síns. Úr varð langt málastapp þar sem fullyrt var að Loftur eða bróðir hans hefðu sett galdrastaf í rúm Jóns. Lögmaður gekk hart eftir málinu en biskup sá að sjálfsögðu til þess að málið færi ekki fyrir veraldlegan dómstól. Lofti var dæmdur eiður sem hann féll á en ekki er ljóst hvað síðan gerðist nema hvað Loftur fór af landi brott. Löngu seinna kom hann aftur og varð kirkjuprestur í Skálholti á ný. Jón eignaðist hins vegar Ragnheiði, þó ekki fyrr en biskup var látinn, varð sýslumaður í Borgarfirði og dæmdi þar Þorbjörn Sveinsson sem brenndur var 1677.

 

Galdramál kom aftur upp í Skálholtsskóla í biskupstíð Þórðar Þorlákssonar og þurftu piltarnir fjórir sem þá áttu sökina að taka opinbera aflausn í dómkirkjunni. Tveir piltanna fengu aftur pláss í skólanum, en annar hinna var Björn Þorleifsson systursonur Þorleifs lögmanns Kortssonar. Björn varð síðar lögsagnari í Húnavatnssýslu. Ekki er vitað um nein galdramál sem komu upp í Hólaskóla á 17.öld en þau voru hins vegar viðloðandi skólann eftir að Galdra-Loftur dvaldi þar um 1720 og fleiri fjölkunnugar persónur í þjóðsögum voru þar við nám á eftir honum.

Brenna feðganna Jóns Jónssonar eldri og Jóns Jónssonar yngri sem búsettir voru á Kirkjubóli í Skutulsfirði er sennilega eitt þekktasta galdramál 17. aldar. Síra Jón Magnússon sem kallaður var þumlungur, prestur á Eyri, sótti þá til saka fyrir að vera valdir að veikindum sínum. Eftir nokkurra mánaða varðhald játuðu feðgarnir á sig ýmiskonar kukl á þingi á Eyri (núverandi Ísafjarðarkaupstað), en þangað voru þeir fluttir í járnum. Eftir töluvert þóf þar sem sr. Jóni þótti Magnús Magnússon sýslumaður og annálaritari á Eyri í Seyðisfirði atkvæðalítill og sárbændi Þorleif Kortsson um að koma vestur og ganga í málið voru þeir feðgar dæmdir til dauða eftir að hafa játað á sig kukl og brenndir í apríl 1656, en prestur fékk skaðabætur af fé þeirra og eignum.

 

Síra Jón var þó ekki sáttur við málalyktir. Sneri hann sér því að Þuríði, dóttur Jóns eldri, ákærði hana fyrir galdur og lýsti því yfir að hún væri völd að sjúkdómum sem áfram hrjáðu hann eftir brennu feðganna. En nú var eins og öðrum valdsmönnum fyndist nóg að gert. Báðir sýslumennirnir og Gísli Jónsson í Reykjarfirði sem gegndi lögsagnarastörfum fyrir Þorleif í Ísafjarðarsýslu, virðast hafa tekið fremur dræmt undir kröfur Jóns. Þó var málið tekið fyrir bæði í héraði og á Alþingi 1658, þar sem Þuríði var gert að hreinsa sig með eiði sem hún kom fram.

 

Mál Þuríðar Jónsdóttur er býsna sérstakt. Síra Jón bar hana galdri hvað eftir annað, en Jón Jónsson, prófastur í Holti Önundarfirði og kona hans Halldóra Jónsdóttur skutu yfir hana skjólshúsi og aðstoðuðu með ýmsum hætti. Þuríður náði að hreinsa sig af ákærum síra Jóns, en presturinn hélt ákærum sínum engu að síður fram á Alþingi árið eftir. Þá kærði Þuríður klerkinn fyrir ofsóknir og rangar sakargiftir.

 

Presturinn brást við með því að skrifa heilmikið varnar- og réttlætingarit, Píslarsögu síra Jóns Magnússonar, þar sem hann lýsir fjálglega þeim göldrum sem hann og heimilisfólkið höfðu orðið að þola. Frægð Jóns þumlungs og Kirkjubólsmálsins byggist nær eingöngu á þessari einstöku samtímaheimild sem Píslarsagan er. Þó sýnir sagan að baki bókinni að hún er vandmeðfarin. Óljóst hlýtur að teljast hvað raunverulega lá að baki málatilbúnaði síra Jóns – trúði hann staðfastlega að feðgarnir og síðan Þuríður væru völd að veikindum sínum eða hafði hann meiri áhuga á eigin fjárkröfum?

 

Um orsakir galdrafársins á Eyri hefur einnig ýmislegt verið ritað út frá nútíma sjónarmiðum. Þá hafa menn gefið sér að vissulega hafi verið um veikindi að ræða og viljað finna á þeim aðrar skýringar en galdur. Meðal skýringa á upplifunum Jóns og heimilisfólks hans er næringarskortur, illkynjuð flensa og neysla á skemmdu korni, en við ákveðnar aðstæður getur myndast í því sveppagróður sem veldur ofskynjunum. Svona lýsir Jón sjálfur kvölum sínum:

 

„Stundum var eg svo sem undir ofurþungu fargi kraminn og klesstur, svo sem þá maðkur er marinn eða ostur fergður, svo að megn og máttur var allur í burt tekinn, og í því fargi var þess á milli svo að finna sem líkaminn væri pikkaður með brennandi eða glóandi smánálum, svo þétt um holdið svo sem til að jafna, er menn finna til náladofa. Stundum fannst mér eg lagður upp í þá síðuna, sem eg lá á, svo sem með flein, sem mér fannst ganga í gegnum lífið á milli rifjanna, svo eg hugði eg mundi dauða af bíða. Stundum lá eg í báli, svo eg tók andköst, svo mér fannst ekki betur en logi og báleldur léki um allan líkamann og sérdeilis brjóstið, og blossinn fannst mér fram af fingrunum líða, svo eg vissi ekki annað en eg mundi til ösku uppbrenna, svo mig undraði að holdið var óskaddað. Sundum lá eg í nístingskulda. … Stundum var holdið utanum beinin svo til að finna svo sem krúandi maðkaveita, svo sem vellandi og spriklandi væri með hræðilegum ofbjóð. En samt var þetta svo sem hégómi að reikna hjá þeim innri kvölum …“

 

Í dómsorðum um þá feðga Jón Jónsson og Jón Jónsson er þetta að finna: „

 

Því fyrir þessar greinir og aðrar fleiri, sem vorum dómi mega til styrktar vera, að heilags anda náð til kallaðri, oss í dómsætum sitjandi, þá dæmum vér fyrnefndir dómsmenn með fullu dómsatkvæði í nafni vors herra Jesú Kristí, hverjum gefið er alt vald á himni og jörðu, og aptur mun koma að dæma lifandi menn og dauða, þessa þrátt nefnda menn, Jón eldra og Jón ýngra Jónssyni feðga, báða lífið forbrotið hafa og sanna dauðamenn, og sá dauði skuli svo á þá lagður vera, að í loganda báli brenndir verði til ösku eptir því, sem hér í landi við geingist hefur og öðrum framandi, þar þeir eru sannprófaðir óbótamenn fyrir alla ofan skrifaða óhæfu.“

Einhvern tíma fyrir 1634 höfðu prestarnir í Brautarholti á Kjalarnesi og í Höfnum samband sín á milli varðandi orðróm sem uppi var um Álfdísi Jónsdóttur á Kjalarnesi og móður hennar Guðrúnu Jónsdóttur í Höfnum. Sögurnar fullyrtu að Álfdís hefði erft tilbera eftir móður sína og brúkaði fyrirbærið. Prestarnir hafa ekki þorað annað en grípa til einhverra ráða og komið sér saman um að neita þeim mæðgum um heilagt sakramenti. Þannig hafa málin staðið í einhvern tíma áður en yfirvöld fóru að fjalla um málið, og til er bréf til prófastsins í Höfnum frá Gísla biskup í Skálholti þar sem hann segist ekki vita betur en rétt sé að setja menn út af sakramentinu „fyrir alrómað rykti,“ en hins vegar megi menn ekki „vera svo dauflegrar samvisku að rannsaka það ekki … því djöfullinn gerir ekki að gamni sínu við oss.“

 

Árið 1635 fara prestarnir þess svo á leit á prestastefnu að fá leiðbeiningar um hvað þeir eigi að gera varðandi mæðgurnar því það að fá ekki að ganga til altaris árum saman var náttúrulega stórvarasamt. Prestum er kynntur eiður um að rykti sé almennt, en einnig kemur fram að sýslumaður telur að þarna sé um „líflaust rykti“ að ræða, þ.e. að engar sannanir séu fyrir hendi. Grunur var ekki nóg svo mæðgunum var aftur hleypt að grátunum, en hvort málinu var þar með lokið vitum við ekki.

 

Þetta er eina tilberamálið sem upp kom á 17. öld en ásakanir um slíkt virðast hafa komið fram bæði fyrir og eftir brennuöldina.

Um áramótin 1668-69 veiktist „sú guðhrædda“ maddama í Selárdal í Arnarfirði, Helga Halldórsdóttir, af undarlegum sjúkdómi. Varð hún fyrir „ærið mikilli árás og ofsókn af illum anda“ og lá veik fram á sumar.

Eiginmaður Helgu, síra Páll Björnsson prófastur, var þá talinn einn lærðasti klerkur á landinu. Hann samdi árið 1674 rit um galdur sem heitir Character bestiæ og hefur verið gefið út undir nafninu Kennimark kölska. Í því má fræðast um djöflatrú þá sem kirkjunnar menn börðust gegn og endurspeglast höfuðrit galdrafársins í Evrópu, Nornahamarinn, í riti Páls. Þessi galdur á hins vegar sáralítið skylt við íslenska kuklið eins og það birtist í galdramálum, skræðum og þjóðtrú. Hálfbróðir síra Páls var Eggert ríki á Skarði, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en hann var atkvæðamikið yfirvald þegar galdramál voru annars vegar. Þeir bræður höfðu báðir dvalið í Danmörku og Norður-Þýskalandi og þekktu galdrafárið í Evrópu.

Eftir að maddama Helga lagðist í rúmið gekk yfir Selárdal skæður draugagangur, svo þau hjónin og allt þeirra fólk flúði staðinn um tíma. Helga þóttist nú sjá hver orsökin fyrir ókyrrleikanum væri. Jón nokkur Leifsson hafði sóst eftir að kvænast einni af þjónustustúlkum hennar, en Helga hafði lagst eindregið gegn því. Sá drengur var nú tekinn og yfirheyrður og virðist hafa viðurkennt eitthvað kukl, a.m.k. að hafa reynt að kynnast því. Eggert sýslumaður gekk sköruglega fram í málinu og Jón var brenndur vestra að gengnum dómi árið 1669.

Fyrir dauða sinn hélt Jón því fram að Erlendur nokkur Eyjólfsson, sem ein heimild segir að hafi verið af Ströndum, hefði kennt sér galdur. Af þessu tilefni mun sr. Páll hafa sent bréf til lögmannanna, Þorleifs Kortssonar og Sigurðar Jónssonar, þar sem hann lýsir Jón valdan að „öllum þeim kvalafeiknum“ sem yfir heimili hans hafi gengið, og lýsir því yfir að „hans skólameistari“ hafi kennt honum hvernig átti að bera sig að. Erlendur sé „sekkur djöfulsins, úr hverjum lekur það, hver vondur girnist, meistari þeirra, sem lært hafa og læra vilja, uppsprettubrunnur alls djöfuls í þeirri sveit.“ Varla var við öðru að búast en að slík orð úr þessari átt hefðu áhrif og Erlendur var brenndur sama ár eftir að hafa gengist við að hafa framið fjölkynngi og kennt öðrum.

Næsta mál sem tengist Selárdal var mál Jóns Úlfssonar sem ryktaður hafði verið um galdur en hann þverneitað öllu slíku og bauðst til að sverja að „hann viti sig ekki um alla sína lífdaga hafa tekið líf eður heilsu af nokkurri lifandi skepnu með göldrum eða gerningum, signingum eður særingum.“ Jón Úlfsson hafði verið heimilismaður séra Páls í Selárdal. Sr. Páll skrifaði bréf til Jóns og álítur greinilega að hann eigi sök á gjörningunum á heimili prófasts. Í bréfinu er hann að sýna Jóni fram á rétta guðrækilega leið. Eggert sýslumaður fer með málið á þing 1670 því Jón vill ekkert játa. Þótt ekkert sannaðist þótti samt öruggara að hýða Jón sem næst gekk lífi áður en hann var sendur heim aftur. Magnús Magnússon sýslumaður og annálaritari á Eyri í Seyðisfirði (tvö börn hans voru gift börnum sr. Páls) segir að um Jón sé það sagt „að hann sé ei betri en áður“.

Fimm árum seinna komu ný Selárdalsmál fyrir dóm og í það skipti var maddama Helga ekki ein um að verða veik heldur og synir þeirra hjóna. Nú voru tveir menn ákærðir, dæmir og brenndir, Magnús Bjarnason og Lassi Diðriksson. Lassi neitaði öllum sakargiftum harðlega, en var ályktaður sekur vegna þess að hann kom ekki fram eiði. Sagt er að illa hafi gengið að brenna hann, eldurinn hafi slokknað þrisvar vegna stórkostlegrar rigningar. Þá fótbrotnaði Eggert Björnsson sýslumaður á leið af þingi og þótti alþýðu það benda til þess að Lassi hefði verið brenndur saklaus.

Enn veiktist maddaman í Selárdal árið 1678, og um veturinn skrifar sr. Páll Þorleifi lögmanni og taldi efalaust að Þuríði Ólafsdóttur og Jóni Helgasyni syni hennar væri um að kenna og tilgreindi rök og líkindi fyrir þessari skoðun sinni. Ekki er vitað hver þessi líkindi voru. Í Dómabók Þorleifs Kortssonar kemur fram að hann hefur skrifað sýslumönnunum Birni Gíslasyni og Eggert bróður Páls og farið fram á að þeir rannsökuðu málið til hlítar. Á Alþingisbókinni er að skilja að Þorleifur hafi kveðið upp dóm í málinu og mæðginin verið tekin af lífi þá strax um vorið.

Tveir samtímaannálar nefna þetta mál. Annar þeirra er Mælifellsannáll sem skrifaður er af Ara Guðmundssyni prófasti í Skagafirði. Hann furðar sig á málinu því Þuríður hafi verið búsett þar í sveit til 1677 og aldrei verið orðuð við galdur. Hins vegar hafi Jón sonur hennar verið illa kynntur en þó ekki fyrir galdur. Síðan segir: „Skyldi sonur hennar hafa sagt, að hún hefði farið yfir vatnsföll öll norðan fyrir utan hesta eða ferjur, og brúkað galdur til, og svo hefði hún galdra með að fara. Var lygum hans trúað og síðan tekin bæði og brennd, hvað hann meinti, eigi mundi verða.“

Magnús Magnússon á Eyri í Seyðisfirði, frændi séra Páls segir um málið í Eyrarannál: „Sama vor brennd norðlensk mæðgin í Barðastrandarsýslu, Þuríður og hennar sonur Jón Þórðarson (Jón var víst Helgason), valdandi veikleika Helgu Halldórsdótur í Selárdal.“ Annað er ekki vitað um málsatvik en það er ljóst að þau mæðgin hafa fyrst og fremst verið brennd fyrir orð prófastsins í Selárdal og sennilega ekki unnið sér annað til óhelgis en að vera utanhéraðsfólk.

Síðasta málið tengt Selárdal var ákæra á Þorstein Helgason fyrir að skrifa og nota galdrakver sem fannst í Selárdal 1686. Þorsteinn strauk og var lýst eftir honum á Öxarárþingi árið eftir en annað er ekki vitað um málið.

1683 kom enn upp mál sem tengist Selárdalsfólki. Nú var Sveinn Árnason dæmdur til dauða á Nauteyrarþingi við Djúp, en málið reis vegna veikinda Helgu dóttur þeirra Selárdalshjóna sem þá var gift Sigurði prófasti Jónssyni í Holti í Önundarfirði. Í samtímaheimildum er Helga sögð hafa verið „eyðslusöm og mjög drykkfelld og taugaveikluð.“ Sú sögn hefur lifað við Djúp að meiningin hafi verið að fara með Svein á alþingi, en þegar komið var í fyrsta skóginn á leiðinni nenntu þeir ekki lengra og hlóðu köst í Arngerðareyrarskógi. Í framhaldi af þessari brennu lét danska yfirvaldið á Íslandi þau boð út ganga að allir líflátsdómar skyldu sendir til Kaupinhafnar til staðfestingar áður en aftaka færi fram.