Sagan  

og sam-

félagið.

Sagan  

og samfélagið.

Opnun Galdrasýningarinnar var samvinnuverkefni og stuðningur og velvilji samfélagsins á Ströndum hefur verið undirstaða velgengni sýningarinnar og lykill að varðveislu og miðlun menningararfsins. Svo er alltaf gaman að bralla eitthvað með heimafólki – eins og sjá má. 

Hugmynd kviknar

Hugmyndin að Galdrasýningunni kom fyrst fram árið 1996 og var þróuð áfram með rannsóknarvinnu og hönnun.


Upphafsmenn sýningarinnar voru allir heimamenn sem höfðu þá sýn að skapa aðdráttarafl fyrir fólk að heimsækja Strandir og að sýningin væri dreifð svo fólk færi um allt svæðið. Því má segja að hún sé í grunninn byggðaþróunarverkefni en á sama tíma metnaðarfullt menningarverkefni.


Ljóst var að viðfangsefnið var vandmeðfarið og því mikilvægt að vanda til verka á framsetningunni. Árni Páll Jóhannsson, leikmyndahönnuður, var því fenginn til að hanna sýninguna.

Galdrasýningin fékk til umráða gamalt pakkhús Kaupfélags Steingrímsfjarðar og fór mikil vinna í að gera húsið klárt og mikill metnaður lagður í útlit þess að utan sem innan.

 

Galdrasýning á Ströndum var svo opnuð með pompi og prakt á Jónsmessu 23. júní árið 2000.

 

Kaupfélagið átti tvö gömul pakkhús við höfnina sem ekki voruð notuð lengur. Eftir því sem umsvif sýningarinnar hafa aukist, hefur starfsemin færst í hitt pakkhúsið að auki. Ráðist var í þá vinnu að hreinsa það út, gera upp og setja upp aðstöðu fyrir veitingasölu.

Galdrasýning á Ströndum fagnaði 20 ára afmæli árið 2020. 

Af þvi tilefni stendur yfir afmælissýning á veggjum veitingastaðarins Galdurs. 

Annar áfangi: kotbýlið

Bygging kotbýlisins

Skipulagning og hönnun á Kotbýli kuklarans, öðrum hluta Galdrasýningarinnar, hófst strax opnunarárið. Sýningunni er ætlað að gefa innsýn í heim þeirra sem voru dæmdir fyrir galdur en það var aðallega fátækt alþýðufólk sem greip til kukls og hjátrúar í harðri lífsbaráttu sinni. Húsið er byggt eftir byggingaraðferðum 17. aldar og fór mikil vinna í að setja upp sýninguna.  

Þar léku sjálfboðaliðar stórt hlutverk þar sem margar hendur þarf til að hlaða hús úr torfi og grjóti. 

Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði var svo formlega opnað 23. júlí 2005.

Ægishjálmur

Glettur í gegnum tíðina

Quidditch-mót á Hamingjudögum

Á Hamingjudögum á Hólmavík sumarið 2020 var haldið Quidditch-mót á túninu við Galdrasafnið þar sem fólk á öllum aldri háði harða baráttu um að verða galdrameistarinn. Keppnin tókst vel til og enginn slasaðist alvarlega.

Galdrastef á Ströndum

Galdrastef á Ströndum var dulmögnuð menningar- og fjölskylduhátíð sem líður gestum seint úr minni. Hátíðin var haldin í Bjarnarfirði 10.-12 ágúst 2001. Meðal tónlistarfólks sem kom fram voru Sigurrós sem þá höfðu nýlega gefið út hina sögufrægu plötu sína Ágætis byrjun

galdrastef

Ráðstefna um galdra og samfélag

„Galdrar og samfélag á miðöldum“ var alþjóðleg ráðstefna sem haldin var á Laugarhóli í Bjarnarfirði árið 2006. Þeir sem vilja fræðast meira um efni ráðstefnunnar er bent á að hægt er að kaupa bókina: Galdramenn. Galdrar og samfélag á miðöldum hjá hugvísindadeild Háskóla Íslands. Bókin inniheldur greinar sem byggjast á fyrirlestrum af ráðstefnunni. 

Galdrar og samfélag

Heiðið blót í garðinum

Árið 2005 var viðbót við Galdrasýninguna á Hólmavík opnuð þar sem til sýnis er hlautbolli sem fannst í Goðdal og er eini gripurinn sem hefur fundist hérlendis sem hægt er að tengja heiðnum blótsiðum. Opnunarathöfnin var 2. júlí þar sem Hilmar Örn Hilmarsson, Allsherjargoði, hélt heiðið blót í galdragarðinum. 

Blót

Leiksýningar á Galdraloftinu

Sumarið 2007 hélt framkvæmdastjóri Galdrasýningarinnar sagnadagskrána Álfar og tröll og ósköpin öll þrjú kvöld í viku. Sumarið 2009 og hluta sumars 2010 var brúðuleikhúsið Dúkkukerran með brúðuleikritið Þjóðbrók og hitt hyskið á Galdraloftinu, efri hæð sýningarinnar.

Minnismerki um Baskavígin 

Galdrasýningin, í samstarfi við Baskavinafélagið á Íslandi, setti upp minnismerki um Baskavígin við Galdrasafnið árið 2015. Þá voru liðin 400 ár frá því að rúmlega 80 baskneskir hvalveiðimenn sem lent höfðu í skipsbroti voru drepnir á Vestfjörðum án dóms og laga.

Karókíið

Hólmavík hefur komist á hefð fyrir árlegri karaoki keppni þar sem að einstaklingar og fyrirtæki taka þátt og þar hefur Galdrasýning ekki látið sitt eftir liggja. Sigurður Atlason, fyrrum framkvæmdastjóri, átti þar margar ógleymanlegar framkomur og Anna Björg, sem sinnir því starfi núna, hefur tekið við keflinu með söngflutningi með galdraívafi. 

Jóladagatöl

Hnokkur ár gerði Galdrasýningin jóladagatal. Eitt árið var það með jólasveinunum sem sýndu sig í Kotbýli kuklarans, annað árið tók brúðustrákurinn Tumi viðtöl við leikskólabörnin og í enn annarri útgáfu var dagatal með endurminningum Strandamanna. 

Krummarnir

Sumrin 2004-2006 hýsti Galdrasýningin krummapar. Krummar Galdrasýningar á Ströndum eru að sjálfsögðu nefndir eins og öll önnur dýr sem eru undir mannahöndum til lengri eða skemmri tíma. Fyrsta sumarið fengu krummarnir nöfnin Galdra-Manga og Galdra-Imba en þeir voru nefndir í höfuðið á meintum galdrakonum á 17. öld. Sumarið 2005 fékk sýningin krummabræður sem nefndir voru eftir þeim Jóni lærða og Jóni glóa en seinasta sumarið voru krummarnir nefndir eftir tveimur kunnustu prestum á 17. öld, þeim Séra Páli Björnssyni og Síra Brynjólfi Sveinssyni biskupi.


Sigurður Atlason greindi frá í dagbók á vefnum: 

Krummabræðurnir Brynjólfur biskup og séra Páll eru komnir út undir bert loft en nauðsynlegt var að halda þeim inni vegna tíðarfarsins undanfarið og vegna þess hve uppburðalitlir þeir hafa verið en þessir krummar hafa komið afar seint úr eggi. Þeim leið að vonum vel í sólinni og svölum gustinum í gær þar sem þeir kúrðu og viðruðu sig í útilaupnum við Galdrasýninguna á Hólmavík. Þeir eru farnir að snyrta sig sjálfir og og vaxtaverkirnir hljóta að vera miklir en það má nánast sjá þá stækka. Brynjólfur biskup er ennþá talsvert minni og sr. Páll heldur stundum að bróðirinn sé biti handa honum, en allt sem er rétt að þeim er matur í þeirra augum.

Skoðið líka: