Handritið Huld – ÍB 383 4to
Handritið Huld var ritað 1847 af Geir Vigfússyni á Akureyri (d.1880). Eins og margar síðara tíma skræður er uppistaðan safn leturtegunda, bæði leyni- og rúnaletur auk málrúna, alls um 300 stafróf. Geir hefur haft fyrir sér a.m.k. þrjú gömul handrit og nefnir að eitt þeirra hafi verið skrifað á Seltjarnarnesi um 1810. Í síðari hluta bókarinnar er að finna 30 galdrastafi með textum. Alla þá galdrastafi sem hér eru sýndir má finna í bók Halldórs S. Stefánssonar: Galdrastafir og náttúra þeirra, en textinn er þar frábrugðinn.
Ljósm.: Landsbókasafn – Háskólabókasafn
Hlíðarendabók – AM 158 4to
Íslenskir galdrastafir eiga margir hverjir rætur að rekja til fornra rúna. Þeir hafa verið þekktir frá því löngu fyrir brennuöld og fyrir kemur að galdrastafir séi skrifaðir á spássíur gamalla handrita. Svo er um þetta skinnhandrit sem er frá því um 1500 og nefnt er Hlíðarendabók. Það mun hafa verið í egu Vísa-Gísla sýslumanns á Hlíðarenda í Fljótshlíð.
Hlíðarendabók hefur að geyma Jónsbók, Kristinna laga rétt og fleiri lagatexta. Yfirleitt var meira lagt í gerð lögbókarhandrita og þau hafa oftar en ekki varðveist betur en sagnahandrit. Á þessa síðu handritsins hefur verið teiknaður upp galdrastafur neðan við textann (e.t.v. af skrifaranum) og síðan hefur verið gerð tilraun til að skafa hann af. Dæmi um álika spássíukrot finnast í fleiri fornum handritum, t.d. Heimskringluhandritinu Codex Frisianus.
(Ljósm.: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar.)
Galdrakver frá um 1820
Í galdraskræðum má finna ráð til að framkvæma ótrúlegustu hluti. Í þessu galdrakveri sem er frá því um 1820 er til dæmis kennt hvernig skuli bera sig að ef maður vill að kisa verði kettlingafull án maka, að fiskar safnist saman á einn stað, að æfinlega haldist með brúðhjónum og hvernig þekkja skuli dauðamerki.
Stokkhólmsskræðan – Lbs 764 4to
Sumar galdraskræður geyma málrúnir og margar tegundir leturs. Flestar þessar bækur eru síðara tíma verk þótt málrúnir, bandrúnir og letur finnist í gömlum handritum. Þessi skræða frá því um 1820 er sérstök að því leyti að þótt heiti galdranna séu auðlesinn er allur texti á leyniletri.
Til að lesa sér til um hvernig fara eigi að því að vita það maður vill eða hvaða merkingu Ónæðis stafur hefur, þarf að geta lesið tvö letur. Sá sem vildi kunna galdur þurfti því að vera fjölkunnugur í fleiri en einni merkingu.
Ljósm.: Landsbókasafn – Háskólabókasafn
AM 247 8vo
Meðal þess sem er að finna í handritasafni Árnastofnunar eru brot úr nokkrum galdraskræðum frá fyrri hluta 19. aldar. Hér að neðan er opna úr einni þeirra. Þar er lýst þjófagaldri sem er kunnur bæði úr eldri og yngri skræðum þótt textnn sé ekki alltaf sá sami.
Einn áreiðanlegur máti að vita hver frá sér stelur, Tak óbrúkaða munnlaug og graf Þórshöfuð á botninn á henni með hníf sem … og við tekur leyniletur.
Á þessari síðu er stafurinn sjálfur, Munnlaugarstafur eða Þórshöfuð og þar næst upphafið að næsta galdri – Að sjá stjörnur um daga.
Ljósm.: Jóhanna Ólafsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar.
Lbs 143 8vo
Á handritadeild Landsbókasafns – Háskólabókasafns er geymd skinnskræða frá 17. öld (Lbs. 143, 8vo) sem hefur að geyma nokkra galdrastafi og auk þess ýmsa texta á íslensku og latínu. Mikið af textunum er með kristnu ívafi, þar á meðal bréf frá Kristi sem mun upprunnið í Þýskalandi. Flestir stafir í skræðunni eru varnarstafir.
Á opnunni til vinstri má sjá síðari hlutann af Karla-Magnúsar letri og Ægishjálm með tilheyrandi texta, en vinstra megin Innsigli heilags anda og Salómons innsigli. Það síðastnefnda þótti máttugur verndarstafur og er til í mörgum útgáfum.
Ljósm.: Landsbókasafn – Háskólabókasafn